Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:29:29 (3828)


[15:29]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Áður en ég svara beinum spurningum sem til mín var beint af hv. málshefjanda vil ég segja þetta:
    Mál fyrrverandi ráðgjafa útvarpsstjóra snýst um embættisfærslu og ekkert annað en um embættisfærslu. Það snýst ekki um gæði einstakra sjónvarpsþátta sem menn hafa gert að umtalsefni í tengslum við mál hans og það snýst heldur ekki um það hverjir vinna yfirvinnu hjá Ríkisútvarpinu, sjónvarpi. Allt sem ráðgjafi útvarpsstjóra lætur frá sér fara hlýtur eðli málsins samkvæmt að vera gert í umboði útvarpsstjóra þar sem hann hefur ekki sjálfstætt umboð til eins né neins.
    Með brottvikningu ráðgjafans hefur útvarpsstjóri staðfest þær yfirlýsingar sem fram koma í bréfi ráðgjafans fyrrv. til Stéttarsambands bænda að þær séu útvarpsstjóra óviðkomandi. Brottvikningin er algerlega ákvörðun útvarpsstjóra. Hvorki ég né hæstv. forsrh. Davíð Oddsson þrýstum þar á. Allar fullyrðingar um slíkt eru úr lausu lofti gripnar og segja meira um þá sem halda þeim málflutningi uppi en nokkuð annað. Og þeir sem halda að Heimir Steinsson útvarpsstjóri hlusti á slíkt þekkja hann ekki neitt.
    Málið snýst sem sagt um embættisfærslu. Innihald bréfsins sem fyrrv. ráðgjafi lét frá sér fara með þeim yfirlýsingum og aðdróttunum sem þar komu fram gáfu að sjálfsögðu tilefni til að kannað væri á formlegan hátt hvort þar færu yfirlýsingar útvarpsstjóra sjálfs. Starfandi menntmrh., hæstv. forsrh., kallaði þess vegna útvarpsstjóra á fund til sín ásamt skrifstofustjóra menningarmála menntmrn., en undir þá skrifstofu heyra málefni Ríkisútvarpsins. Ég hefði gert alveg nákvæmlega það sama. Á þessum fundi var einnig aðstoðarmaður forsrh., eins og komið hefur fram. Þarna var sem sagt eingöngu um sjálfsögð embættisverk að ræða og hugsanlega brottvikningu ráðgjafans bar alls ekkert á góma. Það hefur Árni Gunnarsson, skrifstofustjóri menningarmálaskrifstofunnar, staðfest við mig í morgun.
    Það væru embættisafglöp og mikill ábyrgðarhluti ef stjórnvöld létu ókannað hvort einn af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, í þessu tilviki útvarpsstjóri, héldi því fram að allar grundvallarreglur lýðræðis og faglegra vinnubragða hafi verið hundsaðar og að linnulaus pólitísk misnotkun eigi sér stað í þeirri stofnun sem hann ber ábyrgð á. ( Gripið fram á: Er það ekki pabbadrengjanna?) Með þessu er ekki tekin efnisleg afstaða til gæða þeirra sjónvarpsþátta sem um ræðir í bréfi ráðgjafans fyrrv. Um þau gæði má auðvitað deila. Kjarni málsins er hins vegar sá að stjórnvöld hlutu að kanna hvort hér væri um formlega afstöðu yfirmanns Ríkisútvarpsins að ræða og í ljós kom að svo var ekki.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson spurði mig nú ekki hvaðan ég hefði fengið bréfið frá ráðgjafanum fyrrv. Ég get upplýst það að ég fékk það sent með símbréfi fimmtudaginn 3. feb. til Lundar í Svíþjóð frá fréttastofu Ríkisútvarpsins, beint frá fréttastofu Ríkisútvarpsins. Bara svo að það sé engin leynd yfir því hvernig það barst í mínar hendur.
