Ættleiðing barna

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:38:42 (3842)


[16:38]
     Fyrirspyrjandi (Tómas Ingi Olrich) :
    Virðulegi forseti. Mér hafa borist upplýsingar um það að íslensk hjón sem búsett eru erlendis, raunar í einu af Norðurlöndunum, hafi gert tilraun til þess að ættleiða barn og fengið þær upplýsingar að þau gætu ekki fengið hið ættleidda barn skráð sem íslenskan ríkisborgara vegna þess að þau ættu lögheimili erlendis en ekki á Íslandi. Það virðist því liggja ljóst fyrir af þeim svörum sem þessir foreldrar hafa fengið frá íslenskum yfirvöldum að þau eiga ekki nema tvo kosti í stöðunni, annaðhvort að flytja lögheimili sitt til Íslands til þess að hið ættleidda barn geti fengið íslenskan ríkisborgararétt ellegar þá að sækja um ríkisborgararétt erlendis. Af þessum sökum taldi ég rétt að inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvaða lagafyrirmæli, reglugerðarákvæði ellegar þá aðrar stjórnvaldsákvarðanir standi í vegi fyrir því að íslenskir ríkisborgarar með lögheimili erlendis geti ættleitt börn.