Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:17:57 (3927)


[19:17]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það er ekki þörf á að bæta miklu við það sem fram hefur komið í umræðunni í dag. Talsmenn 2. minni hluta hafa gert nokkuð rækilega grein fyrir okkar sjónarmiðum og er ekki miklu við það að bæta af minni hálfu því að þeir hafa fjallað um málið bæði málefnalega og rækilega og það svo að hv. 3. þm. Reykv. kveinkaði sér undan ítarlegum málflutningi okkar stjórnarandstæðinga í þessu máli. Ég get svo sem vottað honum samúð mína í þessu máli, að þurfa að reyna að halda uppi vörnum með svona veikan málstað sem raun ber vitni í frv.
    Það er nú svo að þráðurinn er ekki sterkari en sjá má í álitsgerð sérstakrar nefndar sem utanrrh. skipaði og skilaði af sér á árinu 1992 í júlímánuði. Þar kom fram í raun og veru nánast með beinum hætti að í samningnum eins og hann var þá frágenginn væri um að ræða valdaframsal. Því var ekki mótmælt að samningurinn fæli í sér afsal eða framsal valds úr landi og einkum og sér í lagi var það dómstólaþátturinn sem var ástæða mats þessarar ágætu nefndar sem verður ekki sökuð um það að hafa verið þannig skipuð að hætta sé mikil á að hún hafi skilað áliti óvilhöllu utanrrh. og ríkisstjórninni ef á annað borð má ætla að um slíkt hafi verið að ræða sem ég ætla ekki að leiða neinum líkum að. En ég vil a.m.k. undirstrika það að ég tel engar líkur á því að álit þessarar nefndar halli á nokkurn hátt á það sem hæstv. utanrrh. og ríkisstjórnin taldi í málinu. En þessi ágæta nefnd dró það sterklega fram að það væri þessi þáttur sem væri hvað varhugaverðastur en taldi að málið slyppi fyrir horn vegna þess að reglurnar um vald stofnana EFTA væru vel afmarkaðar og fælu ekki í sér verulegt valdframsal, ekki verulegt valdframsal sem talið verði íþyngjandi í ríkum mæli.
    Það þarf ekki að skoða þetta frv. mjög lengi til að efast um, eða a.m.k. vakni spurningar um það hvort texti frv. sé þannig að hægt sé að kalla ákvæðin í greinunum vel afmörkuð. Ég set t.d. spurningarmerki við ákvæðið um félagsdóm í 2. gr. frv. en þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Með sama hætti og segir í 1. og 2. mgr. 1. gr. getur félagsdómur leitað álits EFTA-dómstólsins um atriði mála sem eru rekin þar.`` --- Um atriði mála. Hvaða atriði, virðulegi forseti? Þetta er ekki vel afmarkað að mínu viti. Ég tel að menn geti hæglega deilt um það hvaða atriði mála það eru sem menn ætla með lagatextanum að gefa heimild til þess að leita til EFTA-dómstóls út af. Ég held að bæði aðilar fyrir félagsdómi og svo EFTA-dómstólnum gætu haft sína túlkun á því hvaða atriði mála væri um að ræða.

Þetta er ekki vel afmarkað. Að sumu leyti má nefna það sama um 1. gr. frv. Þannig að hér eru menn á ákaflega veikum ís, virðulegi forseti, með þessu frv. um öflun álits EFTA-dómstólsins.
    Til þess að undirstrika hversu veikt málið stendur stjórnarfarslega séð kemur það skýrt fram hjá þessum ágætu aðilum í nefndinni sem ég gat um að það að álitið sé aðeins ráðgefandi en ekki bindandi sé úrslitaatriði málsins að það sleppi. Ef það væri bindandi þá er nefndin sammála um að það mundi ekki sleppa, það væri stjórnarskrárbrot, svo ekki er deila um það milli okkar stjórnarandstæðinga og þessarar nefndar. Hins vegar hafa menn ólíkar skoðanir á því hvort það sé rétt sem nefndin setur fram að það að hafa þetta álit með þessum hætti dugi til að sleppa undan því að um stjórnarskrárbrot sé að ræða. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mjög hæpið að halda því fram að búningur málsins sé þannig að menn sleppi fram hjá öllum boðum í þessum efnum.
    Ég minni á það svona í leiðinni að hv. þingheimur man að það gekk í sundur á sínum tíma, einmitt dómstólaþáttur málsins, þegar upphaflega var gert ráð fyrir að hafa einn sameiginlegan dómstól og talið var að það gengi ekki og menn breyttu því.
