Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 17:56:58 (3918)


[17:56]
     Hjörleifur Guttormsson (frh.) :
    Virðulegur forseti. Það má kannski gefa því það nafn að ég haldi áfram ræðu minni því vart hafði ég nú byrjað á henni þar eð hvorki hæstv. dómsmrh. var viðstaddur í þinghúsi og ekki talsmaður annars hluta allshn. þegar ég hóf mál mitt, ( SP: Hafði aðeins brugðið mér frá.) hafði aðeins brugðið sér frá og af þeim sökum tók hæstv. forseti þá réttu ákvörðun að fresta umræðunni.
    Hér liggur fyrir eitt af hinum svonefndu EES-frumvörpum. Þau eru allnokkur sem eru órædd og óafgreidd af hálfu þingsins eins og kunnugt er, sum ekki enn þá komin fram jafnvel um hin mikilsverðustu málefni, sum af boðuðum frumvörpum ríkisstjórnarinnar ókomin til þings þrátt fyrir að samningur þessi sé genginn í gildi og lögfestur. Þetta er ömurleg staða í máli sem þessu og ef menn tala um óvissu og réttaróvissu þá er ekki óeðlilegt að horft sé til þeirrar aðstöðu sem við búum nú við að þessu leyti.
    Mönnum hefur verið tíðrætt nú undanfarið sem vonlegt er um réttaróvissu á sviði landbúnaðarmála sem er nærtækt að nefna þegar hv. formaður landbn. þingsins situr hér nærri ræðustól en eru það nú allt saman tiltölulega léttvæg atriði miðað við þá réttarstöðu sem liggur fyrir í sambandi við samninginn um Evrópskt efnahagssvæði. Það er satt að segja mjög sérkennilegt að ríkisstjórn sem ber ábyrgð á þessu máli skuli ekki einu sinni hafa haft fyrir því að koma til þingsins frumvörpum um mikilsverða þætti sem varða þennan samning sem hún hefur undirgengist fyrir sitt leyti að leggja fyrir þingið og leita lögfestingar á og vill í rauninni túlka það svo að þingið sé nánast skuldbundið að lögfesta þær breytingar svona eftir á sem samningurinn gerir ráð fyrir og til samræmis við þennan samning sem lögfestur hefur verið. Það mál eitt út af fyrir sig er umræðunnar vert, sú aðstaða sem Alþingi er ætluð af ríkisstjórninni eftir dúk og disk að færa í lög breytingar til samræmis við þennan samning eftir á. Og það hefur raunar mátt heyra í máli einstakra ræðumanna úr þessum stóli við þessa umræðu að þingið eigi fáa aðra kosti úr því sem komið er heldur en lögfesta breytingar á íslenskri löggjöf til samræmis við þennan samning.
    Í rauninni fær það ekki staðist þá fullyrðingu sem talsmenn samningsins um Evrópskt efnahagssvæði hafa haldið fram að samningurinn skerði ekki íslenskt löggjafarvald. Því hefur verið haldið fram en þegar kemur að því að knýja hér fram lagabreytingar, þá er annað uppi á teningnum. Þá er þinginu í rauninni nauðugur einn kostur að breyta löggjöf til samræmis við samninginn. Og þá er gjarna vitnað til bókunar nr. 35 með samningi þessum en þar segir, virðulegur forseti, ef ég má aðeins vitna til hennar:
    ,,Þar eð með samningi þessum er stefnt að einsleitu Evrópsku efnahagssvæði sem byggist á sameiginlegum reglum án þess að samningsaðila sé gert að framselja löggjafarvald til stofnana Evrópska efnahagssvæðisins; og
    þar eð þessum markmiðum verður því að ná með þeirri málsmeðferð sem gildir í hverju landi um sig;`` --- þá kemur stök grein, það heitir stök grein í þessari bókun:
    ,,Vegna tilvika þar sem getur komið til árekstra á milli EES-reglna sem komnar eru til framkvæmdar og annarra settra laga, skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.`` ,, . . .  skuldbinda EFTA-ríkin sig til að setja, ef þörf krefur, lagaákvæði þess efnis að EES-reglur gildi í þeim tilvikum.``
    Síðan eru menn hér glaðbeittir í umræðum á Alþingi Íslendinga og segja: Þetta er allt í besta lagi og stjórnarskráin, að eitthvað hafi verið gengið á svig við hana, ó nei, nei, allt saman slétt og fellt, en hafa lögfest hér samning sem inniheldur þessa bókun. Þeir tala fyrir sig en þeir tala ekki fyrir þá sem ekki hafa greitt þessum samningi atkvæði. Menn þurfa ekki að ímynda sér það, sá meiri hluti á Alþingi Íslendinga sem knúði þetta mál í gegn, lögfesti þennan samning með öllu sem honum fylgir, að það eigi að vera og

verði eitthvert stillt og prútt Alþingi Íslendinga sem komi til með að hjálpa þeim í sambandi við færibandið sem búið er að koma upp í sambandi við framgang mála að óskum framkvæmdastjórnarinnar í Brussel því það er hún ein sem hefur rétt til þess að setja fram lagafrumvörp á öllu þessu samningssviði og þýðir nú heldur lítið fyrir kotkarla hér á Íslandi ef eftir þessu væri gengið og þessu valdi væri lotið að ætla að stunda hér sjálfstæða lagagerð sem varðar samningssviðið.
