Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:11:22 (3922)


[19:11]
     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil ítreka það að ég tók enga afstöðu til þess máls, enda finnst mér að það hljóti að koma til athugunar og ég hef skilið það svo að það yrði gert. En það sem hv. 9. þm. Reykn. --- það er nú einkennilegt að þurfa að fara að deila um þessa löngu ræðu aftur hér sem ég taldi að væri allt of löng og fremur óskipuleg og það hefur komið í ljós að menn hafa kannski ekki hlýtt á hana svo gaumgæfilega. Það sem hv. 9. þm. Reykn. var að segja var að sá háttur sem væri verið að taka upp í þessu frv. leiddi til þess að það yrði óþolandi þrýstingur á dómara í landinu, og manni gat skilist að dómstólarnir yrðu næsta óstarfhæfir út af því að þessi háttur yrði tekinn upp. Síðan benti ég á það að ef menn ætluðu þá að auðvelda fólki að sækja mál sitt fyrir EFTA-dómstólnum eða leita álits með því að taka á sig að greiða kostnaðinn, þá hlyti þessi þrýstingur á dómarana, sem hv. ræðumaður taldi að væri óþolandi, að verða enn þá óbærilegri. Það var þessi þversögn sem ég vakti athygli á. Ég efast um að hv. 15. þm. Reykv. hafi hlustað á hina löngu og ítarlegu ræðu og ég undrast það náttúrlega ekki að þingmaðurinn hafi ekki gert það því að eins og fram hefur komið í máli manna hér, þá taldi ég þá ræðu eiginlega ekki eiga neitt erindi inn í þessar umræður.