Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 15:17:10 (3885)


[15:17]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil í upphafi lýsa undrun minni yfir þessari löngu ræðu. Ég skil ekki hvaða tilefni er til að setja á svo langar ræður um svo einfalt mál og hér um ræðir. Og að fara að gera þetta mál um félagsdóm að jafnmiklu atriði í þessu máli er alveg furðulegt. Ég hef vakið máls á þessu bæði í allshn., þar sem þetta mál hefur verið rætt á svo mörgum fundum að ég kem einu sinni ekki tölu á þá lengur, og einnig í utanrmn., að þessar rannsóknir sem settar hafa verið á laggirnar varðandi hlutverk félagsdóma í öðrum löndum eru alveg furðulegar í sambandi við þetta mál. Og ef menn ætla að tefja það og reyna að eyðileggja málið í þingsalnum með svona vinnubrögðum þá mun það koma í ljós. En ég tel það með öllu ástæðulaust. Hér er um réttarbót að ræða með hliðsjón af aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og það er algerlega fráleitt eins og hv. síðasti ræðumaður hélt fram að í þessu frv. fælist að einhverju leyti óeðlilegur þrýstingur á borgara landsins. Eða þá að þetta væri slík breyting á réttarskipan í íslensku þjóðfélagi að til stórvandræða horfði.
    Hér er um það að ræða að unnt er að leita ráðgefandi álits hjá EFTA-dómstólnum þar sem Ísland á aðild að málum sem koma upp fyrir íslenskum dómstólum og varða málefni er snerta aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu. Og að segja sem svo og láta veðri vaka að mál frá félagsdómi fari eins og sjálfkrafa inn í þessa meðferð er alveg fráleitt. Það sem hér er um að ræða er að dómari tekur ákvörðun um hvort það eigi að leita þessa ráðgefandi álits. Ég tel að dómurum í félagsdómi sé fulltreystandi til þess að gera sér grein fyrir hinu tvíþætta eðli þess dómstóls og fari ekki að skjóta sér undan að taka ákvarðanir í málefnum sem þola ekki bið og snerta ekki Evrópska efnahagssvæðið með því að skjóta málum til dómstólsins í Genf.
    Frú forseti. Ég vil ítreka það að ég lýsi furðu minni yfir öllum þessum málatilbúnaði og tel að hann eigi ekki við nein rök að styðjast.