Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:12:51 (3906)


[17:12]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Frú forseti. Það er athyglisvert að sjá að frá meiri hluta samgrn. kemur brtt. varðandi skattalega meðferð frv. sem áður hefur verið bent á þegar frv. var lagt fram fyrir ári síðan. Í nál. meiri hluta segir orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Lagt er til að fellt verði niður ákvæði um að hlutafélög geti orðið eigendur hafna samkvæmt lögum þessum. Þetta er gert vegna þess að eigi fengust skýlaus svör við því hver yrði staða hafna í eigu hlutafélaga gagnvart skattalögum.``
    Á þetta hefur verið bent áður og m.a. af þeim sem hér stendur í ræðustól og er gott að nefndin tók á þessu.
    Varðandi það frv. sem hér liggur fyrir vildi ég gera athugasemdir við nokkur atriði. Í fyrsta lagi við 2. gr. í sambandi við skipan fulltrúa samgrh. sem eiga að sitja í þessu svokallaða hafnaráði, en þeir aðilar hafa skipunartíma jafnlangan og ráðherra sem er í hæsta máta óeðlilegt ef horft er á hafnir landsins með tilliti til þess að hér er um þjóðarhagsmuni að ræða en ekki svo pólitíska eins og kemur fram í þessari grein.
    Það er hins vegar líka varðandi 10. gr. Þar segir: ,,Ráðherra setur samkvæmt lögum þessum að

fengnum tillögum eigenda hafna reglugerð fyrir hverja höfn.`` Mér heyrðist það koma fram hjá formanni meiri hluta samgn. sem hafði framsögu um málið þegar hann ræddi um 10. gr. en það var ekki nógu skýrt sem kom fram í hans ræðu og ég vildi gjarnan fá það staðfest að þær breytingar sem þeir leggja til megi skilja sem svo að þar eigi að setja eina reglugerð fyrir allar hafnir landsins. Þá spyr ég nefndina: Gerir þá nefndin engan greinarmun á því hvort það er höfn sem er rekin án ríkisstyrkjar eða allar hinar hinar sem ríkisstyrks njóta og eiga að vera undir forsjá hafnaráðs?
    Ég tel mjög nauðsynlegt, virðulegi forseti, að fá á hreint hvað þarna er átt við vegna þess að jafnvel þó litið sé til ríkisstyrktra hafna er starf þeirra svo misjafnt, fjárhagsleg geta og stjórnunarþátturinn með sérstökum hætti og mismunandi að það er ekki eðlilegt ef það er meining nefndarinnar að búa út eina reglugerð fyrir allar hafnir.
    Í 11. gr. er tvítalað um vigtargjöld og það kemur nokkuð spánskt fyrir sjónir. Annars vegar er talað um gjöld sem menn skulu greiða fyrir afnot af höfnum og þar er í d-lið talað um vigtargjöld af öllum sjávarafla. Síðan segir í 7. lið þessarar sömu 11. gr.: ,,Ýmis þjónustugjöld, svo sem fyrir vigtun o.s.frv.`` Ég vildi gjarnan fá að vita hvar menn ætla þessu stað því að ég veit ekki betur en í þeim lögum sem hafnir búa við í dag sé vigtun undir þjónustugjöldum en falli ekki undir skipagjöld.
    Þá er í 13. gr. athyglisverð setning sem búin er að standa um nokkuð langan tíma en allt of lítill gaumur verið gefinn að. Þar segir m.a. þegar talað er um gjaldskrá hafna:
    ,,Skal gjaldskráin við það miðuð að tekjur hafnarsjóðanna standi almennt undir rekstri og hæfilegu fjármagni til nýbygginga.``
    Nú er það svo að á a.m.k. einum 3--4 höfnum landsins er verulegt umfang vegna vöruflutninga og þær hafnir standa nokkuð þokkalega undir þeim hluta hafna sem notaður er vegna vöruflutninga, en hins vegar er augljóst að fiskihafnir standa engan veginn undir sínum rekstri vegna þess einfaldlega að notendur greiða ekki þau gjöld sem þeir ættu að greiða. Þess vegna er ætlast til að ríkisframlag sé allnokkuð til þessara hafna til þess að þær geti þjónað þeim ásetningi sem þær eru reistar til en nokkuð látið liggja á milli hluta þó að gjaldskráin sé ekki þess eðlis að þeir sem nota þessi mannvirki greiði fyrir þau eins og eðlilegast væri.