    Það er hins vegar svo að þegar lögin voru sett í fjórum greinum um samninginn um Evrópskt efnahagssvæði, staðfestingarlögin, þá áræddu þeir sem það mál báru fram ekki að lögfesta með skýrum hætti ákvæði bókunar 35, sem þeir þó voru búnir að undirgangast og lögfesta með samningnum því að allt dótið er óaðskiljanlegur hluti af honum samkvæmt 119. gr. því að í 3. gr. laganna um Evrópskt efnahagssvæði stendur þó ekki meira en það, hæstv. dómsmrh.: ,,Skýra skal lög og reglur að svo miklu leyti sem við á til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.`` Lengra lögðu menn ekki í að setja inn í lagatexta til staðfestingar þau ákvæði sem er að finna í bókun 35 vegna þess að það hefði kannski þótt svona helst til gróft og því betra að fara krókaleiðina. Hvað halda menn að verði uppi þegar farið verður að reyna á það samkvæmt dómum hvaða réttur gildi? Ætli það séu þessi lög sem voru sett af Alþingi Íslendinga til staðfestingar eða bókun 35 sem gildi þegar reynir á gagnvart þjóðarétti? Ætli hinir erlendu dómstólar sem eiga að skera úr líti ekki á þjóðaréttinn sem skuldbindandi þegar til kemur og láti sig litlu varða þau ákvæði sem Alþingi Íslendinga hefur þóknast að setja í lög að því er varðar samninginn.
    Þetta frv. til laga um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópskt efnahagssvæði snertir einn af grundvallarþáttum þessa samnings sem markar aðstöðu Íslendinga inni í því kerfi sem hér er verið að innleiða, í þessu tilviki dómskerfið, úrskurðinn í deilumálum. Og þá er hér verið samkvæmt þessu að heimila dómurum í samræmi við 34. gr. samningsins, samnings EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, að kveða upp úrskurð um að leita verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta, þ.e. skýringar á máli í samhengi við samninginn um hið Evrópska efnahagssvæði. Og hvaða dómar ætli það séu nú og hæstiréttur með litlum staf sem í rauninni verður byggt á í þessum efnum og á að byggja á í þessum efnum? Hvar ætli sé sá hæstiréttur, hæstv. dómsmrh.? Ætli hann sé uppi í Arnarhvoli eða uppi í stjórnarráðsbyggingum? Ó, nei, hann er ekki þar. Hann er marklaus. Hann hefur ekkert um það að segja. Sá hæstiréttur sem á að byggja á dóma og umsagnir einnig EFTA-dómstólsins, það mat sem EFTA-dómstóllinn á að reiða fram og verið er að heimila að leitað verði skýringar hjá til forsagna, sem forsögn og forskrift fyrir héraðsdóm og eftir atvikum Hæstarétt Íslands, sá dómur er staðsettur í Lúxemborg og heitir nú frá 1. nóv. 1993, eftir að Maastricht-sáttmálinn gekk í gildi, Evrópudómstóllinn, samkvæmt þeirra eigin nafngift og er staðsettur í Lúxemborg. Og samkvæmt 6. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði er það alveg ljóslega fram tekið að það eru bæði eldri dómar þessa dómstóls og framtíðardómar þessa Evrópudómstóls sem eiga að gilda sem forskrift, að sjálfsögðu einnig fyrir þann EFTA-dómstól sem samningur er um og hér er vitnað til í þessu máli og þar sem héraðsdómarar og Hæstiréttur eftir atvikum eiga að leita forsagnar hjá.
