Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 16:12:08 (3893)


[16:12]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar) :
    Frú forseti. Ég get mjög vel fallist á það með hv. 2. þm. Suðurl. að það er ekki lausn á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir með fjölda áfrýjunarmála að hafa þá skipan á sem gert er ráð fyrir í þessu frv. Ég tel hins vegar að það sé ástæðulaust að auka á þann vanda með því að binda það einvörðungu við Hæstarétt að menn geti aflað þessa álits. Það hvetur menn sem munu óska eftir því til þess að áfrýja málum sem að öðrum kosti mætti ljúka á héraðsdómstiginu og ég tel að það sé almennt æskilegt að ljúka málum sem fyrst, bæði með tilliti til hagsmuna þeirra sem í deilum standa og eins með tilliti til hagsmuna ríkisvaldsins sem kostar úrlausn slíkra ágreiningsefna. Og það er það sjónarmið sem lá að baki mínum ummælum um þetta atriði.