    Í umræðum um rekstrarstöðu hafna undanfarin ár hefur margoft komið fram að vöruhafnir standi tiltölulega vel en fiskihafnir verr eins og ég sagði áðan. Ástæða þess er að stjórnvöld ætlast til að gjaldtaka í vöruhöfnum taki mið af kostnaði en ekki í fiskihöfnum eða þar sem skipaviðgerðir eru stundaðar og vikist hefur undan að láta notendur fiskihafna greiða rýmilegt gjald fyrir notkun þeirra og óskum hafna um hækkun aflagjalda verið hafnað.
    2. mgr. 13. gr. endar þannig: ,,. . .  er lög þessi ná til.`` Er það hugsanlegt að einhverjar hafnir yrðu utan þessara laga? Ef svo er, þá skil ég orðalagið en ef svo er ekki hvers vegna þá þetta orðalag?
    Í 15.--20. gr. er fjallað um eftirlitsskyldu Hafnamálastofnunar. Spurningin er: Eiga þessar greinar við þær hafnir sem ekki njóta ríkisstyrks? Eiga þær að vera undir eftirliti Hafnamálastofnunar? Í 18. gr. stendur að ef ágreiningur rísi, þá skuli vísa máli til samgrn. Menn velta vöngum yfir því: Hvaða ágreiningur? Og er þá samgrn. í öllum tilvikum úrskurðaraðili í málinu?
    Í 29. gr. er tekið upp mikilvægt nýmæli þar sem stendur að við áætlanagerð og forgangsröðun framkvæmda skal leggja til grundvallar mat á þörf fyrir framkvæmdir í einstökum höfnum, landshlutum og landinu í heild. Ég man ekki betur en samgrh. hafi fyrir ekki löngu síðan boðað nýja stefnu varðandi hafnamál sem byggðist á samtengingu flugvalla, vega og hafna og er það vel. En þó sjá menn ekki teikn á lofti um að það sé veruleg breyting þó boðaðar séu, einkum og sér í lagi ef litið er til þessa frv.
    Í frv. kemur líka fram ákvæði þess efnis að upptökumannvirki, slippar, muni nú fá hærri styrk úr Hafnabótasjóði en áður hefur verið, þ.e. framlagið muni hækka úr 40 upp í 60%. Í samþykktum Hafnasambands sveitarfélaga hefur þessu ákvæði verið mótmælt og eflaust hafa nefndarmenn heyrt þeirra skoðanir. Þá vaknar sú spurning hvers vegna. Það hlýtur að vakna sú spurning um uppbyggingu skipaviðgerðar eða e.t.v. spurning um iðnþróun frekar en hafnargerð. En ef sú leið er valin að ríkið leggi fram fé til skipaviðgerða gegnum framkvæmdastyrki til hafna vaknar einnig spurning um hvort þá eigi við skerðingarákvæði um ríkisframlag samkvæmt 27. gr. en í 2. mgr. þeirrar greinar stendur að við mat á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í einstökum verkefnum skuli taka tillit til fjárhagslegrar getu hafnarsjóðs til að standa undir nauðsynlegum hafnarframkvæmdum.
    Nú vitum við það að í kjördæmi hæstv. samgrh. er skipaverkstöð sem hefur hug á því að kaupa svokallað ,,flotdokk``. Það hefur komið fram í fréttum að þetta mannvirki muni kosta rúmar 100 millj. Þýðir það að Hafnabótasjóður muni styrkja kaup á þessari flotkví um 60 millj. kr.? Mér þætti vænt um að fá svar við því hjá ráðherra eða formanni nefndarinnar hvort sú styrkveiting gæti hugsanlega farið fram. Kannski er búið að ræða það einhvers staðar þó að það hafi ekki komið fram í þessum sölum hér hvort það sé búið að ræða það að Slippstöðin á Akureyri, eða þeir kaupendur sem eru að kaupa þessa flotkví, megi eiga von á því vegna þessara breyttu laga að fá 60% styrk vegna kaupa á flotkvínni eins og breyting á þessum lögum gerir ráð fyrir.
