Réttindi Íslendinga í Bandaríkjunum

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:46:46 (3845)


[16:46]
     Fyrirspyrjandi (Jóhannes Geir Sigurgeirsson) :
    Virðulegur forseti. Ég er hér með fsp. til hæstv. utanrrh. um réttindi Íslendinga í Bandaríkjunum. Fsp. er borin fram á þskj. 497 og hljóðar þannig, með leyfi forseta:
    ,,Hvernig stendur á því að Íslendingar, búsettir tímabundið í Bandaríkjunum vegna viðskipta þar, njóta ekki sömu réttinda og þegnar annarra Norðurlandaþjóða, þ.e. geta ekki fengið svokallað ,,e-visa``?
    Staðreynd málsins virðist vera sú að Íslendingar, sem tímabundið eru búsettir í Bandaríkjunum vegna viðskiptahagsmuna okkar þar, njóti ekki sömu réttinda og þegnar annarra Norðurlanda. Íslendingar verða að sækja um ,,j-visa`` og það er nokkuð flókið mál, tekur töluverðan tíma og verða m.a. að fá umsögn hjá vinnumálaskrifstofu í Bandaríkjunum um það hvort viðkomandi aðilar fái starfsleyfi tímabundið þar í landi. ,,E-visa`` eins og aðrar Norðurlandaþjóðir virðast hafa aðgang að er hins vegar gefið út í heimalandinu og þarf enga frekari stimpla þar á. Það eru dæmi þess, og sem afleiðingar af þessu, að Íslendingar sem dvelja í viðskiptaerindum í Bandaríkjunum dvelji þar á venjulegu ferðamanna-visa og fari síðan heim á þriggja mánaða fresti til þess að fá það endurnýjað. Þetta er í raun ólöglegt og það er mitt mat að íslensk stjórnvöld eigi og þeim beri skylda til að gera hvað þau geta til þess að auðvelda okkur Íslendingum viðskipti við þennan mikilvæga markað sem Bandaríkin Norður-Ameríka eru óneitanlega fyrir okkur.
    Það kann að vera að ástæðan fyrir þess sé sú að við Íslendingar höfum ekki vináttu- og samstarfssamning við Bandaríkin sem þessi réttindi að öllu jöfnu byggja á.
    Virðulegur forseti. Ég þarf ekki að hafa fleiri orð við að fylgja þessari fsp. úr hlaði.