Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:54:34 (3832)


[15:54]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Þegar litið er á þetta mál og þessa framhaldssögu alla hjá Ríkisútvarpinu þá finnst mér að þetta sé öðru fremur tvíþætt. Í fyrsta lagi snýr þetta mál að þeirri gagnrýni sem ráðgjafi útvarpsstjóra setti réttilega fram að mínu mati í bréfi til bændasamtakanna þar sem hann gagnrýnir dagskrárgerð á vegum framkvæmdastjóra sjónvarpsins. Það má eins og hér hefur komið fram vissulega efast um málatilbúnaðinn í því bréfi en efnislega stendur sú gagnrýni og hún hefur núna hlotið stuðning hjá stjórn starfsmannasamtaka Ríkisútvarpsins í sérstakri samþykkt sem þar varð gerð hinn 5. febr. sl. þannig að efnislega stendur hún.

    Í öðru lagi snýr þetta mál að dæmalausum afskiptum ráðherra Sjálfstfl. af innri málefnum Ríkisútvarpsins. Hér hefur hvað eftir annað verið sagt réttilega að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð ríkisstofnun. Í því felst að Ríkisútvarpið eins og aðrar slíkar stofnanir lýtur ekki boðvaldi ráðherra og það er mikilvægt að hafa þetta í huga. Það gildir ekki það sama um sjálfstæðar ríkisstofnanir og aðrar ríkisstofnanir sem við getum kannski kallað einhverja sérstaka miðstjórnarhafa.
    Það er ástæða til þess að hafa þetta í huga og þetta þarf að setja í víðara samhengi til þess að mönnum verði ljósir þeir stjórnarhættir sem hér hafa viðgengist síðan Davíð Oddsson, hæstv. núv. forsrh., settist í það embætti því að þetta er ekki fyrsta málið af þessu tagi sem kemur upp varðandi sjálfstæðar ríkisstofnanir. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem menn eru kallaðir á hvalbeinið eða teknir á teppið hjá hæstv. forsrh. vegna skoðana sinna og ummæla. Og ég ætla að minna í því sambandi á afskipti forsrh. af öðrum yfirmönnum, t.d. Guðmundi Malmquist, forstjóra Byggðastofnunar, þegar hann var kallaður á hvalbeinið vegna ummæla sem hann viðhafði. Þórður Ólafsson, forstöðumaður bankaeftirlits Seðlabanka ríkisins, var kallaður á hvalbeinið vegna ummæla sem hann viðhafði. Bæði Seðlabankinn og Byggðastofnun eru sjálfstæðar ríkisstofnanir og lúta ekki boðvaldi ráðherra. Það sama á við um útvarpið og þegar ráðherra kallar þessa menn fyrir á teppið með þessum hætti þá felast auðvitað í því mjög ákveðin skilaboð þó svo að ráðherra segi kannski ekki beinum orðum að það eigi að hreinsa til eða menn eigi að biðjast afsökunar eða menn eiga að reka einhverja. Það eru mjög skýr skilaboð sem í þessu felast og þetta er ekki í fyrsta sinn eins og ég segi. Þetta eru stjórnarhættirnir. Það á að beita valdi til hins ýtrasta og það á að fá menn til þess að lúta valdboði. Í þessu felst bein og óbein skoðanakúgun, hvað sem menn kjósa að kalla það. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvenær verður háskólarektor kallaður á teppið hjá menntmrh. eða forsrh. fyrir einhverjar skoðanir sem hann setur fram á bréfsefni Háskólans eða þá háskólaprófessorar eða aðrir slíkir? Hvenær kemur að því að röðin komi að háskólarektor sem stjórnar líka sjálfstæðri ríkisstofnun?
    Hér vil ég minna á í þessu sambandi að það hefur verið tekin saman greinargerð á vegum ráðgjafarþjónustu Lagastofnunar Háskóla Íslands um muninn sem er á sjálfstæðum ríkisstofnunum og öðrum ríkisstofnunum og lögð fram hér við umfjöllun m.a. um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þar geta menn lesið sér til um þetta, hvernig þessu er háttað. Og þarna verða menn að gera mjög skýran greinarmun á og það er mikilvægt, sérstaklega þegar menn eru að tala um menningarstofnanir, þegar við erum að tala um bankastofnanir og aðrar slíkar sem þurfa að vera sjálfstæðar og lausar undan járnhæl ráðherranna.
    Hér hafa menn sagt að pólitískum afskiptum af Ríkisútvarpinu verði að linna og það tek ég undir heils hugar vegna þess að þau eru á góðri leið með að eyðileggja Ríkisútvarpið. Þessi afskipti eru á góðri leið bæði með að eyðileggja starfsandann á stofnuninni og eins orðstír stofnunarinnar út á við.