    Hv. þm. spurði hvað mér þætti um gerning forsrh., þ.e. að hafa kallað útvarpsstjóra á sinn fund án þess að láta mig vita. Ég vissi allt um þetta mál. Það er símasamband á milli Íslands og annarra ríkja Norðurlanda og hægt að senda símbréf þannig að ég fylgdist alveg með þessu allan tímann.
    Þá spyr hv. þm. hvað ég hafi átt við með orðum sem eftir mér eru höfð í Morgunblaðinu. Hann sagði að vísu fyrr í ræðu sinni að eftir mér væri haft að fyrr hefði átt að reka Arthúr Björgvin Bollason frá störfum og síðan spinnur hann náttúrlega ræðuna í kringum svona vitleysu sem ég hef aldrei látið fara frá mér, aldrei. Í Morgunblaðinu segi ég að mér hefði þótt tímabært að stoppa hann af fyrr og það er bara allt annað en að víkja mönnum úr starfi. Ég hafði ástæðu til að segja þetta vegna þess að ég hafði séð ýmislegt frá þessum fyrrv. ráðgjafa áður sem forsrh. hefur sjálfsagt ekki séð. Reyndar eru það engin leyniplögg vegna þess að þeim var dreift til starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ég hef tvö slík bréf undir höndum. Þau eru eins og ég segi engin leyniplögg en að mínu mati þá sæma þau ekki ráðgjafa útvarpsstjóra frekar en þetta bréf sem hér er til umræðu.
    Hv. frummælandi spyr svo hvort mér þyki ekki tímabært að grípa í taumana og, að mér skilst, víkja Hrafni Gunnlaugssyni úr starfi vegna ákvarðana sem hv. þm. sagði að framkvæmdastjórinn hefði tekið varðandi úthlutun á yfirvinnu. Af þeirri ástæðu þykir mér ekki tími til að grípa í taumana einfaldlega vegna þess að menntmrh. hefur ekkert með niðurröðun yfirvinnutíma að gera hjá Ríkisútvarpinu.
    Hér er sem sagt um að ræða að útvarpsstjóri tekur þá ákvörðun að segja upp verksamningi við ráðgjafa sinn vegna þess að hann vill ekki sitja undir því að ráðgjafi og samverkamaður hans sendi frá sér bréf eins og hann gerði. Útvarpsstjóri vill ekki gera það. Þess vegna tekur hann þessa ákvörðun og ákvörðunin var hans. Ég hef hins vegar látið það frá mér fara að ég sjái ekkert athugavert við það að útvarpsstjóri taki þessa ákvörðun og ég geri ekki athugasemd við það. En ég hef ekki beðið um að þessum manni, frekar en öðrum, yrði vísað úr starfi. Það hef ég ekki gert.
    Það hefur verið spurt, að vísu ekki í þessari umræðu, af hverju aðvörun eða áminning hefði ekki verið látin duga. Það er líka ákvörðun útvarpsstjóra. Og þar sem þarna var um verksamning að ræða þá þurfti auðvitað ekki aðvörun. En hver segir að hún hafi ekki einhvern tímann verið gefin? Ég veit ekki til að það liggi neitt fyrir um það. Mér þykir ekki ólíklegt einmitt að útvarpsstjóri hafi nú einhvern tímann talað áður við þennan ráðgjafa sinn um þá pappíra sem hann hefur látið frá sér fara á þessum tiltölulega stutta starfstíma.
    Ég held að það hafi ekki verið beint til mín fleiri beinum spurningum, en heyrði ég rétt? Hv. þm. má grípa fram í fyrir mér og svara annaðhvort já eða nei. Sagði hann að menntmrh. og, þá ég, hefði lengi haft horn í síðu Örnólfs Árnasonar? ( ÓRG: Það var mismæli. Ég átti við forsrh.) Það er einmitt það. Þá tek ég það til greina vegna þess að ég þekki manninn ekki neitt og hef aldrei tjáð mig nokkurn skapaðan hlut um hann eða hans verk.