    6. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði hefur að geyma eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:
    ,,Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.``
    Þetta eru ákvæði hins lögfesta samnings. Ástæðan fyrir því að menn ekki tóku EFTA-dómstólinn og dómara þaðan með beinum hætti inn í þetta millistig, sem er þessi EFTA-dómstóll, er sú að hinn hái dómstóll í Lúxemborg taldi að það væri ekki viðeigandi að fara að taka einhverja dómara frá EFTA-ríkjunum með í úrskurði, í dómstól sem fyrirhugaður var og kominn var á blað, hinn svokallaði EES-dómstóll en sem sleginn var af samkvæmt áliti sjálfs Evrópudómstólsins 14. des. 1992, ef ég man rétt, sem hann felldi úrskurð sem varð eitt af þeim skerjum sem varð til að seinka fulllúkningu samningsins um Evrópskt efnahagssvæði. Það var ekki fyrr en 10. apríl síðar sama vetur sem þessi mál lágu fyrir með nýjum hætti og nýr úrskurður dómstólsins lá fyrir sem hann taldi viðunandi og þá var ekki lengur verið að rugla saman reytunum heldur var sett upp þessi hjáleiga, þessi EFTA-dómstóll sem fær að vera milliliður í leiðsögninni. Eftir sem áður er að finna í bókun við samninginn sjálfan, bókun nr. 34 eins og menn þekkja --- Hvar er hæstv. dómsmrh.? Hann er horfinn úr sal, virðulegur forseti. Hann helst ekki við hér í þingsalnum stundinni lengur. Hann er hér kominn úr hliðarsölum. --- Í bókun nr. 34 er ákvæði sem er ekki orðið virkt. Kannski kemur að því að það verði reynt að setja það í samband. Það er bókunin um að dómstólar og réttir EFTA-ríkja geti farið fram á að dómstóll Evrópubandalaganna taki ákvörðun um túlkun á EES-reglum sem samsvara EB-reglum. Þar er gert ráð fyrir því að þegar vafi leikur á túlkun ákvæða í samningum, þá geti eins og þar segir í 1. gr., með leyfi forseta:
    ,,Þegar vafi leikur á túlkun ákvæða í samningnum sem að efni til eru eins og ákvæði í stofnsáttmálum Evrópubandalagsins með áorðnum breytingum eða viðbótum eða gerðum sem samþykktar hafa verið samkvæmt honum í máli sem er fyrir dómstóli eða rétti í EFTA-ríki, getur dómstóllinn eða rétturinn telji

hann það nauðsynlegt beðið dómstól Evrópubandalaganna að taka ákvörðun í slíku máli.
    2. gr. EFTA-ríki sem hyggst nýta sér þessa bókun skal tilkynna vörsluaðila og dómstól Evrópubandalaganna að hve miklu leyti og með hvaða hætti bókunin muni gilda um dómstóla og rétti þess.``
    Þessi bókun er ekki virk og það var mat þeirra sem fjölluðu um þetta efni af hálfu þess meiri hluta á Alþingi sem ber ábyrgð á samningnum um Evrópskt efnahagssvæði að það þyrfti sérstaka lagasetningu til og eftir atvikum, ef ég man rétt, stjórnarskrárbreytingu. Það var út af fyrir sig mjög eftirtektarvert að þar kom upp ábending um að það kynni að þurfa stjórnarskrárbreytingu. Og vegna hvers ætli menn hafi veitt sér þann munað, hæstv. forseti, að nefna stjórnarskrárbreytingu í þessu sambandi? Það var vegna þess að mínu mati að það skipti ekki máli til þess að koma málinu í höfn vegna þess að þetta átti hvort sem er ekki að vera virkt frá upphafi.
    Það er allt í lagi að troða á íslenskri stjórnarskrá í sambandi við önnur efni og þverbrjóta hana eins og gert var með lögfestingu þessa samnings. Það var gert til þess að koma málinu í höfn og til þess voru leiddir fram menn til vitnis sem nú er búið að koma utan í hin æðstu embætti á margföldum launum miðað við það sem hægt er að fá hér, jafnvel að uppfærðum launum hæstaréttardómara. Þeir eru nú komnir í svona tvöfalt betra umhverfi. Þeir sem kváðu upp og áttu drýgstan þátt í því áliti sem meiri hlutinn studdi sig við að ekki væri um stjórnarskrárbrot að ræða sitja nú í þeim dómstóli sem hér er verið að ræða um og vísa til. Og sem hjálparkokkar sitja menn ofan úr háskóla sem voru fengnir til að klappa undir.
