Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:47:36 (3915)


[17:47]
     Frsm. minni hluta samgn. (Jóhann Ársælsson) :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig ekki ástæða til þess að hasta þessu máli neitt mjög. Ég skal aftur á móti ekki taka mjög langan tíma til þess að segja það sem ég vil láta koma fram til viðbótar. Ég hefði gjarnan viljað að hæstv. samgrh. hefði verið hér til staðar en ég skal ekki gera athugasemd við það ef hv. formaður nefndarinnar treystir sér til að svara þeim spurningum sem ég ætla að ítreka og koma fram með. Það er ástæða til þess að fá þá hluti svolítið skýrari. Við vitum um það frá fyrri hluta umræðunnar að hv. formaður nefndarinnar ætlar að halda fund í nefndinni á milli 2. og 3. umr. og þar fáum við tækifæri til að ræða þessi mál dálítið betur. En það sem ég hefði viljað að hefði getað komið fram við umræðuna er hvort það sé fyrir hendi vilji til þess að koma til móts við þá gagnrýni sem hér hefur verið á 25% álag á vörugjöld og þá er ég að tala um tvö atriði. Annars vegar það að koma inn í lögin ákvæði um að þetta gjald yrði ekki lagt nema einu sinni á þannig að það kæmi ekki svona ójafnt niður eins og það gerir samkvæmt núgildandi lögum og eins að þetta gjald verði ekki lagt á ferjusiglingar. Það er nefnilega nýtt í stöðunni að það er farið að leggja þetta á ferjusiglingar. Það er ekki fyrr en samgrh. eða samgrn. úrskurðaði það fyrir nokkru síðan að það ætti að leggja þetta gjald á ferjusiglingar. Ég ætla að vitna í bréf frá Reykjavíkurhöfn þar sem hafnarstjórn Reykjavíkur mótmælti 25. okt. túlkun samgrn. frá 9. ágúst um innheimtu sérstaks vörugjalds þegar það var sem sagt ákveðið að það ætti að innheimta vörugjöldin óháð því hvort hafnaryfirvöld gæfu afslátt frá gjaldskránni. Samt sem áður skal þetta innheimt að fullu sem þýðir að t.d. hafnarstjórnin hér í Reykjavík ákveður að krefjast þess að það verði farið að innheimta að fullu vörugjöld með flutningum af Akraborginni sem mun leiða til verulegrar minnkunar á flutningum með því skipi. Og ég tel að þessi tvö atriði sé alveg bráðnauðsynlegt að fá endurmetin í umfjöllun nefndarinnar sem verður milli 2. og 3. umr.
    Síðan er það hlutur sem ég spurði um hér í minni fyrri ræðu og ég skal ekki vera að tína upp annað sem ég spurði um og var ekki svarað en ég spurði um það hverju það sætti að í frv. sem við höfum hér milli handanna er talað um það á bls. 16 að það sé gert ráð fyrir því að lækka þetta 25% gjald niður í 20%. Og hv. 16. þm. Reykv. nefndi þetta áðan vegna þess að hann mundi eftir því úr umræðu að það stæði til að lækka þetta gjald. Á bls. 16 er talað um að lækka þetta gjald og ég les það hér upp til þess að skýra það betur fyrir mönnum:
    ,,Ákvæðum um starfsemi Hafnabótasjóðs er einnig breytt. Hið sérstaka vörugjaldsálag er lækkað úr 25% í 20% og rennur nú til starfsemi Hafnabótasjóðs, sem ætlað er að létta kostnaðarhluta hafnarsjóða og -samlaga, í stað þess að koma til hækkunar á framlagi ríkisins eins og núverandi lög kveða á um.``
    Ég vil gjarnan fá skýringu á því hvort þarna hafa orðið mistök eða hvort það hafi verið tekin ákvörðun um það að hætta við að lækka framlagið en láðst að taka þetta út úr skýringum með frv. og það segir líka eitthvað um það með hvaða hætti hefur verið unnið að þessu máli að svona skuli frv. líta út.
    Svo vil ég bara til viðbótar við þetta segja að það er líka ástæða til þess að vekja athygli hv. formanns nefndarinnar á því vegna þess að hann talaði um það hér áðan eins og það væri alveg skýrt að það ætti að gefa út jafnmargar reglugerðir og hentaði um hafnir að í tillögunni frá ráðuneytinu er talað um að setja eina reglugerð fyrir hafnir. Og það er orðað þannig í frv. sjálfu að það er ekki hægt að misskilja, það er talað um reglugerðina í eintölu en hafnirnar í fleirtölu og vegna þess að hv. formaður nefndarinnar er góður íslenskumaður og vill hafa vandað mál þá veit ég að hann skilur það ekki nema á einn veg. Það hlýtur að vera að menn séu að tala um eina reglugerð fyrir allar hafnir.