Hafnalög

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 13:35:57 (3933)

[13:35]
     Jóhann Ársælsson (um atkvæðagreiðslu) :
    Hæstv. forseti. Til þess að spara tíma við afgreiðslu málsins, þá vil ég koma hér á framfæri athugasemdum. Það hafa farið fram miklar umræður um þetta frv. og það er ágreiningur um það í nefndinni. Það hefur verið farið ítarlega yfir þessi ágreiningsefni hér í umræðum í þinginu þannig að ég sé ekki ástæðu til þess að tíunda einstök ágreiningsefni með því að gera athugasemdir við allar greinar sem við vildum hafa öðruvísi. Meiri hlutinn er búinn að leggja hér fram 26 brtt. við þetta frv. og það er búið að boða fleiri. Það er búið að boða að það verði farið í að vinna við þetta frv. aftur á milli 2. og 3. umr. og við vonumst til þess að eitthvað af því sem við höfum verið að gera athugasemdir við verði tekið þar til greina. Við leggjum til að þessu frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar og ef það verður fellt, þá ætla ég a.m.k. að greiða atkvæði gegn þeim greinum í frv. sem við munum flytja brtt. við við 3. umr. og sitja hjá við aðrar greinar. Ég tel að þetta frv. sé ekki það vel unnið að það sé rétt að afgreiða það frá þinginu með þeim hætti sem meiri hlutinn vill. Og ég vil bara segja það hér í upphafi að ef einstakar greinar frv. koma til atkvæða, þ.e. ef frv. verður ekki vísað til ríkisstjórnarinnar, þá mun ég greiða atkvæði gegn 2., 8., 11., 12. og 26. gr. frv. og síðan sitja hjá við sumar brtt. meiri hlutans en greiða atkvæði með öðrum og tel ekki ástæðu til þess að gera grein fyrir því frekar hér.