Sameiginleg forsjá

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:33:50 (3840)


[16:33]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Sem svar við fyrri lið fyrirspurnarinnar er það að segja að samkvæmt upplýsingum frá öllum sýslumannsembættum landsins voru staðfestir 268 samningar um sameiginlega forsjá á grundvelli 33. gr. barnaverndarlaganna, nr. 20/1992, á því tímabili sem um er spurt. Rétt er að taka fram að líkur eru á að í þessari tölu felist í einhverjum tilvikum tveir samningar sömu foreldra, í þeim tilvikum þar sem fyrst hefur verið samið um sameiginlega forsjá við skilnað að borði og sæng og síðar við lögskilnað sömu foreldra.
    Sem svar við 2. tölulið er það að segja að samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættum landsins fékk móðir forsjá samkvæmt samningum í 1.087 tilvikum en faðir í 76. Í forsjármálum er til úrskurðar gengu í dómsmrn. fékk móðir forsjá í sex tilvikum en faðir í tveimur og samkvæmt upplýsingum frá

dómstólum landsins fékk móðir forsjá í tveimur málum en faðir í einu.
    Ég vil svo benda á að gefnu þessu tilefni að reynslan er sú sem fengist hefur af forsjármálum frá gildistöku barnalaganna í júlímánuði 1992 að forsjármálum hefur fækkað til muna frá því sem var síðustu árin fyrir gildistöku nýju laganna.