    Við lesum um það í blöðum frá Svíþjóð að mönnum þar í landi sé farið að ofbjóða hvernig valdaaðilar þar, Bildt forsætisráðherra og aðrir slíkir, eru að troða sínum gæðingum inn í valdapóstana í kerfi Evrópubandalagsins, í EES-kerfinu, og ef þeir fá ráðið, þá verður það brátt Evrópubandalagið sjálft sem þeir verða flæktir í og komnir inn í. Það er athyglisvert að fara yfir þau efni þó ég ætli ekki að gera það hér frekar hvernig raðað hefur verið á jötuna erlendis þeim mönnum sem kvaddir voru til öðrum fremur og veittur trúnaður af hálfu meiri hlutans hér til þess að vera umsagnaraðilar og ráðgjafar og væntanlega hlutlausir embættismenn á þeim tíma þegar verið var að koma þessu máli hér fram og í höfn. Ef hægt er að tala um siðleysi í sambandi við þetta mál, þá er ekki óeðlilegt að horft sé til þessarar þróunar því að það hefur ekki verið einu sinni haft fyrir því að láta einhvern tíma líða þannig að í þetta fennti heldur er þarna um beinar tilfærslur að ræða. En til þess að allt sé í horfi í þessum efnum vegna þess að menn eru með spurningarmerki hversu lengi EFTA muni lifa, þá hafa þessir sömu aðilar fyrirvara um það hversu lengi þeir halda embættunum hérna heima fyrir til þess að girða fyrir að þeir gætu setið uppi embættislausir ef svo færi að EFTA-kerfið liði undir lok vegna þess að straumurinn inn í Evrópubandalagið yrði svo stríður að það yrði jafnvel lagt af eða orðið óstarfhæft fyrir lok þessa árs ef marka má þá fyrirvara sem þeir hinir sömu hafa sett.
    Nei, virðulegur forseti. Málsmeðferðin í þessum efnum er með slíkum fádæmum að það þarf langt að leita í málsmeðferð af hálfu Alþingis til þess að finna viðlíka hliðstæður.
    Dómstóllinn sem er vísað til í frv. er settur á laggirnar samkvæmt 108. gr. samningsins um Evrópskt efnahagssvæði og sérstaks samnings sem gerður hefur verið milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og þessa dómstóls. Sem kunnugt er skipa þennan dómstól sjö dómarar tilnefndir af ríkisstjórnum EFTA-ríkjanna og dómstóllinn hefur lögsögu í málum sem varðar lausn deilumála milli tveggja eða fleiri EFTA-ríkja um túlkun og beitingu EES-samningsins og hlutaðeigandi ríki eiga síðan að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að framfylgja dómum þessa dómstóls.
    Hér hefur það verið gert að umtalsefni fyrr í umræðunni hvort eðlilegt sé, eins og gerð er tillaga um í 2. gr. frv., að fella félagsdóm undir þær heimildir sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Ég hef hlýtt á mál í tengslum við það álitaefni og fæ ekki betur séð en það séu fullkomlega réttmætar ábendingar sem fram hafa verið bornar í því efni að það sé ekkert sjálfgefið mál, eins og látið er að liggja, að félagsdómur eigi að fá þær heimildir sem hér er gert ráð fyrir til þess að leita álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem þar eru rekin. Svo mikið er víst að mér finnst það ekki sjálfgefið heldur að lesinni 34. gr. samningsins milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls. En ég ætla ekki að dvelja við það efni sérstaklega hér þó að það sé vissulega umræðunnar virði heldur ætla ég aðeins að líta frekar á þennan EFTA-dómstól með tilliti til spurningarinnar um það hvort dómstóllinn sjálfur stenst okkar stjórnarskrá.
    Menn munu kannski segja að það mál hafi þegar verið rætt og útkljáð. Það tel ég að sé langt í frá og ég ætla að leyfa mér að vitna í þessu sambandi til umsagnar sem Guðmundur Alfreðsson veitti utanrmn. um álitaefni að því er varðar EES-samninginn og íslenska stjórnarskrá og sérstaklega það sem varðar EFTA-dómstólinn. Hann segir í álitsgerð sinni, með leyfi forseta:
    ,,Samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar fara dómendur með dómsvaldið. Það er enn og aftur enginn vafi á því að stjórnarskráin á hér við íslenska dómendur og íslenska dómstóla. Það eru engin fordæmi til um afhendingu á bindandi dómsvaldi yfir íslenskum aðilum út úr landinu. Samkvæmt 60. gr. stjórnarskrárinnar skera dómendur úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda. Þetta mundu þeir ekki geta gert að því marki sem framkvæmdarvald hefur verið framselt til eftirlitsstofnunar EFTA og dómsvald til EFTA-dómstólsins. Til viðbótar má benda á 61. gr. um vernd og sjálfstæði dómara sem gerir greinilega ráð fyrir innlendri málsmeðferð.