    Lítum aðeins á hvernig menn ætla svo að framkvæma málið í reynd eftir að vera komnir að þessari niðurstöðu að leiðin til þess að málið standist stjórnarskrá að þeirra mati sé að hafa álitið ráðgefandi. En áður en við lítum á það þá skulum við aðeins rifja upp hvaða álit sú leið fær hjá aðilum sem verður að taka mark á. Ég vil vitna til álits Lögmannafélags Íslands sem sent var 28. sept. 1992 til allshn. Í því áliti kemur réttilega fram að það sé talið nauðsynlegt í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að ákvæði hans séu túlkuð og framkvæmd á sama veg í öllum aðildarríkjum samningsins, annað leiði til öngþveitis á samningssvæðinu ef þetta samræmi náist ekki. Álit Lögmannafélags Íslands á þessari leið sem frv. hefur að geyma er eftirfarandi, með leyfi forseta:
    ,,Til þess að koma í veg fyrir að ófremdarástand af þessu tagi skapist er óhjákvæmilegt að setja á stofn einn dómstól sem túlki lög þau og reglur er gilda á EES-svæðinu. En þar sem dómstólum er hvorki skylt að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins né heldur að fara eftir áliti hans er afar vafasamt að þetta frv. ef að lögum verður nái tilgangi sínum, þeim að tryggja samræmda túlkun á ákvæðum EES-samningsins og bókunum og viðaukum við hann.``
    Þessi tilvitnun dregur það alveg skýrt fram að menn sem eru býsna fróðir í þessu efni gera sér auðvitað grein fyrir því að ef það er rétt, að ef menn ætla að fara þessa leið eins og hún er okkur sögð að menn ætli að praktísera hana, þá muni menn ekki ná þeirri samræmingu sem samningurinn krefst og menn endi því í hálfgerðri blindgötu hvað það varðar. Þess vegna er frv. þannig útbúið, eins og sjá má og lesa í greinargerð, að það er ætlast til þess, og allur farvegur málsins þannig gerður, að menn leiti eftir þessu áliti enda segir í athugasemdum með frv., með leyfi forseta, að vissulega verði að telja að eftir því, þ.e. áliti EFTA-dómstólsins, yrði að öðru jöfnu farið að því leyti sem úrlausnin veltur á álitaefninu.
    Þannig er sagt berum orðum af hálfu þess sem flytur málið, ríkisstjórnarinnar, að menn eigi að hafa það sem meginreglu að leita eftir þessu áliti. Og til þess að tryggja það að koma þessari álitsgerð við sem fyrst þá er frv. búið þannig út að það sé strax á fyrra dómstigi hægt að sækja sér þetta álit.
    Þannig sýnist mér að menn séu að teikna upp farveg þar sem þeir ætla að láta það í orði kveðnu heita ráðgefandi álitsgerð en í reynd að vera bindandi álitsgerð. Það er mitt mat að verði það reyndin eins og ég les út úr frv. þá séu menn í raun búnir að binda síðara dómstig, eða það fyrra eftir atvikum, af slíkri álitsgerð sem yrði sótt í þessum álitamálum, því það er ekki við því að búast og reyndar sagt berum orðum, að dómarar dæmi gegn áliti EFTA-dómstólsins. Það væri yfirlýsing um það að íslenskur dómstóll ætlaði að ýta til hliðar samræmingarkröfunni, ganga gegn henni, sem aftur er svo yfirlýst eins og ég hef vitnað og reyndar má rekja á öðrum stöðum að ríkisstjórnin er ákveðin í að fylgja eftir.
    Ég geld því mikinn varhug við þessu. Ég tel að menn séu að stíga mikið óheillaspor í þessu efni. EFTA-dómstóllinn mun auðvitað eðli málsins samkvæmt þurfa að hafa mjög gát á því hvað EB-dómstóllinn gerir og taka mið af því og miðað við aflsmuni, ef svo má að orði komast í þessum efnum, þá sýnist mér að EFTA-dómstóllinn muni vera nokkurs konar eftirbátur hins og gegnum það tryggi menn í raun og veru samræminguna sem menn telja að þurfi að vera í gegnum þessa brú sem menn hafa smíðað með þessum dómstólum. Þannig að það sem við sitjum uppi með í reynd er bergmál af EB-dómaþróuninni. Það getur hver og einn spurt sig að því hvort það sé það sem menn vilji. Um það geta menn haft skiptar skoðanir en menn eiga ekki að vera að segja, hvorki þingi né þjóð, að menn séu að gera eitthvað annað. Menn eiga að segja raunverulega það sem þeir eiga að gera og segja skýrt og skilmerkilega frá því að menn séu að fara krókaleiðir fram hjá áliti nefndar ríkisstjórnarinnar um það hversu langt samningurinn gengi í það að rekast á stjórnarskrána.
    Virðulegur forseti. Ég tel ekki rétt að sinni að hafa fleiri orð um þennan þátt málsins en þetta er auðvitað höfuðatriðið, þessi uppbygging á dómstólafarvegi málsins og rétt að mönnum sé það ljóst hvernig það er hugsað og á að ganga eftir.
