Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 19:37:51 (3928)


[19:37]
     Frsm. 2. minni hluta allshn. (Jón Helgason) :
    Hæstv. forseti. Ég vildi minnast á örfá atriði sem fram hafa komið í þessari umræðu þar sem nokkuð víða hefur verið komið við og vakin athygli á ýmsum mikilvægum málefnum. Í fyrsta lagi er það málskotsheimild til handa héraðsdómi. Í mínum huga er þetta grundvallaratriði að því leyti að með því er verið að marka þá stefnu að við skulum ganga lengra í því að leita út fyrir landsteinana eftir úrskurði okkar mála heldur en samningurinn leggur okkur skyldu á herðar. Þar finnst mér vera um að ræða, eins og ég sagði í minni framsöguræðu fyrir nokkru síðan, að væri um stefnumörkun á hendi núv. hæstv. ríkisstjórnar, að vilja sækja eins mikið og hún gæti af úrskurðum út fyrir landsteinana og ég er andvígur því.
    Það kom fram bæði hjá hæstv. dómsmrh. og hv. frsm. 1. minni hluta allshn., 6. þm. Reykv., að það væri gott að fá þessi úrslit sem fyrst því það gæti leitt til þess að þá mundu málsaðilar sættast. Ég býst við því að það mundu sjálfsagt ýmsir hika við að áfrýja til Hæstaréttar dómi í héraðsdómi sem væri byggður á áliti frá EFTA-dómstóli vegna þess að þar er raunverulega um að ræða æðstarétt. Það er orðinn hinn raunverulegi hæstiréttur í landinu því það segir beinlínis í greinargerð frv. að það sé líklegt að eftir þessu áliti verði farið. Og það er gjörsamlega vonlaust með þessa túlkun fyrir nokkurn að áfrýja til Hæstaréttar eftir að æðsti dómstóll hefur kveðið upp sitt álit.
    En eins og ég nefndi í andsvari að vilja rökstyðja þá leið eins og hæstv. dómsmrh. gerði að það mundi létta eitthvað á Hæstarétti málum og leysa hans vanda, það er hugsunarháttur sem er fjarri mér.
    Í öðru lagi er það svo með félagsdóm. Hv. 6. þm. Reykv. las upp athyglisverða umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands þar sem þeir létu í ljós kvíða sinn ef þessi heimild sem Alþingi veitti yrði notuð því það mundi tefja málin og verða til vandræða. Það á sem sagt að treysta á það að sú vitleysa sem Alþingi samþykkir verði ekki notuð. það finnst mér heldur ekki skemmtileg rök í málinu.
    Þá er það í þriðja lagi með kostnaðinn. Mér finnst það hafa komið fram að sumir hv. ræðumenn hafi ekki skilið hvað 2. minni hluti allshn. er að fara með brtt. sinni. Ég reyndi að skýra það í minni framsöguræðu, ég veit ekki hvort allir hafa hlustað á hana, en brtt. hljóðar þannig um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

    ,,Á undan 3. gr. komi ný grein sem orðist svo:
    Aðila, sem ekki óskar eftir úrskurði um álitsbeiðni til EFTA-dómstólsins, skal aldrei gert að greiða þann aukakostnað sem af þeirri beiðni hlýst.``
    Ef dómstóll tekur það upp að eigin frumkvæði að leita eftir þessu áliti af því að hann treystir ekki á eigin dómgreind, þá á málsaðili ekki að gjalda fyrir það. En hins vegar ef annar hvor málsaðilinn knýr á það við dómara eða dómstól að eftir þessu sé leitað þá eigi hinn aðilinn, sem ekki kærir sig um það, ekki að gjalda fyrir það með ómældum upphæðum, tugum, hundruðum þúsunda eða jafnvel meiru, því eins og komið hefur skýrt fram þá er þetta álit í reynd æðsti dómstóll. Því er það alveg rétt sem hv. 3. þm. Reykv. sagði að menn leggja æðimikið á sig til þess að verja sinn málstað fyrir slíkum dómstóli.
    Í þessum doðranti sem við fengum aðeins á ensku --- og ég spurði reyndar hæstv. dómsmrh. að því á sínum tíma hvort hann teldi að það væru boðleg vinnubrögð og hvort þetta ætti að boða það að þannig ætti Alþingi að vinna --- eru tíunduð ýmis atriði í sambandi við vinnubrögðin. Ég get ekki skilið annað en að það geti verið nokkuð flókinn gangur mála. Ef mál er sent til dómstólsins þá á að senda það til allra aðildarríkja, láta þau vita að þarna sé þetta mál á ferðinni. Það er enginn tímafrestur um það hversu fljótt ríkin eigi að bregðast við og koma og sinna málinu eða hvenær dómstóllinn á að taka málið fyrir. Síðan er aðilum gefinn kostur á því, og eins og ég sagði áður er líklegt að aðilar muni leggja mikla áherslu á það að fá tækifæri til að fara og skýra sitt mál fyrir þessum dómstóli þar sem aðeins situr einn maður af sjö sem þekkir eitthvað til aðstæðna hér á Íslandi. Því er mikið í húfi að aðilar, sem vilja reyna að verja sig og koma sínum viðhorfum á framfæri, geri það á þann hátt. Miðað við þann kostnað sem er við ferðalög til dómstólsins héðan og við dvöl þar þá er það fljótt að koma í háar upphæðir.
    Ég get ekki áttað mig á því hvort það gæti komið til að aðilar þyrftu að fara oftar en einu sinni eða hversu lengi þeir þurfa að dvelja þarna því eins og ég segi eru engin tímamörk sett í þessum starfsreglum.
    Hv. 6. þm. Reykv. sagði að sér fyndist þessi brtt. okkar um greiðslur og ábyrgð eitthvað óskýr. Eins og ég hef reynt að segja þá finnst mér það ekki vera. Ég get ekki skilið það öðruvísi en að ef dómari ákveður að leita álitsins að eigin frumkvæði þá hlýtur hann að bera ábyrgðina á þessum kostnaði eftir þessari brtt. Við vitum það hver ber ábyrgð á dómaranum. Það er auðvitað ríkissjóður, það getur enginn annar gert. Þannig að mér finnst þetta ekki vera óskýrt. En ég er að sjálfsögðu reiðubúinn til þess að fá góðar ábendingar frá hv. formanni allshn. ef þetta þarf að orðast skýrara og einnig er sjálfsagt að taka til skoðunar þau boð sem hér hafa komið um að ráðuneytið vilji líta á þetta mál. Ég vonast því til að þetta verði tekið fyrir til athugunar og umræðu á fundi allshn. áður en að 3. umr. kemur. Og með tilliti til þess að þá munum við fá góðar ábendingar og nýjar upplýsingar þá mun ég ekki tefja þessa umræðu meira með fleiri athugasemdum og geyma það þá til 3. umr.