Heimildarmyndir

84. fundur
Mánudaginn 07. febrúar 1994, kl. 17:38:27 (3867)


[17:38]
     Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 509 til hæstv. menntmrh. um heimildarmyndir og hljóðar fsp. svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Hver er skilgreining Ríkisútvarps, sjónvarps á því hvaða skilyrðum sjónvarpsefni eða myndir þurfi að fullnægja til að geta talist heimildarmyndir?
    2. Hver er kostnaður Ríkisútvarpsins, sjónvarps við gerð myndarinnar ,,Bóndi er bústólpi`` sem sýnd var í sjónvarpinu sunnudaginn 23. janúar sl.?``
    Fyrirspurnin var lögð fram fyrir 12 dögum síðan. Því miður gat hæstv. menntmrh. vegna fjarvistar ekki svarað henni fyrr en núna. Ástæða þessarar fyrirspurnar er, held ég, öllum ljós. Það eru takmörk fyrir því hvað hægt er að bjóða upp á í fjölmiðlum undir því yfirskini að um heimildarmyndagerð sé að ræða. Í orðabók Menningarsjóðs segir svo um heimildarmyndir, með leyfi forseta, að það sé mynd sem geymir vitneskju um eitthvað.
    Ég veit um marga sem biðu spenntir eftir því að sjá svokallaða heimildarmynd, Bóndi er bústólpi, sunnudaginn 23. jan. sl. af því að þeir vildu gjarnan fræðast um íslenskan landbúnað, en þeir hinir sömu urðu fyrir miklum vonbrigðum því annars eins áróðursþáttur hefur ekki sést á skjánum síðan sjónvarpið hóf starfsemi sína, vil ég halda fram, undir því yfirskini að um heimildarþátt væri að ræða.
    Þetta gerist allt að undirlagi setts framkvæmdastjóra sjónvarps. Það mál hefur nú verið hér á dagskrá áður í dag og kannski ekki ástæða til að endurtaka það allt saman. En mér er kunnugt um að settur framkvæmdastjóri sjónvarps þóttist lítið vita um gerð þessarar heimildarmyndar þegar hann var spurður um það í útvarpsráði. Sagðist reyndar vita að það væri verið að gera einhvern þátt um íslenskan landbúnað af sænsku fyrirtæki og sagðist mundi kaupa þann þátt ef honum litist vel á hann. En mér er líka kunnugt um að þegar þessir þáttagerðarmenn komu til að spyrja formann Stéttarsambands bænda margra spurninga þá sögðu þeir að þeir væru að gera þátt fyrir íslenska sjónvarpið sem yrði sýndur í janúar. Ég held því að það leiki enginn vafi á því að þarna var það settur framkvæmdastjóri sjónvarps sem stjórnaði því að þessi mynd var gerð. Þáttagerðarmennirnir voru með handrit þegar þeir fóru um landið og spurðu menn og maður getur svona látið sér detta í huga hverjir hafa samið þær spurningar.
    En mér þótti rétt að spyrja hæstv. mennmrh. um það hvað geti talist heimildarmynd.