    Um EFTA-stólinn eru ákvæði í greinum 108 og 110 EES-samningsins, svo og í samningnum um eftirlitsstofnun og dómstól EFTA. Til hans má skjóta ákvörðunum eftirlitsstofnunarinnar. Þar kemur skýrt

fram að dómsvald dómstólsins yrði mjög víðtækt um eftirlitið með framkvæmd EES-samningsins og það gæti á ýmsan hátt haft bæði bein og óbein áhrif að landsrétti, t.d. varðandi samkeppnisreglur, ríkisstyrki og opinber innkaup. Dómarnir yrðu endanlegir gagnvart íslenskum einstaklingum og fyrirtækjum. Þeir yrðu aðfararhæfir að landsrétti og þá mætti ekki bera efnislega undir innlenda dómstóla.``
    Virðulegur forseti. Enn sýnist mér hæstv. dómsmrh. horfinn úr þingsal og sé ég nú ekkert til ráðherrans. Og áfram segir Guðmundur Alfreðsson um þetta stóra álitaefni:
    ,,EFTA-stóllinn er hugsaður sem sjálfstæð stofnun og íslenskur dómari sem þar mundi sitja yrði óháður íslenskri dómsskipan. Íslenskir aðilar, bæði einstaklingar og fyrirtæki, sem teldu sig hafa verið órétti beitta af eftirlitsstofnuninni yrðu þá að sækja sín mál fyrir þessum yfirþjóðlega dómstól sem mun væntanlega sitja í Genf eða til Lúxemborgar í þeim tilfellum sem EB-dómstóllinn hefði dómsögu. Landinn gæti ekki leitað réttar síns fyrir íslenskum dómstólum í málum sem mundu falla undir þessa alþjóðlegu dómstóla. Stjórnarskráin geymir enga heimild til framsals á dómsvaldi út úr landinu til dómstóla sem gætu kveðið upp bindandi dóma sem kæmu beint til fullnustu að landsrétti. Engin fordæmi eru til um slíka niðurstöðu. Það verður að telja slíkt óheimilt að óbreyttri 2. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af 60. og 61. gr. hennar. Þetta er að mati höfundar eitt skýrasta dæmið um stjórnarskrárbrot sem mundi leiða af lögfestingu EES-samningsins.``
    Það er mjög ótvírætt álit sem hér liggur fyrir og ég er fullkomlega sammála þessu áliti. Það er því mitt mat að með lögfestingu þessa samnings hafi íslenska stjórnarskráin verið þverbrotin fyrir utan fjölmörg önnur dæmi sem finna má og tengjast samningnum þar sem einnig er gengið á svig við íslenska stjórnarskrá. Það þarf að mínu mati í rauninni ekki lengi að lesa íslenska stjórnarskrá til þess að komast að þessari niðurstöðu. Sá sem hér talar benti á það í sérstöku áliti sem þáverandi Evrópustefnunefnd, sem svo var kölluð, gaf Alþingi um samningana eins og þeir stóðu þá um Evrópskt efnahagssvæði og hét þá áfangaskýrsla til Alþingis, að einmitt þetta atriði að því er varðaði dómsvaldið væri skýrt dæmi um að gengið væri gegn íslensku stjórnarskránni. Með leyfi forseta vil ég aðeins vitna til þess sem þar segir:
    ,,Enn skýrar er talað um EES-úrskurðaraðila, þ.e. dómstól sem einn hefði víðtækt umboð til þess að tryggja það að EES-reglur verði virtar. Gert er ráð fyrir að hann starfi í nánum tengslum við EB-dómstólinn og yrði skipaður dómurum frá honum og frá ríkjum EFTA.`` --- Það var á meðan gert var ráð fyrir sameiginlegum EES-dómstóli með dómurum frá báðum. --- ,,Sem kunnugt er skýrir EB-dómstóllinn lög og túlkar þau, svo og rétt Evrópubandalagsins og eru dómstólar einstakra ríkja bundnir af niðurstöðu hans. Dómstóllinn tryggir þannig samræmda lagatúlkun í öllum EB-ríkjum. Við vissar aðstæður er æðstu áfrýjunardómstólum í EB-ríkjunum skylt að óska eftir svonefndum forúrskurðum EB-dómstólsins og eru þeir bindandi. Að hliðstæðu kerfi virðist stefnt innan EES þannig að dómstólum væri í vissum tilvikum skylt að leita forúrskurðar EES-dómstóls um túlkun og beitingu EES-réttar. Þetta virðist hins vegar í augljósri andstöðu við 2. og 61. gr. íslensku stjórnarskrárinnar þar sem dómsvaldi er skipað með íslenskum lögum, framsal þess í hendur erlendra aðila hvergi heimilað og stjórnsýsluaðilum og löggjafarvaldi eru settar skorður að því er varðar fyrirmæli til dómara. Hér blasir því við valdaafsal sem vart gæti orðið að veruleika nema að undangenginni stjórnarskrárbreytingu.``
    Það heyrist stundum í sambandi við þetta efni að við séum að feta troðna slóð. Það hafi verið fallist á og gerðir samningar sem feli í sér hliðstæðu við það sem er að gerast með samningnum um Evrópskt efnahgssvæði að því er dómsvaldið snertir. Þetta er rangt. Menn eru að vitna m.a. til Mannréttindadómstóls Evrópuráðsins sem er með engum hætti sambærilegur gerningur. Þó að við séum að taka tillit til forsagnar þess dómstóls í sambandi við lagabreytingar hér á landi er þar sannarlega ólíku saman að jafna miðað við það sem hér er á ferðinni. Ég nefni það vegna þess að það er svo algengt að það sé verið að leiða þetta fram sem einhverja hliðstæðu í sambandi við þessi mál.
