Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 15:58:16 (3833)



[15:58]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Einkabréf fór á flug, það var frá Arthúri Björgvin Bollasyni til Hauks Halldórssonar. Var ástæða til þessara bréfaskrifta? ( Gripið fram í: Já.) Já, það var ástæða til þessara bréfaskrifta. Bændur hafa verið lagðir í einelti í sjónvarpinu. Útvarpsstjóri hefði raunar átt að skrifa svona bréf sjálfur með sínu orðalagi, ekki bara handa Hauki Halldórssyni heldur handa bændum í landinu sem hann skuldar afsökunarbeiðni á hvernig sjónvarpið hefur hagað sér í þeirra garð.
    Menn hafa gert það að miklu máli að bréfið hafi verið ritað á bréfhaus stofnunarinnar. Ég geri nú ekki svo mikið með það. Ég er með fyrir framan mig bréfhaus Alþingis, þ.e. Alþingi Íslendinga stendur í þessum bréfhaus. Ef ég skrifaði sendibréf á þessa örk mína, mundi einhver halda að það væri skrifað í nafni þessarar stofnunar? Nei, það væri auðvitað í mínu nafni undirskrifað af mér. Titlatog í undirskriftinni sem fylgir nafni Arthúrs Björgvins Bollasonar reikna ég honum eingöngu til hégómaskapar.
    Efni bréfsins. Þar eru settar fram staðhæfingar. Við skulum skoða þær aðeins nánar. Þær eru allar gersamlega réttar. Ríkissjónvarpið er í pólitískri herkví og hefur verið það síðan í vor. Þar starfa a.m.k. einn eða tveir menn sem eru í hlekkjum hugarfarsins. Þeir lifa í einhverjum brengluðum hugarheimi og eru haldnir þráhyggju og árásaráráttu á eina stétt í landinu. Þeir telja bændastéttina eitthvert skrímsli sem þurfi að berja á og rægja með öllum hætti og tilgangurinn helgi meðalið. Hver sjónvarpsþátturinn eftir annan hefur verið gerður í þessu skyni, til að ófrægja bændur. Það er ekki sagnfræði, það er ekki heimildavinna, þar eru ekki fagleg vinnubrögð. Að vísu var seinasti þátturinn býsna lúmskt uppsettur áróðursþáttur, ekki barnalegur eins og hinir fyrri. En hann var býsna lúmskt settur upp sem áróðursþáttur. Ósannar staðhæfingar voru endurteknar í síbylju. Flestir vita að þær eru ósannar og það er auðvelt að sanna að þær eru ósannar. En þær eru endurteknar til að reyna að láta það síast inn hjá fólkinu í landinu að það sé nú kannski eitthvað tortryggilegt þarna á seyði. Það eru nefndir nasistar í þessu bréfi. Nasistar urðu ekki fyrstir til að ljúga upp á þá sem þeir vildu rægja. Það hefur verið gert frá aldaöðli. Nasistar stunduðu aðferðina hins vegar kerfisbundið og notuðu akkúrat þessa síbyljuaðferð. Nú vita menn að sjónvarpið stundar ekki fjöldaaftökur á bændum en það er verið að reyna að myrða mannorð bænda sem er allillt og koma óorði á stéttina í heild og trúnaðarmenn hennar.
    Jón Sæmundur Sigurjónsson, fyrrv. alþm., líkti vinnubrögðum Grænfriðunga fyrir nokkrum árum

við vinnubrögð nasista. Grænfriðungar reiddust en engum datt í huga að reka Jón Sæmund Sigurjónsson frá starfi fyrir það sem hann sagði.
    Í sjónvarpsþætti fyrir skemmstu, þessum seinasta, voru trúnaðarmenn bænda fullum fetum og ítrekað kallaðir mafía. Það er hroðalegt orðbragð. Mafían er glæpafélag og nær okkur í tíma en nasistar á fjórða áratugnum. Ég get nú satt að segja ekki hugsað mér fráleitari mafíósa heldur en Hauk Halldórsson. Hann kann ekki og notar áreiðanlega ekki vinnubrögð mafíósa. Hann er vænn og heiðarlegur maður. Hann hefur stundum legið undir ágjöf, ekki fyrir harðdrægni, ekki fyrir óheiðarleg vinnubrögð, heldur fyrir að vera óþarflega sveigjanlegur og standa ekki nægilega dyggan vörð um hagsmuni þeirrar stéttar sem honum er trúað fyrir.
    Í bréfinu er minnst á pólitíska íhlutun ráðherra og það er nú vægilega orðað í þessu bréfi. Afskipti ráðherranna af Ríkisútvarpinu, sem hafa verið óheimil því eins og hér hefur komið fram var þetta sjálfstæð ríkisstofnun og á að vera það, markast af siðblindu, fólsku og spillingu. Þeir þvo sér hér báðir eins og Pílatus forðum, forsrh. og menntmrh. og segja: Sýkn er ég, sýkn er ég, það er Heimir sem ber sökina af blóði þessa réttláta manns. En það kann nú að vera, útvarpsstjóri er kristinn og kærleiksríkur og hann tekur á sig sökina. Jú, jú, ég rak hann, ég ber ábyrgðina, ég rak hann. Hann hafði náttúrlega dálítinn umhugsunarfrest til þess. Ég er ekkert að rengja það hjá forsrh. að hann hafi ekki skipað útvarpsstjóra beinum orðum að reka Arthúr Björgvin Bollason. En það kynni nú að vera að útvarpsstjóra hafi orðið það ljóst þarna á teppinu hjá forsrh. að hann sæti ekki sem fastast í útvarpsstjórahnakknum og þess vegna hafi hann látið hjálparmanninn fjúka. Ekki síst eftir dólgslegar yfirlýsingar hæstv. menntmrh. sem hann viðhafði þegar hann var í útlöndum og var að senda hér tóninn heim. Og ég spyr: Hvers vegna eru mennirnir að láta svona? Eru þeir að reyna að styrkja áróðursstöðu sína? Í og með. En megintilgangurinn er auðvitað að eyðileggja Ríkisútvarpið og dýr verður Hrafn allur.