Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:42:17 (3912)


[17:42]
     Jón Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Vegna orða hv. 4. þm. Norðurl. v. um það að hann mundi vilja sjá með skýrari hætti hvers konar fyrirtæki það væru sem hafnarstjórnum eða hafnarsjóðum væri heimilt að gerast hluthafar í þá vil ég bara endurtaka það sem ég sagði áðan að ég vona að þessi heimild verði sem opnust til handa hafnarsjóðum og hafnarstjórnum. Hver kveður upp úr um það hvers konar fyrirtækjum þessum sjóðum er heimilt að taka þátt í? Það er hafnarstjórn viðkomandi hafnar í umboði eiganda hafnarinnar sem er sveitarsjóður. Þannig að ég ætla að vona það að hv. þingmenn treysti sveitarstjórnarmönnum í landinu til þess að taka ákvarðanir ef til eru fjármunir í hafnarsjóði, að þeir treysti þá sveitarstjórnarmönnunum kringum landið til að taka ákvörðun um það hvort verja eigi þeim peningum með beinum hætti til atvinnuuppbyggingar í gegnum hafnarsjóðina. Að hafnarsjóðirnir hafi þessa heimild og þeir hafi hana sem opnasta því sá sem kveður upp úr með það eru sveitarstjórnarmennirnir heima í héraði hvers konar fyrirtækjum hafnarsjóðir taka þátt í.