Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:09:10 (3921)


[19:09]
     Kristín Einarsdóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég býst við því að hv. 3. þm. Reykv. og ég þurfum að ræða ansi lengi til þess að geta komist að sameiginlegri niðurstöðu að því er varðaði EES-samninginn og stjórnarskrárbrot þannig að ég ætla ekki að ræða það neitt sérstaklega. Það er fyrst og fremst vegna þess sem hann segir, að ég hafi snúið út úr því sem hann sagði. Ég vil meina að það væri ágætt að menn tækju sig til og skoðuðu það sem hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson sagði. Ég tel að það hafi verið hálfgerður útúrsnúningur hjá honum að það sé á sama hátt hægt að snúa út úr því sem hún sagði. Ég lít ekki á það sem þversögn í fyrsta lagi að leggja það til að það sé ekki rétt að það sé hægt að leita réttar síns þegar farið er fyrir félagsdóm vegna þess að ef maður leggur til að það verði fellt út þá þarf auðvitað ekki að spekúlera í kostnaðinum við akkúrat þann þátt. En það eru miklu fleiri atriði sem kosta, það er ekki bara félagsmálapakkinn. Ég t.d. lít svo á að það eigi alls ekki að heimila íslenskum dómstólum að leita til erlendra dómstóla. Þeir eiga að meta eftir íslenskum lögum fyrst og fremst. Eingöngu. Hins vegar ef það er samþykkt, þá get ég litið svo á að það þurfi að hjálpa fólki við kostnaðinn þannig að það er ekki þversögn í því að mínu mati. Það getur vel verið að það sé að mati hv. 3. þm. Reykv., þá verður bara að hafa það. Ég lýsi hins vegar ánægju minni með að það hafi verið misskilningur af minni hálfu að hann hafi ekki viljað að tekið yrði þátt í kostnaði við þetta og að það mundi ekki falla á þá sem væru að leita réttar síns fyrir dómstólum. Það er auðvitað bara ánægjulegt því að þá erum við sammála að því er það varðar.