Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:44:51 (3914)


[17:44]
     Jón Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er kannski alveg rétt hjá hv. 4. þm. Norðurl. v. að við séum ekki að deila hér, ég hef ekki það mikla reynslu af þingstörfum að ég treysti mér að kveða upp úr með það hvort við erum að deila eða ekki að deila. En ég segi það að vonandi verður þessi heimild sem opnust. Það er rétt sem hv. þm. segir að það deilir enginn um það að starfsemi fiskmarkaða hlýtur að vera skyld starfsemi hafna. Hið sama hlýtur að gilda um útgerð. Hið sama hlýtur þess vegna að gilda um skipafélög. Alla þá starfsemi sem kemur til með að nýta aðstöðu hafnanna, hvort sem eru ytri eða innri mannvirki. Það hlýtur að vera skyld starfsemi. Ég ætla bara að vona að hafnarstjórnunum verði treyst til þess að taka ákvörðun í hvert einstakt skipti um það hvort atvinnurekstur sem til stendur að taka þátt í fyrir tilstilli hafnarsjóðs er skyldur eða óskyldur.
    Það sem upp úr stendur finnst mér vera að hafnarsjóðir hafi heimild til að gerast hluthafar í fyrirtækjum og geti þannig nýtt fjármuni ef fjármunir eru fyrir hendi til að byggja upp atvinnuna. Væntanlega hlýtur hafnarstjórn og hafnarsjóður á hverjum stað að hafa mestan áhuga á því að taka þátt í uppbyggingu fyrirtækja sem nýta síðan hafnirnar og þau mannvirki sem þar eru betur kannski heldur en gert er. Þannig að ég treysti fullkomlega hafnarstjórnum á hverjum stað í umboði sveitarstjórna, sem eru eigendur hafnanna, til að ákveða þetta í hvert skipti fyrir sig.