Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:43:41 (3913)


[17:43]
     Stefán Guðmundsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég kem bara upp til að undirstrika það sem ég sagði áðan. Við erum ekki að deila, hv. 6. þm. Reykn. og ég, við erum ekki að deila. Málið er ekki skýrt. Hv. 6. þm. Reykn. vill hafa málið opið upp á gátt, að það geti allir komið inn, en samkvæmt þessu frv. er það bara ekki svo. Það geta ekki allir komið inn vegna þess að það segir í lögunum ,,með skylda starfsemi``. Og því spyr ég og ég vona að hv. 6. þm. Reykn. sé mér sammála að um það má auðvitað lengi deila hvað menn eru hér að tala um með skylda starfsemi. Því spyr ég: Er það ekki klárt að við getum sagt að fiskmarkaðir séu skyld starfsemi? En er það jafnöruggt að olíufélög eða Eimskipafélagið séu með skylda starfsemi? Hver ætlar að úrskurða í þessu máli eftir að Alþingi hefur afgreitt það á þennan hátt?