Afskipti ráðherra af málefnum Ríkisútvarpsins, sjónvarps

83. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:09:14 (3836)


[16:09]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Allt síðasta ár þegar hæstv. forsrh. var spurður um málefni Hrafns Gunnlaugssonar sagði hann hvað eftir annað að hann, Davíð Oddsson, hefði engin afskipti haft af því máli. Þær eru margar til upptökurnar á sjónvarpsstöðvunum og útvarpsstöðvunum þar sem hæstv. forsrh. segir skýrt að hann hafi engin afskipti haft af málefnum Hrafns Gunnlaugssonar í sjónvarpinu.
    Ég kaus að trúa hæstv. forsrh. eins og kannski þjóðin öll á liðnu ári og það var þess vegna sem mér þóttu það mikil tíðindi þegar ég frétti það fyrir nokkrum dögum að sama daginn eða næsta dag á eftir þegar Hrafn Gunnlaugsson var rekinn hefði Davíð Oddsson forsrh. Íslands skrifað útvarpsstjóra Heimi Steinssyni bréf, harðort bréf, stóryrt bréf. Ég trúði því ekki að hæstv. forsrh. Íslands hefði allt sl. ár staðið frammi fyrir þjóð sinni og sagt: Ég hef engin afskipti haft af þessu máli og síðan hefði það verið sannleikurinn að hann hefði skrifað bréf til útvarpsstjóra. Mér var tjáð það að þrír af embættismönnum útvarpsins a.m.k. hefðu lesið þetta bréf og það er ljóst að útvarpsstjóri leit ekki á málið sem slíkt einkabréf að hann sýndi það ekki öðrum embættismönnum útvarpsins. ( Forsrh.: Hvað sagði hann við þig í dag?) Ég kem að því, hæstv. forsrh., vegna þess að í aumlegri vörn hér í dag gerir hæstv. forsrh. spurningu mína til útvarpsstjóra að aðalatriði. Það er rétt. Ég spurði hæstv. útvarpsstjóra að því: Lítur þú á bréf Davíðs Oddssonar til þín sem persónulegt bréf eða embættisbréf? Hvers vegna orðaði ég spurninguna á þann veg? Jú, fram að svari útvarpsstjóra var ég enn þá ekki viss hvort virkilega væri rétt að slíkt bréf hefði verið skrifað. Og útvarpsstjórinn staðfesti það með svari sínu að slíkt bréf væri skrifað.
    Ég spurði útvarpsstjóra einnig: Á hvaða bréfhaus var bréf hæstv. forsrh. skrifað? Og útvarpsstjóri sagði: Það man ég ekki. Það er nokkuð um liðið síðan ég hef litið á bréfið. Og auðvitað er það rétt sem fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson sagði hér áðan, að í þessu máli getur Davíð Oddsson, íbúi á Lynghaga í Reykjavík, ekki skilið sig frá Davíð Oddssyni forsrh. sem skrifar til útvarpsstjóra. Þess vegna er það auðvitað staðreynd að vilji hæstv. forsrh. halda því fram að hér sé eingöngu um persónulegt bréf hans sem óbreytts borgara á Íslandi að ræða og í engu vikið að stöðu hans sem formanns Sjálfstfl., í engu vikið að því hvers vegna Heimir Steinsson var gerður að útvarpsstjóra og hverjir gerðu hann að útvarpsstjóra og í engu vikið að embættislegum verkum hæstv. útvarpsstjóra, þá getur hæstv. forsrh. sannað það mál sitt með því að birta þetta bréf. Þetta bréf er til í skjalasafni útvarpsins, hæstv. forsrh. Útvarpsstjóri lítur ekki á bréfið sem einkabréf. Hann geymir það í skjalasafni útvarpsins og hann hefur sýnt það öðrum háttsettum embættismönnum útvarpsins. Vilji hæstv. forsrh. standa eftir sem maður sannleikans í þessu máli lætur hann þegar í stað ef hann hefur ekki eintak af bréfinu sjálfur sækja það upp í Ríkisútvarp og birta það í dag. Ég geri þá kröfu svo að þjóðin öll geti séð hvort hæstv. forsrh. fer nú með rétt mál, því það er orðið sannað að í fyrra fór hann ekki með rétt mál, hann birti bréfið. Hæstv. forsrh. Davíð Oddsson á ekki um annað að velja en annaðhvort að birta bréfið þannig að allir megi sjá að það sé eingöngu um persónulegt bréf að ræða hvað allt efni snertir eða hæstv. forsrh. Davíð Oddsson segi af sér.
