Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:46:40 (3875)


[13:46]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Herra forseti. Það var lítið gæfuspor utanríkisráðherra Vestur-Evrópu að sameinast um það að rétt væri að liða í sundur Júgóslavíu. Að veita Króötum sjálfstæði. Menn hafa nú fundið og séð hverjar afleiðingarnar eru. Það er ekki hlutverk okkar að stuðla að því að lima ríki í sundur til þess að skapa þar ófrið en skeð er skeð. Í dag stöndum við frammi fyrir því hvort við ætlum að bæta því ofan á hina fyrri afstöðu að sitja þar hróðugir hjá þegar menn eru drepnir, konum er nauðgað og börn deyja unnvörpum eins og gerst hefur, og að horfa jafnframt á það að það eru múslímar sem verða undir og í reynd liggur Evrópa öll undir grun að öðruvísi væri á málum tekið ef Serbar væru minnihlutahópurinn sem verið væri að drepa. Evrópa er því miður það aum að hún hefur tvívegis á þessari öld orðið að biðja Bandaríkin um aðstoð til þess að koma á friði í Evrópu. Og það blasir við að í þriðja skipti á þessari öld verður hún að biðja um aðstoð Bandaríkjamanna til að skakka leikinn.
    Þegar friður var á sturlungaöld á stuttum tíma á því tímabili var það Jón Loftsson sem hótaði að láta drepa þrjá menn ef einn yrði drepinn. Og þau skilaboð voru skýr, það efaði enginn að hann mundi fylgja því eftir. Í dag blasir það við að vopnuð átök af hálfu Atlantshafsbandalagsins er eina lausnin til að stöðva stríðið. Og utanrrh. Íslands hlýtur að gera sér grein fyrir því að hann hefur meirihlutastuðning íslensku þjóðarinnar á bak við sig e.t.v. er þetta eina málið þar sem hann hefur meirihlutastuðning íslensku

þjóðarinnar á bak við sig.
    Ég tel þess vegna (Forseti hringir.) að það hljóti að vera alveg skýr skilaboð að það verður að stöðva þetta stríð og það verður að gefa grænt ljós á vopnuð afskipti til þess að framkvæma það.