Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:19:45 (3827)


[15:19]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Til þessa máls er stofnað undir yfirskriftinni að ræða afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins. Málshefjandi fór síðan eins og honum er tamt um víðan völl og fjallaði um mál sem komu umræðuefninu ekki nokkurn skapaðan hlut við eins og allir þeir sem hér eru inni gátu fylgst með.
    Mál þetta sem hann hefur hér og snýr að mér sem starfandi menntmrh. þann tíma sem ég gegndi því starfi lýtur eingöngu að því að í nafni útvarpsins, að því er virtist, var undirritað bréf sem á ekki neina samsvörun í embættisbréfum í íslenskri stjórnsýslu. Það er ekki hægt að benda á neitt einasta bréf af embættismanni íslenska ríkisins sem af tilefnislausu var skrifað með þeim hætti eins og þetta bréf. Ég óskaði eftir því sérstaklega við útvarpsstjóra að hann kæmi á minn fund sem starfandi menntmrh. til að gefa mér fáeinar skýringar.
    Ég vil nefna það við þennan málshefjanda, ef hann veit það ekki þó hann hafi nú verið ráðherra, maður efast oft um hvað þessi maður veit, hvað hann þykist vita og hvað hann þykist ekki vita, að starfandi ráðherra hefur sömu réttindi og sömu skyldur og aðrir ráðherrar á þeim tíma sem hann gegnir starfinu. Það er hafið yfir vafa. Minn þáttur væri auðvitað ekki tilefni til upphlaups hér á borð við það sem hv. þm. leyfði sér að vera með nema þá því aðeins að það gangi eftir sem hv. þm. hefur gefið í skyn annars staðar, og reyndar flokksbróðir hans, hv. þm. Svavar Gestsson, að ég hafi sagt ósatt um þann fund, reyndar beinlínis verið haldið fram að útvarpsstjórinn, hinn prestvígði maður séra Heimir Steinsson, hafi sagt ósatt um þann fund og þeir tveir aðrir menn sem á fundinum voru hafi sagt ósatt um þennan fund. Ef við fjórir höfum sagt satt um þennan fund, hvað þar átti sér stað og hvað þar fór fram, þá væri ekki hið minnsta tilefni til þess að vera með upphlaup af því tagi sem hv. þm. var með, og því síður að sökkva sér jafndjúpt og ósmekklega og hann gerði hér áðan nema því aðeins að við allir fjórir höfum sagt ósatt um þennan fund. Á nefndum fundi spurði ég eingöngu um það hvort þetta bréf væri skrifað með vitneskju útvarpsstjórans, hvort hann hefði vitað um það fyrir fram. Hann svaraði því til að svo væri ekki. Ég sagðist þá vilja bera fram við hann nokkrar spurningar sem ég óskaði vinsamlegast eftir að hann svaraði skriflega og hefði svörin skriflega tilbúin þegar menntmrh. kæmi heim frá útlöndum. Hann þyrfti ekki að svara því fyrr. Útvarpsstjóri sagðist að fyrra bragði gjarnan vilja svara þessum spurningum munnlega á staðnum, þ.e. um það að hann hefði ekki vitað um efni þessa bréfs, það hefði ekki verið skrifað með hans samþykki, hans vitund og hans sátt.
    Það var jafnframt spurt og nefnt að fyrir tæpum 10 mánuðum síðan eða svo hefði útvarpsstjóri vikið dagsskrárstjóra sjónvarps úr starfi vegna ummæla hans í sjónvarpsþætti. Spurt var hvort einhver ummæli í þeim þætti hefðu nálgast að alvöru til að mati útvarpsstjóra þau ummæli sem voru í þessu bréfi sem var skrifað í nafni útvarpsins eins og bréfið bar með sér. Útvarpsstjóri svaraði því til að það hefðu engin slík ummæli verið höfð í frammi þegar honum þótti tilefni til þess að reka fastráðinn starfsmann eins og var í bréfi frá þessum starfsmanni útvarpsins, sem reyndar var lausráðinn í starf sem ekki er sett upp samkvæmt reglum í lögum eða reglum Ríkisútvarpsins. Síðan hefur verið upplýst að þetta bréf er auðvitað líka brot á starfsreglum útvarpsins.
    Þetta fór okkur á milli.
    Jafnframt það að lokum hvernig útvarpsstjóri hefði hugsað sér að bregðast við þessu bréfi. Hann sagði munnlega að það skyldi hann ráðgast um við sinn lögfræðing. Ég sagðist ekki ætlast til svars að neinu leyti, eingöngu að hin skriflegu svör við þessu væru tilbúin þegar menntmrh. kæmi heim.
    Því fer fjarri að ég hafi beðið um það að þessi tiltekni starfmaður yrði rekinn eða honum sagt upp. Það er nefnilega sá munur á mér og hv. þm. Svavari Gestssyni að ég vil ekki láta reka menn fyrir ummæli af þessu tagi. En þegar hinn fyrri starfsmaður var rekinn fyrir ummæli sem að mati útvarpsstjóra sjálfs, þess sem fyrir brottvikningunni stóð, voru miklu miklu minni og ekki eins alvarlegs eðlis eins og hin, þá hlökkuðu ákveðnir þingmenn yfir því hér í þingsalnum. Þá var ekkert spurt um mannréttindi eða leyfi til þess að tjá sig. Nei, þá var hlakkað yfir því hér í þingsalnum og fjöldi þingmanna varð sér til skammar að mínu mati af þeim ástæðum. Það var hlakkað yfir því vegna þess að sá háttvirti starfsmaður sem þá var rekinn úr fastráðnu starfi fyrirvaralaust og bannað að koma inn í stofnunina, menn höfðu horn í síðu hans í þessum sal. Nú hins vegar þegar þessi starfsmaður er rekinn, sem ég mæli ekki með, en vegna ummæla sem að mati útvarpsstjóra, þess sem rak, eru miklu alvarlegri, þá verður hér uppþot í þingsölum en af allt öðru tilefni.
