Álit EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um EES

85. fundur
Þriðjudaginn 08. febrúar 1994, kl. 20:02:36 (3930)


[20:02]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð inn í þessa umræðu sem ég hef því miður ekki getað hlustað á alla í dag, en þó að verulegu leyti. Ég held satt að segja að það sé ekki tilviljun að þeir hv. þm. sem sæti eiga í EFTA-nefndinni og þar með EES-nefndinni hafa haldið sig fjarri í dag. Vegna þess að fyrir okkur er þessi umræða mjög sérkennileg. Ég vil taka það strax fram að allt það sem ég hef heyrt hv. stjórnarandstöðuþingmenn segja hér í dag er hárrétt. Munurinn er sá að hér á Íslandi viðurkenna menn þetta ekki og allra síst þeir sem samþykktu samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. En um leið og við erum komin á fundi suður í Brussel eða suður í Genf þá er talað allt öðruvísi um þetta. Þar eru menn ekkert að velkjast í vafa um að auðvitað erum við að afsala okkur valdi. Það reynir enginn að halda öðru fram. Þannig að á einhvern sérkennilegan máta þora íslensk stjórnvöld og áköfustu áhangendur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ekki að segja þjóðþinginu og Íslendingum öllum sannleikann í þessu máli. Þeir sem hafa viljað af einlægum huga ganga í þetta samstarf gera það með opnum huga og segja það hreint út. Hér eru menn alltaf að reyna að pakka þessu inn í eitthvað annað en það er.
    En ég skal ekki leggja það á þá fáu hv. þm. og virðulegan forseta að lengja þessa umræðu mjög mikið, ég mun taka þátt í 3. umr., en til þess að menn virði einhvers þær athugasemdir sem hér hafa komið fram og þá umræðu sem hefur farið fram sem ég tel að hafi verið afar vönduð, þá mundi ég vilja að menn færu nú að hinum nýju þingsköpum en þar segir í 23. gr.: ,,Vísa má máli til nefndar á hverju stigi þess. Sé það gert áður en umræðu er lokið þá skal henni frestað.``
    Ég vildi nú fara fram á það við hæstv. forseta að málinu verði vísað aftur til nefndarinnar áður en umræðu lýkur og hún kæmi síðan til loka 2. umr., jafnvel mjög fljótlega ef svo bæri undir. En ég tel að hér hafi komið fram ábendingar sem óhjákvæmilegt er að nefndin líti ofan í. Og það getur varla talist ósanngirni að fara fram á það.
    Ég vil benda á, hæstv. forseti, að við eigum eftir að fá ótal EES-mál hér til afgreiðslu. Ég vil jafnframt nota þetta tækifæri til að vara við að þingið er á engan hátt þess burðugt að afgreiða þessi mál. Hvert einasta þjóðþing sem að þessum samningi stendur hefur auðvitað tryggt sér starfsfólk til að vinna að þessum málum. Það þarf töluverðan hóp fólks til að annast þessi mál eingöngu því hér hefur hið háa Alþingi fengið gjörsamlega ný verkefni sem það er á engan hátt tilbúið til að fást við. Og ég trúi því ekki að hið háa Alþingi ætli að sætta sig við það að starfsmenn í Stjórnarráðinu eigi að bera hitann og þungann af þessu verki, þ.e. starfsmenn framkvæmdarvaldsins, en löggjafinn sjálfur sé með öllu ófær um að vinna þessi mál svo einhver sómi sé að. Hversu mikil vinna sem lögð er í þetta af hálfu hv. allshn. dugar það engan veginn. Ég hef ekki orðið þess vör að það eigi neitt þar úr að bæta. Það er einn starfsmaður sem annast þessi mál hér á hinu háa Alþingi ásamt fleiri málefnum annarra alþjóðanefnda og ég hygg að það starf sé mestan part fólgið í því að taka við pappírum utan úr heimi og senda þá gagnrýnislaust til hv. þm. og panta fargjöld á næstu fundi. Þetta er óásættanlegt með öllu. Þetta mál og þessi umræða hér í dag er auðvitað öll mótuð af því að þingið er fullkomlega óviðbúið slíkum málum.
    Ég vil taka það fram, virðulegur forseti, að nú á ég sæti í nefndinni sem á að vinna að þessum málum og að sjálfsögðu mun ég starfa þar lýðræðislega. Þó að ég hafi ekki greitt þessum samningi atkvæði mitt mun ég auðvitað úr því sem komið er reyna að starfa þar og vera þar til nokkurs gagns. En ég held að það sé afar nauðsynlegt að við höfum tækifæri til þess að gera það af einhverju viti því að hér eru engin smámál í húfi. Og ég vil taka undir með hv. 9. þm. Reykn. að það er ekkert lítið í húfi að þetta verk sé unnið eins og Alþingi sæmir.
    Ég vil því biðja hæstv. forseta að fallast á það, ekki síst með tilliti til athugasemda sem komu m.a. frá hv. 2. þm. Suðurl. varðandi brtt. minni hlutans, að málið verði skoðað í hv. nefnd og það komi síðan til afgreiðslu hér til 2. umr. að nýju. Við munum að sjálfsögðu ekki hindra það að málið nái fram að ganga. En ég held að það sé afskaplega mikilvægt að fyrstu skrefin af þessu mikla samstarfi verði þannig að eitthvað sé á þá vinnu treystandi.