Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:42:28 (3830)


[15:42]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Um hvað snýst þetta mál? Um embættisfærslu, segir hæstv. menntmrh., en að mínum dómi er það alrangt. Þetta mál snýst um það ástand sem upp er komið í Ríkisútvarpinu og það ástand er afleiðing af þeirri gerð hæstv. menntmrh. að skipa Hrafn Gunnlaugsson sem settan framkvæmdastjóra sjónvarpsins eftir að hann hafði verið rekinn úr starfi við þá sömu stofnun. Það var vitað að þessi gerð mundi kosta átök innan stofnunarinnar og það er staðreynd að frá þeim tíma sem hann var skipaður hefur stofnunin verið í hers höndum eða í herkví eins og Arthúr Björgvin Bollason kemst að orði í sínu bréfi þannig að það sem við stöndum hér frammi fyrir var það sem hlaut að gerast. Það hlaut að koma að því að einhver starfsmanna Ríkisútvarpsins risi upp og mótmælti þeirri misnotkun á Ríkisútvarpinu sem við höfum horft upp á mánuðum saman.
    Í annað sinn stöndum við frammi fyrir óþolandi afskiptum ráðherra ríkisstjórnarinnar af sjálfstæðri ríkisstofnun, mikilvægustu menningarstofnun þjóðarinnar og við kvennalistakonur mótmælum því harðlega hvernig hér er staðið að verki. Þetta er ítrekuð valdníðsla.
    Ég get auðvitað ekki fullyrt hvað gerðist á fundi Davíðs Oddssonar, hæstv. forsrh., og þeirra sem hann kallaði þar til þegar hann fékk útvarpsstjóra á sinn fund, kallaði hann inn á teppið. En við eigum að trúa því að þar hafi einungis verið beðið um skýringar á ákveðnu bréfi.
    Það er ákaflega einkennilegt að hlusta á málflutning ráðherranna varðandi þetta bréf. Þeir hafa haldið því fram að þeir séu kallaðir nasistar og gyðingamorðingjar. Því fer víðs fjarri. Það er fyrst og fremst verið að tala um ákveðnar hugmyndir sem fram koma í þeim þáttum sem eru rótin að þessum skrifum. Ég bendi á það að bréfritarinn, Arthúr Björgvin Bollason, er sérfræðingur í hugmyndafræði nasista og hefur skrifað um hana heila bók þannig að hann ætti að vera henni kunnugur, en ég ætla ekki að fella dóm um það hversu skyldar þessar hugmyndir eru. En ráðherrar hafa afflutt þetta bréf og þeir kalla þetta embættisfærslu --- er Arthúr Björgvin Bollason embættismaður? Telst hann vera embættismaður? Hann er aðstoðarmaður útvarpsstjóra til að sinna ákveðnum verkefnum. Skrifar hann bréf útvarpsstjóra? Var ástæða til þess að ætla það að skoðanir í bréfi sem er undirritað af Arthúri Björgvin Bollasyni og með hans starfstitli túlki skoðanir útvarpsstjóra? Hér er afar sérkennilegur málflutningur ráðherra á ferð og alveg ljóst að þeir hafa kallað þennan æðsta embættismann þessarar sjálfstæðu ríkisstofnunar á sinn fund, þ.e. hæstv. forsrh. Hann kallar hann inn á sinn fund og því fylgja auðvitað ákveðin skilaboð, bæði til útvarpsstjóra sjálfs og til þjóðarinnar. Og þetta eru vinnubrögð sem eru allsendis óþolandi.
    Það er ekki hægt að komast hjá því að minnast aðeins á ummæli hæstv. forsrh. Hann hefur sagt það hér að menn hafi hlakkað yfir brottrekstri Hrafns Gunnlaugssonar. Brottrekstur Hrafns Gunnlaugssonar kom aldrei til umræðu hér á þingi heldur sú gerð hæstv. menntmrh. að skipa hann í embætti eftir að hann hafði verið rekinn frá þeirri sömu stofnun. Og ég tek innilega undir það með hæstv. forsrh. að það eru óeðlileg vinnubrögð að vera að reka fólk með þessum hætti. Það eru óeðlileg vinnubrögð. Það eru mjög sérkennileg vinnubrögð hjá yfirmanni Ríkisútvarpsins að vera sífellt að reka menn í stað þess að gefa þeim áminningu og gefa þeim kost á því að bæta ráð sitt. Ég get ekki látið hjá líða að gagnrýna það hvernig útvarpsstjóri hefur komið fram í þessu máli sem og öðrum.
    Það sem við stöndum hér frammi fyrir er það hvaða áhrif þessi atburðarás hefur á sjálft Ríkisútvarpið og það er auðvitað mergurinn málsins. Hvað eru þessi afskipti ráðherranna að gera Ríkisútvarpinu? Það er hin alvarlega spurning í þessu máli og þessum afskiptum verður að linna. Það má heldur ekki gleyma því hver er kjarni málsins. Hvað er þessi starfsmaður að segja sem hefur skrifað mjög harðort bréf? Hann er að benda á það að Ríkisútvarpið hefur verið misnotað af ákveðnum öflum. Þar hefur kröfum um gæði og þekkingu verið ýtt til hliðar til þess að leyfa stuttbuxnadeild Sjálfstfl. að æfa sig í sjónvarpinu og þar hefur 15. gr. útvarpslaganna þar sem kveðið er á um skyldur útvarpsins til þess að gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð, sú regla hefur verið þverbrotin æ ofan í æ. Þetta er óþolandi. Það þarf að bæta úr þessu, það þarf að leyfa Ríkisútvarpinu að vinna í friði og þessum afskiptum þarf að linna.