Eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:18:33 (3941)


[14:18]
     Gísli S. Einarsson :
    Frú forseti. Ég fagna þessu frv. Það er fyllsta ástæða til að setja lög um eftirlit með þessum vörum sem um getur í frv. Þetta segi ég fyrir það að reynt hefur verið að koma inn vörum til landsins sem ekki eru löglegar. Ég vil geta þess að það hefur aðeins verið einn aðili, einn maður sem hefur haft eftirlit með þessu og er vel að það sé breytt um. En ég velti fyrir mér ákvæðum í 3. gr. frv. þar sem fjallað er um skipun þriggja nefnda. Ég tel að ein nefnd ætti að nægja til að fjalla um þessa málaflokka.
    Ég vil svo ræða aðeins um þau gjöld sem lögð verða á umræddar vörur. Ég held að þau eigi að renna til þess að reka eða sjá um þetta eftirlit með vöruflokkunum en ekki til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð eða aðrar stofnanir landbúnaðarins eins og verið hefur. Það hafa verið lögð gjöld á þessar vörur sem hafa verið látin renna til annarra hluta heldur en eftirlits með þessum vörum.