Íslenskt heiti á "European Union"

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:04:45 (3852)


[17:04]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa orð á þessu hér. En ég vil vekja athygli á því að enn þá erum við Íslendingar ekki orðnir slíkir kontóristar og kommissarar að við nennum ekki að tala. Menn tala hér um skammstafanir, erlendar skammstafanir fólks sem nennir ekki að tala. Ég veit ekki til þess að nokkur heilvita Íslendingur tali um ,,USU``. Við segjum Bandaríki Norður-Ameríku eða Bandaríkin. Við erum ekkert of góð til þess. Við tölum um Evrópubandalagið. Við töluðum áður um Efnahagsbandalagið. Við nennum að tala íslensku enn þá. Og mér er nokkuð sama hvernig skammstafanir yrðu úr íslensku nafni á sambandsríkjum Evrópu sem auðvitað er um að ræða, sambandsríki Evrópu.
    Við sem sitjum í nefndum EES og EFTA eigum fullt í fangi með að stauta okkur fram úr EU, ESA og EES og það tekur mann nokkurn tíma að átta sig á hvað þetta þýðir á útlensku máli. En ég bið hæstv. forseta að sjá svo til að enn þá nenni Íslendingar að kalla hlutina sínum réttu nöfnum.