Skólanefndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:33:50 (3865)


[17:33]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir þessi svör en engu að síður verð ég að endurtaka það sem ég lét koma fram áðan að mér finnst þetta vera svolítið á skjön við það sem væri eðlilegast í þessum efnum. Það kom fram hjá ráðherranum að það hafi verið leitað álits lögfræðinga ráðuneytisins hvað þetta snertir. Þeir telja að lögin gangi lengra og það verði að fara að lögum en þá er líka reglugerðin, þar sem er nákvæmlega kveðið á um hvernig eigi að skipa þessar nefndir, einskis nýt. Ég vil beina því til hæstv. menntmrh. hvort hann telji ekki miklu eðlilegra að kjörtímabil skólanefnda og sveitarstjórna fari saman þannig að þetta bil verði með einhverjum hætti brúað fram yfir næstu kosningar, sem eru núna í maí, þannig að hægt verði að fara að reglugerðinni. Ég er alveg sannfærð um að það hefur verið vilji löggjafans þegar þessi lög voru samþykkt að svo yrði. Annars kemst þarna á misgengi sem verður ekki svo þægilegt að leiðrétta af því að sveitarstjórnarkosningar fara alltaf fram á fjögurra ára fresti að vorlagi og er það lögbundið.
    Ég er ekkert að gera því skóna að hæstv. menntmrh. hafi neitt annað en gott í huga þegar hann er að senda út þessi bréf og vill skipa nýjar skólanefndir en mér finnst bara að þetta sé ekki eins og best verður á kosið.