Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:09:31 (3892)

[16:09]
     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Helgason) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég vil fyrst og fremst í þessu andsvari þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þau svör sem hann gaf við spurningum mínum en þau gefa tilefni til nokkurra athugasemda sem ekki er tóm til að gefa í örstuttu andsvari.
    Ég vil þó aðeins nefna það sem hæstv. ráðherra sagði um að mannafli væri takmarkaður hjá fagráðuneytum til að fylgjast með undirbúningi að setningu hinna nýju reglna Evrópubandalagsins sem við eigum síðan að hlíta. Sú staðreynd staðfestir það sem við, sem vöruðum við þessum samningi, sögðum að hér yrði í framtíðinni vegna fámennis okkar takmörkuð geta til að fylgjast með slíku og hafa áhrif á það sem var þó ein af röksemdunum fyrir ágæti þessa samnings.
    Ég vil lýsa yfir algerri andstöðu minni við að það verði talin lausn á of miklum málafjölda hjá Hæstarétti að veita heimild héraðsdóms til þess að leita álits EFTA-dómstólsins. Ég held að við verðum að leysa þann vanda með öðru móti eins og hæstv. ráðherra hefur reyndar þegar gert tillögu um og mér sýnist að ég geti tekið undir sumt sem þar kemur fram til að ná því markmiði. Ég tel að það sé miklu heppilegri leið en sú sem hér var lögð til af hæstv. ráðherra.