Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við atburðunum í Sarajevó

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 13:54:18 (3878)


[13:54]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ástandið á Balkanskaga og hörmungar fólksins í Sarajevó hafa vakið óhug og reiði og þá að sjálfsögðu þá spurningu hvers vegna ekki er gripið til aðgerða sem duga. Hvað dvelur þjóðir heims? Ég er sammála því að ekki hefur verið gert nóg til að rétta fólkinu í Bosníu-Hersegovínu hjálparhönd. Það er smán sem við Íslendingar deilum með öðrum þjóðum Vesturlanda. Ég bendi á það að viðskiptabannið hefur á engan veginn náð tilgangi sínum vegna þess m.a. að margar þjóðir virða það ekki sem skyldi. Ég bendi líka á það að leiðir til pólitísks þrýstings eru síður en svo fullnýttar. Hvers vegna höfum við Íslendingar t.d. ekki slitið stjórnmálasambandi við Serbíu og Svartfjallaland fyrst við lýsum ábyrgð á ástandinu á hendur þessum þjóðum og ábyrgð á mannréttindabrotum, jafnvel þjóðarmorði? Hvers konar tvískinnungur er þetta eiginlega?
    Ég hef aðeins spurst fyrir um það innan utanrmn. hvernig diplómatískum samskiptum sé háttað við ríki sem bendluð eru við alvarleg mannréttindabrot og það verður að segjast sem er að það er ekki auðvelt að gefa svör við því vegna þess að pólitísk umræða um þessi mál er í rauninni ekki til. Það vantar umræðu um grundvallaratriði. Þetta er alvarlegt mál og mér finnst að það verði úr því að bæta.

    Ég minni á að varðandi þessa spurningu um loftárásir á búðir Serba umhverfis Sarajevó þá hef ég ákveðnar efasemdir um að það mundi þjóna sínum tilgangi og það eitt út af fyrir sig er umhugsunarefni. Landfræðilega séð er þetta mjög erfitt land og þar að auki eru þetta ekki einu búðirnar, þetta er ekki eina krítíska svæðið. Það getur soðið upp úr hvenær sem er í Kosovó, það getur soðið upp úr hvenær sem er á landamærum annars staðar og þarna er við að glíma mun margslungnara vandamál en fólk gefur sér með því að líta á Sarajevó eina þannig að það á að reyna aðrar virkar leiðir til þrautar áður en farið er að hugsa í þessum stærðum.