Íslenskt heiti á "European Union"

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 16:57:09 (3849)


[16:57]
     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber fram fsp. til hæstv. utanrrh. Hana er að finna á þskj. 538 um íslenskt

heiti á það sem á ensku er kallað ,,European Union``. Ég spyr:
    ,,Hver er tillaga utanrrn. um opinbert íslenskt heiti og skammstöfun á European Union sem varð til með gildistöku Maastricht-sáttmálans 1. nóv. 1993?``
    Tilefni þess að spurt er er að þarna er komið nýtt heiti nýjan samning sem áður var kenndur við Evrópubandalagið eða ,,European Community`` sem við kölluðum Evrópubandalagið þangað til þessi nýi samningur kenndur við Maastricht var gerður. Ég hef ekki orðið var við að utanrrn. gæfi út fréttatilkynningu varðandi þetta efni sem hér er spurt um, og kann það þó að vera, þeir eru nú ósparir á þeim bæ á fréttatilkynningar og það er út af fyrir sig vel að halda mönnum upplýstum um hugsanir og gerðir hæstv. utanrrh. En hafi það verið gert þá hef ég ekki lesið þá tilkynningu með athygli a.m.k. ( Utanrrh.: Það gæti ekki hafa farið fram hjá hv. þm.) Það kann að vera, hæstv. ráðherra. Hér er hins vegar um að ræða mál sem er umhugsunar virði og nauðsynlegt að samræmis sé gætt og þess vegna er spurningin fram borin.
    Það heiti sem hefur verið fleygt nú að undanförnu og sums staðar vitnað til utanrrn. í því sambandi er Evrópusambandið í stað heitisins Evrópubandalagið sem menn höfðu svona vanist upp á síðkastið í allnokkurri umræðu um þetta bandalag. En áður var algengt að tala um Efnahagsbandalagið og sumir höfðu meira að segja ekki aflagt þá nafngift í umræðum hér á Alþingi.
    Ég hugsaði nokkuð um þetta efni áður en Maastricht-sáttmálinn var staðfestur og hafði þá til eigin nota brúkað heitið Evrópusamveldið sem mér finnst að sumu leyti lýsa betur inntaki þess samnings og þess ferlis sem þarna er á ferðinni heldur en sambandsheitið. Það má kannski vera vegna þess að það sem við kölluðum Sambandið hér á landi er nú orðið næsta fyrirferðalítið, að menn geti fremur unað því að taka sambandsheitið upp á þetta stærra og nýja samband í Evrópu. En engu að síður, ég er ekki alveg viss um að menn hitti þarna naglann á höfuðið en er hins vegar ekki með neina fastbundna tillögu í því efni. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. um leið og þessi fsp. liggur hér fyrir: Leitaði utanrrn. til Íslenskrar málnefndar þegar gerð var tillaga um þetta heiti hafi hún formlega komið fram af hálfu utanrrn.?