Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 15:23:45 (3888)


[15:23]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þarna erum við e.t.v. komin að grundvallaratriðinu. Ég lít svo á að skilningur íslenskra laga eigi að vera fullgildur og að hér eigum við ekki að sætta okkur við önnur lög en þau sem skera úr um öll málefni sem varða íslenska borgara og veita þeim þá réttarvernd sem ég vil, þrátt fyrir ásakanir og kannski dálítið meiðandi ummæli hv. 3. þm. Reykv. um annað. Ég vil réttarvernd sem mesta og ég vil að íslensk lög tryggi hana. Ég held að við eigum aldrei að sætta okkur við neitt annað. Þar af leiðandi tel ég ekki rétt að það eigi að þurfa að leita til annarra landa til að tryggja þessa réttarvernd íslenskra borgara.
    Varðandi þrýstinginn þá er þrýstingurinn ekki einungis óbeinn heldur einnig beinn. ( BBj: Hvað um mannréttindadómstólinn í Strassborg?) Við eigum að laga okkar lög að því. Það er það sem ég er að tala um. Ég held að við getum verið sammála um það. (Gripið fram í.) Við eigum að vera sammála um þetta. Ég legg mannréttindadómstól og EFTA-dómstól að vísu ekki að jöfnu en ég vil fyrst og fremst að við höfum lög í landinu sem við getum sætt okkur við og sem tryggja réttarvernd íslenskra borgara. Við eigum að taka þau ákvæði sem tryggja réttarvernd íslenskra borgara í okkar stjórnarskrá og við eigum að fara að endurskoða okkar stjórnarskrá út frá því. Það er deila sem á því miður ekki að vera deila. Við eigum ekki að sætta okkur við annað en það að við bjóðum íslenskum borgurum upp á fullgilda réttarvernd hér í landinu. Annað er okkur ekki sæmandi.