    Þegar um er að ræða ákvæði mannréttindasamnings Evrópuráðsins og dómstólinn, þá er þar ekki um að ræða að framkvæmdarvald né heldur löggjafinn eða dómsvald sé flutt út úr landinu. Í öllum tilvikum er þar um þjóðréttarlegar skuldbindingar að ræða og í þeim tilvikum þar sem þær hafa verið lögfestar, þá hvílir lokaákvörðunarvaldið yfir íslenskum þegnum hjá íslenskum aðilum samkvæmt landsrétti og samkvæmt íslenskum túlkunum á þjóðarétti í samræmi við lög sem sett eru.
    Það var nefnt hér fyrr í umræðunni af formanni utanrmn., sem ekki er viðstaddur þessa umræðu, að honum þótti mjög undarlegt að það teygðist úr umræðunni og þingmenn skyldu leyfa sér að tala hér nokkurt mál um efni þessa frv. Ég verð að segja að það er með ólíkindum að það skuli gert að umræðuefni og ásteytingsefni þó að ákvæði eins og hér er verið að leiða í lög skuli kalla á nokkra umræðu og umhugsun af hálfu hv. þm.
    Það er svo, virðulegur forseti, að fjölmargt sem snertir samninginn um Evrópskt efnahagssvæði á eftir að koma mörgum á óvart í þessu landi eins og annars staðar þar sem ákvæði hans hafa verið lögfest. Það eru þegar að koma upp álitaefnin þar sem reyna mun á þetta dómskerfi sem hér er til umræðu og eitt þekktasta dæmið um það sem þegar er komið á rekspöl sem dómsmál er í sambandi við einkaréttinn til áfengisútsölu. Ég nefni þetta hér vegna þess að það er lýsandi dæmi um það hvernig stjórnmálamenn, sem bera ábyrgð á þessum samningi, hafa lesið í málið og leyft sér að túlka ákvæði samningsins áður en hann gekk í gildi. Ég nefni það hér vegna þess að við hæstv. núv. dómsmrh. og þáv. einnig áttum orðastað einmitt um þetta atriði á Alþingi á sínum tíma þar sem hæstv. ráðherra svaraði fyrirspurn af

minni hálfu varðand áhrif EES-samningsins á innflutning og sölu áfengis í landinu. Ég vil, með leyfi forseta, aðeins fá að rifja upp fáein atriði sem tengdust umræðu um þessa fyrirspurn og þá sérstaklega úr svari hæstv. ráðherra. En fyrirspurnin var um það hvaða áhrif EES-samningur mundi hafa að mati ríkisstjórnarinnar á núverandi lög og reglur um innflutning, sölu og dreifingu áfengis hér á landi. Síðan benti ég á ýmislegt í samningnum sem að líkindum leiddi til þess að það kerfi sem við hefðum í þessum efnum og sem ríkisstjórnin hygðist halda uppi stæðist ekki samninginn í reynd. En hæstv. dómsmrh. svaraði með þessum hætti, með leyfi forseta:
    ,,Norðurlöndin innan EFTA hafa öll áfengiseinkasölur. Þau hafa ekki litið svo á að í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið felist skuldbindingar um að fella þessar einkasölur niður. Framkvæmdastjórn Evrópubandalagsins hefur ekki andmælt þeim túlkunum samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmrn. hefur fengið frá viðskiptaskrifstofu utanrrn. að því gefnu að einstökum vörutegundum sé ekki mismunað eftir því frá hvaða landi þær koma.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem dómsmrn. hefur frá fjmrh. þá lítur það ekki svo á að samningarnir um Evrópska efnahagssvæðið feli í sér neinar kvaðir um það að breyta því einkasölufyrirkomulagi sem nú er við lýði. Samkvæmt þeim upplýsingum bendir ekkert til þess að þessir samningar feli í sér neinar skuldbindingar af því tagi gagnvart íslenskum stjórnvöldum. Við eru frjálsir að því að halda núverandi kerfi áfram að því tilskildu að ekki verði um að ræða mismunun milli vörutegunda.``
    Þetta eru orð hæstv. dómsmrh. 30. apríl 1992 á Alþingi.