    Það hlýtur líka að vakna sú spurning ef Stálsmiðjan í Reykjavík ætlar að endurnýja sína dráttarbraut fyrir 100 millj. Það fyrirtæki er algerlega óháð Reykjavíkurhöfn og ekki í neinum tengslum við hana. Mundi slíkt fyrirtæki fá 60% úr Hafnabótasjóði sem styrk eða þyrfti Reykjavíkurhöfn að gerast meðeigandi í Stálsmiðjunni til þess að slíkt yrði? Yrðu Reykvíkingar að sækjast mjög eftir því að ríkið gerðist eignaraðili að því fyrirtæki eins og það snýr að þessari ágætu skipaverkstöð á Akureyri?
    Ég ætla ekki að hafa orð mín mikið lengri. Ég sé að það hefur orðið breyting á þessu 25% álagi hér. Nefndin gerir ráð fyrir því að það lækki niður í 20% ef ég skildi framsögumann rétt þegar hann talaði um þetta gjald þá þetta mál lá síðast fyrir hinu háa Alþingi. Það er af hinu góða og færi betur ef það yrði afnumið alfarið.
    En það sem tengist þessu er að fram kemur heimild samgrn. til þess að hafnir megi veita verulegan afslátt. Það stangast hins vegar á við þær hugmyndir sem menn hafa haft um ríkisframlag til hafna. Getur einhver einstök höfn úti á landi sem er í samkeppni við aðra ekki fjarri --- tökum t.d. Eyjafjarðarsvæðið eða Vestfirðina --- gætu tvær hafnir þar farið í harða samkeppni um afslátt og jafnvel tekið lítið sem ekkert gjald af skipum sem kæmu inn í þær hafnir en sótt svo að fullu um ríkisframlag vegna viðhaldsviðgerða eða endurbóta? Hvar eru takmörkin? Hvar ætla menn að takmarka afsláttinn sem ríkisstyrktar hafnir mega veita?
    Það sem stingur í stúf líka er að á sama tíma og þessi ákvæði eru í frv. um heimild til afslátta á gjöldum, þá gildir það ekki við vörugjöldin. Það skal greitt að fullu þannig að þetta togast í tvær áttir. Annars vegar hafa hafnir ekki tilhneigingu til þess að gefa eftir afslætti vegna þess að ríkið ætlar að hirða sitt gjald og heimta sitt gjald að fullu og í annan stað gæti þetta togast út í það óraunverulega að hafnir gæfu eftir slíkan afslátt í svo harðri samkeppni sín á milli að þær stæðu nánast eftir sem rústir einar.
    Síðan heyrði ég að frsm. talaði um vegna frv. sem hefur verið lagt fyrir Alþingi um tollfrjálsar verslanir í Reykjavík, Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði, þá er gert ráð fyrir því að styrkur til hafna gæti líka fallið undir verslun og viðskipti ef svo mætti segja. Styrkur til hafna gæti fallið undir það að byggja þessar tollfrjálsu verslanir. Ef ég er að fara með rangt mál vona ég að ég verði leiðréttur, en ég hef þá misskilið frsm. ef svo er ekki.
    Að lokum vil ég endurtaka þá spurningu og ég óska eftir svörum við þeim annaðhvort frá frsm. og formanni samgn. eða samgrh. varðandi það styrkjakerfi sem verið er að tala um til upptökutækja. Ég spyr: Verður veitt 60% fjárframlag úr Hafnabótasjóði vegna fyrirhugaðra kaupa norðanmanna á ,,flotdokk``? Á Stálsmiðjan í Reykjavík von á því að geta sótt um sams konar styrk? Sé þetta mál ekkert á döfinni hvað snýr að Norðurlandi, þá stendur enn þá eftir sú spurning: Mun Stálsmiðjan í Reykjavík vegna sinna upptökutækja fá 60% styrk úr Hafnabótasjóði til þess að endurnýja dráttarbrautirnar?