    Grundvallaratriði er að þjóð geti treyst orðum forsrh. Þjóðin trúði því að hann hefði engin afskipti haft af málefnum Hrafns Gunnlaugssonar. Nú er komið í ljós að hann skrifaði bréf. Hann segir: Það er einkabréf, það er persónubréf. Það verðurðu að sanna, hæstv. forsrh., því að sundur verður ekki skilið persónan Davíð Oddsson og forsrh. Davíð Oddsson í málefnum útvarpsins, enda er alveg ljóst að þrátt fyrir svar útvarpsstjóra til mín vegna þess að spurningin var borin upp fyrst og fremst til að fá staðfestingu á því að bréfið væri til, orðalagið var valið gagngert til að fá staðfestinguna á því að bréfið væri til, þá hefur útvarpsstjóri litið á bréfið sem bréf til útvarpsstjóra. Ég endurtek þess vegna, virðulegi forsrh. Davíð Oddsson: Í þessu máli á hæstv. forsrh. bara tvo kosti: Að birta bréfið og sanna það að eingöngu sé um persónulegt bréf að ræða. Birti hann ekki bréfið eða komi í ljós að ekki sé um persónulegt bréf að ræða, þá verður hæstv. forsrh. Íslands, Davíð Oddsson, að segja af sér. Mig minnir að ég hafi bent á það hér í umræðum um Hrafnsmálið á síðasta ári að hæstv. forsrh. tjáði sig lítt ef þá nokkuð í þeirri umræðu og mig minnir að ég hafi þá sagt að það kunni kannski að vera skýringin á því að hann vildi ekki hér á Alþingi þurfa að svara spurningum sem hann hafði svarað í fjölmiðlum. Enn nú hefur hann svarað þeim á Alþingi. Nú hefur hann viðurkennt að bréfið sé til. Ég spurði hæstv. forsrh. um efni bréfsins. Hann svaraði því engu. Ég fullyrti samkvæmt frásögn, sem ég hef heyrt, um nokkur efnisatriði bréfsins. Um það sagði hæstv. forsrh. ekkert. Ég skora því á hæstv. forsrh. að birta bréfið, láta ná í það upp í Ríkisútvarp strax í dag ef hann hefur það ekki sjálfur undir höndum og birta það.
    Við höfum fylgst með orðum hæstv. forsrh. í öðrum málum. Þjóðin fylgdist með orðunum um þyrluna í fyrra. Við þekkjum efndirnar á þeim orðum. Þjóðin fylgdist með yfirlýsingunni um þyrluna fyrir utan þinghúsið fyrir nokkru. Hæstv. forsrh. er kominn í þá stöðu að hann verður að segja satt. Hann verður að gera meira, hann verður að sanna það að hann segi satt.
    Aðstoðarmaður forsrh. sagði í sjónvarpsviðtali nú um helgina, annað af þeim tveimur vitnum sem hæstv. forsrh. hefur kallað til í þessu máli, að það hafi eingöngu verið bornar upp þrjár einfaldar spurningar á fundi útvarpsstjóra og forsrh. sl. fimmtudag og síðan hafi þeir talað um veðrið. Nú staðfestir hæstv. forsrh. hér í dag að hann hafi spurt útvarpsstjóra á umræddum fundi á fimmtudaginn hvort ummæli Hrafns Gunnlaugssonar í þættinum fræga forðum væru alvarlegri en ummæli Arthúrs Björgvins Bollasonar í bréfinu og spurði síðan hæstv. útvarpsstjóra að því hvað hann hygðist gera. Það vita auðvitað allir eins og fyrrv. forsrh. Steingrímur Hermannsson sagði hér, að fyrst hæstv. forsrh. Davíð Oddsson fór að gera samanburð á ummælum Arthúrs Björgvins Bollasonar og ummælum Hrafns Gunnlaugssonar og spurði um aðgerðir, þá var alveg ljóst hvað hæstv. forsrh. var að segja. Enda fór útvarpsstjóri strax í embættishús sitt og sagði Arthúri Björgvin Bollasyni upp. Íslenska máltækið ,,skilst fyrr en skellur í tönnum`` er auðvitað orð að sönnu í þeim efnum fyrst hæstv. forsrh. viðurkennir það hér í dag að hann hafi nánast komið þeim tilmælum á framfæri með samanburðinum sjálfum þó hann orðaði ekki brottreksturinn, hvað ætti að gera.
    Því miður er það þannig að framganga Sjálfstfl. öll í þessu máli, setning framkvæmdastjórans, misbeiting á umræðuþáttum í allan vetur, bréfaskriftir forsrh. til útvarpsstjóra þegar Hrafni Gunnlaugssyni er sagt upp, fundurinn í forsrn. á fimmtudaginn eru öll með þeim hætti að siðareglur lýðræðislegs samfélags hafa verið þverbrotnar af forustu Sjálfstfl. í þessum málum. Og hæstv. forsrh. verður að vera maður til þess að sýna þjóð sinni í dag með því að birta bréf sitt til útvarpsstjóra að hann hafi í dag farið með rétt mál. Ég veit að orð mín eru þung hvað það snertir að biðja um afsökun hæstv. forsrh. En forsrh. sem ekki segir þjóð sinni satt á engan annan kost.