    Vissulega hefur þetta mál ekki verið leitt til lykta, en menn heyra hvað er að gerast í þessum efnum og það tengist náið þeim samningaviðræðum sem standa yfir milli Norðmanna, Svía og Finna annars vegar, hvers ríkis í sínu lagi við Evrópubandalagið þar sem þetta álitaefni er eitt af mjög mörgum sem deilt er um þar. En það þurfti í rauninni ekki þessar samningaviðræður til þess að þetta yrði ásteytingsefni og stefndi í dómsmál um þetta því að þegar á nýju ári þegar EES-samningurinn gekk í gildi var látið á það reyna af smásöluverslun á Skáni í Svíþjóð. Það var verslunareigandinn Harry Franzen í Röstånga sem ætlaði sér að selja áfenga drykki út úr verslun sinni en tekið var fram fyrir hendurnar á honum af lögreglu og nú mun væntanlega á þetta reyna í dómskerfinu. Ætli komi ekki að því að þá verði EFTA-dómstóllinn spurður álits af héraðsdómara á þessum stað hvaða réttur gildi samkvæmt EES-samningnum og þá held ég að geti orðið tvísýnt um staðhæfingar hæstv. dómsmrh. og þann skilning sem hann viðraði hér vorið 1992.
    Þetta mál er lýsandi dæmi um það hvernig stjórnvöld, bæði hér á landi sem og í öðrum EFTA-ríkjum, hafa reynt að blekkja almenning. Það er svo langt gengið í Svíþjóð í þessu efni og það þá tengt samningaviðræðunum um inngöngu í Evrópubandalagið að þeir stinga eigin álitsgerðum undir stól þar sem það er dregið fram að það sé mjög mikill vafi á því að það takist að halda uppi því dreifingarkerfi einkum í smásölu sem Svíar hafa haft og vilja halda áfram með. Slíkum skýrslum er stungið undir stól og um það má m.a. lesa í Dagens Industri frá 7. jan. sem ég hef hér undir höndum þar sem greint er frá skýrslu sem var í höndum stjórnvalda og þau áttu hlut að að gerð var til þess að skera úr um þetta álitaefni.
    Það getur farið svo, virðulegur forseti, að þeim málum eigi eftir að fjölga þar sem túlkanir þeirra sem ábyrgð bera á þessum samningi fái ekki staðist um réttarstöðuna því að það eru ekki orð stjórnmálamanna sem munu gilda ef látið er á reyna í dómskerfinu heldur þau álit sem dómar kveða upp og í megingrundvallaratriðum verða að sjálfsögðu dómar og álit Evrópudómstólsins ráðandi í túlkun á þessum samningi og einstökum ákvæðum hans. Það er staðan sem við stöndum frammi fyrir. Það er sú ömurlega staða sem þessi samningur býr okkur og þar er um að ræða --- og nú eru báðir talsmenn ríkisstjórnarinnar hlaupnir á dyr, virðulegur forseti, bæði talsmaður 1. minni hluta allshn. og sjálfur ráðherrann og geri ég nú hlé á máli mínu.
    ( Forseti (KE): Forseti mun gera ráðstafanir til að láta bæði hv. formann allshn. og ráðherra vita að þeirra sé óskað í salinn.)
    Evrópudómstóllinn, sem EFTA-dómstóllinn mun verða að taka mið af þegar hann veitir sitt álit samkvæmt því frv. sem hér er til umræðu og þeim samningi sem það byggir á, er ekki dómstóll af því tagi sem við Íslendingar höfum átt að venjast hér í okkar dómskerfi. Hann er dómstóll sem horfir ekki á bókstafinn fyrst og fremst, sett lög og reglur. Hann er dómstóll sem gengur mjög langt í því að ganga út frá markmiðum þess samnings eins og hann túlkar þau, þess samnings sem hann starfar eftir og á að úrskurða um. Hann gengur langt í því að túlka þau sjónarmið óhefts viðskiptafrelsis, frelsis fyrir fjármagn og önnur ákvæði sem geti hert á samrunaþróuninni. Það er sú forskrift sem hann fylgir og finna má stað í fjölmörgum dómum hans á liðinni tíð. Þeir dómar sem þarna á að byggja á og tengjast þessu máli liggja ekki hér fyrir Alþingi Íslendinga þó að í rauninni sé verið að gera þá að réttargrundvellinum í landinu á öllu samningssviðinu. Hæstv. utanrrh. birti náðarsamlegast, og það skal ekki vanþakkað, smáútdrátt um dómareifanir vegna EES-samningsins í litlu kveri og á íslensku máli. En sjálfir dómarnir sem eru grundvöllurinn liggja ekki fyrir á Alþingi og hafa hvergi komið fram í tengslum við þetta mál í heild sinni, þeir dómar sem samkvæmt 6. gr. samningsins á að byggja á. Hvað þá að þeir liggi fyrir á íslensku máli.