    Þetta segir mikið um þá hræsni og þann tvískinnung sem ríkt hefur í þessu máli af hálfu málshefjanda og þeirra annarra sem hafa talað í málinu. Það segir mjög mikið um þann tvískinnung og þá hræsni sem ríkt hefur hér í þessu máli.
    Varðandi það atriði annað sem hér var skyndilega tekið upp þá sýnir það atriði hversu lágt þessi formaður stjórnmálaflokks og fyrrverandi fjmrh. getur lagst. Það sýnir glöggt að það er ekkert sem hann undanskilur hversu lágt í lágkúruna hann treystir sér í upphlaupsskyni að leggjast.

    Ég fékk um það upplýsingar áðan frá Heimi Steinssyni útvarpsstjóra, manni sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson kaus að segja um á Stöð 2 í gær að hefði brugðist í sínu starfi og neitaði að gefa upp afstöðu sína til þess hvort það ætti að reka hann eða ekki úr starfi. Hann var nú svo smekklegur þar þessi hv. málshefjandi. Ég fékk þær upplýsingar frá honum áðan örfáum mínútum áður en ég kom inn í þingsalinn að þessi hv. þm. hefði hringt í útvarpsstjóra og spurst fyrir um bréf sem ég hefði skrifað honum og hvort það væri embættislegt bréf sem ég hefði skrifað honum eða einkabréf. Útvarpsstjóri kvaðst hafa svarað þingmanninum þannig til að það væri einkabréf. Málið er þá þannig vaxið að á milli tveggja manna sem hafa þekkst hefur farið einkabréf. Einhverjir menn, málkunnugir hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni, hafa komist í þetta einkabréf útvarpsstjórans og ekki nóg með að þeir hafi sagt Ólafi Grímssyni frá þessu bréfi heldur hafi þeir verið að ,,dikta`` sögur upp úr þessu bréfi, einkabréfi mínu til útvarpsstjórans sem sent var eftir að tilteknir atburðir höfðu gerst. Bréf sem ekki hafði nein áhrif á þær ákvarðanir heldur einkabréf á milli manna. Þetta er alveg dæmalaust að eftir að útvarpsstjóri hafði skýrt þessum málshefjanda frá því að hér væri um að ræða einkabréf milli tveggja manna þá kemur hann hér upp með sömu dylgjum og getgátum og þessi hv. þm. er þekktur fyrir og fer að yfirheyra mig um þetta bréf. Þetta er dæmalaus málatilbúnaður eins og reyndar hefur oft gerst hjá þessum hv. þm.
    Það sem hefur vakið athygli mína á undanförnum vikum er hvernig þessir þingmenn, til að mynda hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson og hv. þm. Svavar Gestsson, slag í slag leyfa sér að fullyrða í fjölmiðlum að þessi og hinn fari með ósannindi um það sem gerðist á fundum manna þar sem þeir hafa ekki verið viðstaddir, jafnvel þó allir sem á fundinum hafa verið, sem eru ekki menn í neinum sérstökum félagsskap, hafi lýst sameiginlega hvað það var sem fram fór á fundinum. Engu síður treysta menn sér til þess að vera með getgátur og fullyrðingar um það að sú frásögn sé ósönn og á lygi byggð.
    Ég hef meira að segja orðið að búa við það að þessir þingmenn hafa haldið því fram og málgagn þeirra, Vikublaðið, í feitri fyrirsögn yfir þvera forsíðuna að ég hafi logið að forseta Íslands. Forsrh. laug að forseta Íslands, er sagt í málgagni þessara manna. Það samtal sem ég átti við forseta Íslands var á milli mín og forseta Íslands. Menn hljóta að gera kröfu til þess að menn sem halda slíku fram, þvert gegn betri vitund, rökstyðji sitt mál og séu ekki að yfirheyra hér menn um aðra hluti í þingsalnum. ( ÓRG: Sjálfsagt mál.) Það er afskaplega alvarlegt mál þegar þingmaður á borð við hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson og Svavar Gestsson skuli leyfa sér að halda því fram statt og stöðugt að útvarpsstjórinn Heimir Steinsson ljúgi því hvað gerðist á fundi sem ég átti með honum, að ég segi ósatt um það og þeir tveir hinir aðrir á staðnum sem geta staðfest okkar frásögn segi ósatt um það. Því skyldum við, ég og Heimir Steinsson, eiga eitthvert samsæri um það hvað átti sér stað á tíu mínútna fundi sem við áttum saman? Því skyldum við eiga það? Og hvaða leyfi hafa menn til þess í þjóðfélaginu og í þingsölum og annars staðar í þjóðfélaginu að vera með slíkar getgátur? Hvers konar pappírar eru það sem hafa slíkar getgátur uppi? Ég veit hvers konar pappírar það eru og það eru pappírar sem ég virði ekki mikils.