Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:41:32 (3874)


[13:41]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. málshefjanda þá sér ekki fyrir endann á ófriðnum í Bosníu-Hersegovínu, þvert á móti verða óhæfuverkin sífellt hörmulegri. Allar þær mannúðar- og mannréttindahugsjónir sem Evrópumenn hafa stært sig af og hafa að sumu leyti verið von kúgaðra og hrjáðra manna um heim allan eru daglega svívirtar í miðri Evrópu. Um leið og þetta á sér stað er vegið að grundvelli þeirra stofnana og samtaka í Evrópu sem ætlað er að stuðla að stöðugleika, friði og öryggi í gervallri álfunni, auk þess sem hvers kyns öfgaöfl fá byr undir báða vængi. Þá er ónefndur sá álitshnekkir sem Sameinuðu þjóðirnar hafa þegar beðið í þessu máli.
    Íslensk stjórnvöld hafa lengi lagt áherslu á stuðing við friðarumleitanir. Þannig stóð Ísland t.d. að nýlegri ályktun utanríkisráðherra Norðurlanda um stuðning við áframhaldandi viðleitni Sameinuðu þjóðanna og Evrópusambandsins til að koma á friði á grundvelli pólitískra lausna, á grundvelli þeirrar áætlunar sem lögð var fram seinast 22. nóv. sl.
    Friðarumleitanir hafa nú verið þrautreyndar og vel það. Hótanir hafa fram að þessu einungis gert stundargagn og friðargæslulið og starfsmenn mannúðarsamtaka verið teknir í gíslingu og jafnvel orðið skotmörk. E.t.v. er nú runnin upp sú stund að vestræn lýðræðisríki þurfa að sýna að þau geri greinarmun á réttu og röngu í verki, að stofnanir og samtök þeirra séu trúverðug og að öfgaöfl sem fótumtroða allar grundvallarreglur verði stöðvuð.
    Leiðir til að hrinda í framkvæmd ályktunum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 770 og 836 um hernaðaraðgerðir í Bosníu-Hersegovínu, voru m.a. ræddar innan Atlantshafsbandalagsins 2. ágúst sl., að frumkvæði bandarískra stjórnvalda. Íslensk stjórnvöld lýstu þá stuðningi við tillögur sem fram komu um að Atlantshafsbandalaginu yrði veitt heimild til takmarkaðra loftárása á valin skotmörk slepptu ekki Bosníu-Serbar kverkataki sínu, eins og það var kallað, á Sarajevó. Afstaða íslenskra stjórnvalda var að fallast ætti á slíkar aðgerðir bandalagsins umhverfis Sarajevó með viðeigandi fyrirvörum um samráð við Sameinuðu þjóðirnar og að sú ákvörðun yrði að beiðni framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á grundvelli ályktana öryggisráðsins.
    Í kjölfar ákvörðunar Atlantshafsbandalagsins um að hefja undirbúning hernaðaraðgerða varð nokkur umræða um málið hér á landi. Einstakir fulltrúar stjórnarandstöðunnar reyndu að gera málsmeðferð utanrrn. tortryggilega og gagnrýndu afstöðu íslenskra stjórnvalda sem óeðlilega herskáa. Nú er ástæða að gefnu tilefni, hv. þm., að spyrja: Hvað vilja þessir hinir sömu aðilar? Hvaða boð vilja þessir hinir sömu aðilar flytja íbúum Sarajevó nú?
    Stjórnvöld hér á landi ráða ekki yfir herafla. Þau þurfa ekki að bera ábyrgð á lífi og heilsu þeirra manna sem hugsanlega taka þátt í slíkum aðgerðum fjarri heimahögum. Af þeim sökum hafa íslensk stjórnvöld ævinlega verið varkár í að hvetja aðra til slíkra fórna. Í þessu tilfelli er um meira að tefla í fyrrverandi Júgóslavíu en einungis lok eða framhald staðbundinnar borgarastyrjaldar. Af ástæðum sem þegar hafa verið nefndar varðar málið allan hinn siðmenntaða heim. Þetta endurspeglast m.a. í ákvörðunum okkar Íslendinga um þátttöku í friðargæslu í Bosníu-Hersegovínu og móttöku sjúklinga frá Sarajevó. Þess má geta að ýmis ríki hafa nú um 28 þús. manns í friðargæslusveitum á vegum Sameinuðu þjóðanna þegar á ýmsum stöðum í Bosníu-Hersegovínu.
    Það er gert ráð fyrir að fundarhöld um hugsanlegar aðgerðir hefjist í höfuðstöðvum Atlantshafsbandalagsins í dag. Sá fundur hefur verið boðaður innan 48 klukkustunda, frá og með gærdeginum, en fundartíminn hefur ekki verið ákveðinn.
    Ég get ekki á þessu stigi málsins tjáð mig um þær tillögur sem þar kunna að verða lagðar fram af þeirri einföldu ástæðu að þær hafa verið ræddar á fullu trúnaðarstigi hingað til. En þegar spurt er um afstöðu íslenskra stjórnvalda vil ég taka það fram að afstaða íslenskra stjórnvalda hefur ekki breyst frá því í ágúst þrátt fyrir að taka verði tillit til þeirra aðstæðna sem nú ríkja í Bosníu-Hersegovínu. Ég vil taka það fram hins vegar að það sem spurst hefur einnig opinberlega um þær hugmyndir eða tillögur sem í undirbúningi eru er að settir verði úrslitakostir og ef ekki verði við þeim orðið þá verði veitt heimild til hernaðaraðgerða að beiðni framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og á grundvelli þeirra ályktana öryggisráðsins sem fyrir liggja.