    Hvað ætli einn virðulegur hæstaréttarlögmaður segi um það efni? Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að nefna það hér um þessa stöðu og möguleika íslenskra dómstóla til þess að vinna innan þessa réttarkerfis sem hér er verið að innleiða. Ég leyfi mér að vitna í orð Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns sem hann viðhafði á fundi Lögfræðingafélagsins og Ríkisútvarpsins um EES-samninginn og íslensku stjórnarskrána 20. júní 1992. Hann sagði, með leyfi forseta:
    ,,Ef ég mætti bæta við þetta sem áður hefur fram komið að meðal réttarheimilda íslenskra eftir 1. jan. 1993, ef fram fer sem horfir, eru dómar dómstóls Efnahagsbandalagsins. Og strax á næsta ári þurfa þeir sem flytja mál fyrir íslenskum dómstólum að geta vitnað til þeirra réttarheimilda.
    Samkvæmt alveg ljósum fyrirmælum íslenskra laga er dómsorð íslenska og það verður að vitna til þessara réttarheimilda á íslensku og dómstólarnir munu ekki taka við lélegum þýðingum og óljósum okkar lögmannanna heldur krefjast þess að við vitnum í réttarheimildirnar á dómsmálinu verði þessar réttarheimildir ekki fram komnar. Það er óhjákvæmilegt að þær verði lagðar fyrir Alþingi áður en afstaða verður tekin til samningsins því annars er þetta allt saman unnið fyrir gýg því það stæðist ekki okkar lagafyrirmæli, bæði stjórnarskrá og í almennum lögum um lagasetningu þannig að þetta er bara verk sem þarf að vinna sem fyrst.``
    Mér er ekki kunnugt um, virðulegi forseti, að þessu verki hafi miðað áfram og væri út af fyrir sig fróðlegt að frétta af því. En það er athyglisvert að heyra þetta sjónarmið sem hér kemur fram að í rauninni sé íslenskt réttarkerfi ekki virkt að því er varðar málsmeðferð sem tengist þessum samningi og 6. gr. samningsins í sambandi við það að byggja á öllu dómasafni Evrópudómstólsins frá 1957 að telja að því er varðar samningssviðið.
    Virðulegur forseti. Það var ekki ætlan mín að teygja þetta mál umfram þarfir og ég ætla senn að ljúka máli mínu um þetta frv. sem hér liggur fyrir að þessu sinni. Ég hef vakið athygli á því að það réttarkerfi sem hér er verið að innleiða stenst í fyrsta lagi ekki íslensku stjórnarskrána og þverbrýtur ákvæði hennar. Í öðru lagi verður sú hjáleiga sem hér er vitnað til, EFTA-dómstóllinn, og sem er verið að leita heimilda til fyrir íslenska dómstóla til að leita að forsögn hjá, aldrei annað en endurspeglun af því réttarkerfi þar sem Evrópudómstóllinn í Lúxemborg ræður ferðinni. Vegna þess að samkvæmt samningsskuldbindingum ber samningsaðilum að fara eftir úrskurðum hans, að túlka samninginn og allt sem að honum lýtur í ljósi þeirrar niðurstöðu sem dómstóllinn í Lúxemborg hefur komist að og mun komast að í framtíðardómum sínum. Að þessu leyti er aðstaðan að því er varðar dómskerfið ósköp svipuð og hjá löggjafanum, þ.e. sama nauðungin uppi, en þó gengið lengra að því leyti að hér er um endanlega úrskurði að ræða. Alþingi Íslendinga að því er varðar löggjöf heldur þó enn eftir því formlega valdi að hafna þeim lögum sem að þinginu berst utan að. Þessu er ekki þannig fyrir komið í sambandi við dómskerfið. Það er því þaðan af verri staða sem þar er uppi og brotið gegn stjórnarskrá lýðveldisins blasir því við enn naktar en liggur fyrir að því er varðar löggjafarvaldið þó svo ýmsir vilji túlka það svo og það megi í rauninni lesa út úr bókun 35 með samningnum að menn telji, a.m.k. þeir sem standa að þessum þjóðréttarlega samningi, að þinginu beri að fara að ákvæðum samningsins í löggjöf að einu og öllu.
    Þessi samningur, sem er nú rösklega mánaðargamall, á eftir að reyna meðan hann er í gildi á þolrif Íslendinga eins og annarra sem hafa fjötrað sig í hann. En menn skulu ekki halda það og það vil ég endurtaka hér að lokum, virðulegur forseti, að það verði eitthvert sjálfgefið mál að taka við þeim sendingum sem að okkur berast í formi lagafrumvarpa utan að frá framkvæmdastjórninni í Brussel hér á Alþingi Íslendinga sem einhverjum nánast sjálfsögðum hlut sem okkur beri að lögfesta hér á Alþingi vegna þess að við höfum fallist á ákvæði þessa samnings. Þingið að meiri hluta hefur samþykkt þennan samning. Það getur ekki verið það leiðarljós og vegarnesti sem við eigum að fylgja heldur hitt þrátt fyrir þá frelsisskerðingu sem í þessum samningi felst að standa á íslenskum hagsmunum.