Hafnalög

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:53:32 (3916)


[17:53]
     Frsm. meiri hluta samgn. (Pálmi Jónsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég tek svo til orða eftir mínum málsmekk þegar setja skal reglugerð fyrir margar hafnir að það sé reglugerð fyrir hafnir og geti þýtt það að sett sé reglugerð fyrir hverja höfn, svo að það er ekkert sem hindrar það í þessu málfari.
    Varðandi það sem hv. þm. spurði hér um og ekki hafði verið svarað vil ég taka fram: Í umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. á fskj. II er sagt að ákvæðum um starfsemi Hafnabótasjóðs sé breytt og hið sérstaka vörugjaldsálag lækkað úr 25 í 20%. Þetta er ekki í frv. sjálfu og hlýtur að byggjast annað tveggja á misskilningi ellegar að frv. áður en það er lagt fram fyrir Alþingi hafi verið breytt þannig að það er gert ráð fyrir að álagið sé 25%. Þetta haggar auðvitað ekki í neinu frv. þó að slík mistök hafi orðið í umsögn um frv. sem gefin er af fjárlagaskrifstofu fjmrn.