    En það er atriði sem ég vil nefna líka þótt aðrir hafi á undan mér gert það að umtalsefni, mér þykir rétt að ítreka það a.m.k. til að leggja áherslu á að það er nauðsynlegt að þar verði bætt úr frá því sem lagt er til af hálfu stjórnarliðsins í málinu. Það er í fyrsta lagi að reglurnar um þennan EFTA-dómstól verða að vera skýrari en fyrir liggur á þessu stigi máls. Það kemur t.d. fram í athugasemdum með frv. að ýmis framkvæmdaatriði varðandi málarekstur fyrir EFTA-dómstóli ráðist af reglum hans og auðvitað verðum við,

áður en við göngum endanlega frá þessu máli, eða þeir sem vilja bera ábyrgð á því, að vera búnir að kynna sér hvernig þessar reglur eiga að vera. Eins og fram hefur komið hafa þær verið sendar nefndarmönnum í allshn. á ensku. Ég verð nú að segja, virðulegur forseti, að mér þykir nefndarmönnum vera nokkuð misboðið að ætla þeim að lesa sig í gegnum þetta á annarri tungu en þeirri sem við eigum að nota í þingstörfum. Ég hefði talið að viðkomandi ráðherra eða þingið sjálft ætti að sjá sóma sinn í því að koma þessum texta yfir á aðgengilegt mál fyrir okkur. Það er óþolandi að hafa ekki fyrir sér þessi drög að reglum á máli sem maður skilur til nokkurrar hlítar skulum við segja.
    Ég hafði óskað eftir því að utanrrh. yrði hér viðstaddur og hafði hugsað mér að beina til hans fyrirspurnum einmitt um þessar starfsreglur en það kemur fram í þessum drögum sem nefndarmenn allshn. eru með að EFTA-dómstóllinn sendi utanrrh. þessi drög 11. nóv. á síðasta ári og ríkisstjórnin þarf að fara yfir þetta og staðfesta og mig langaði til að spyrja ráðherrann hvar þetta mál væri á vegi statt, hvort það væri búið að ganga frá þessum reglum af hálfu ríkisstjórnar Íslands eða hvort þess væri kostur að fá málið tekið fyrir innan allshn. og fá fulltrúa ríkisstjórnarinnar í málinu til að fara yfir það með okkur og greina okkur frá því hvaða afstöðu ríkisstjórnin hefur til þessara draga og hvaða breytingar hún kemur til með að vilja gera. Það skiptir miklu máli upp á þetta frv. því að ef t.d. þannig ákvæði verða um kostnað eins og virðist vera í þessum enska texta þá sýnist mér að við getum ekki annað en sett inn í frv. sem við erum að ræða núna ákvæði um kostnað. Það hefur verið rækilega skýrt fyrir þingheimi hvað það hefur í för með sér ef ekki verða sett ákvæði sem taka á því. Það hækkar einfaldlega málskostnað ef málsaðili fær því framgengt að málið verði sent til EFTA-dómstóls og leitað álits, að sá sem kann að tapa málinu á það á hættu að þurfa að bera allan kostnað af því að endingu. Og fyrir utan það að málarekstur af þessu tagi lengir tímann sem líður frá því að mál hefst og þar til því lýkur endanlega sem er óæskilegt þá er þetta ákvæði um kostnað eða skortur á ákvæðum um það afar tilfinnanlegt og bagalegt. Það er engin þversögn í því fólgin af hálfu okkar stjórnarandstæðinga sem ekki styðjum það að opna þessa leið til erlends dómstóls að leggjast á þá árina að kostnaðurinn falli ekki eins og fyrirsjáanlegt er ef við verðum undir með okkar skoðun og þessi leið verði opnuð þrátt fyrir okkar andstöðu. Það er fyllilega eðlileg afstaða og engin þversögn í því fólgin og mér finnst að hv. þm. Björn Bjarnason sem var með þessar ásakanir uppi áðan ætti að spara sér slíkan málatilbúnað og væri sæmra að koma hér upp með einhverjar hugmyndir eða tillögur um það hvernig ætti að koma þessum kostnaði fyrir með öðrum hætti en frv. leggur til. Ég vænti þess að viðkomandi þingmaður muni taka sig á í þessum efnum.
    Virðulegi forseti. Þetta er í örstuttu máli það sem ég vildi bæta við þá umræðu sem orðin er í málinu sem mér finnst hafa verið að mörgu leyti góð þó að ég geti ekki tekið undir það að hún hafi verið löng því þetta er eitt allra stærsta málið, eitt allra stærsta fylgifrumvarpið eða hliðarmálið við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og ekkert undarlegt þó að það þurfi nokkuð að ræða þetta mál. Ef eitthvað er þá kemur það mér frekar á óvart hversu skamman tíma það tekur að ljúka þessari umræðu.