Flutningur verkefna Vitastofnunar Íslands

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:37:56 (3944)


[14:37]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég held að það sé góðra gjalda vert hjá hv. flm. að flytja þetta frv. Það ýtir kannski við þessum málum. Það er ástæða til þess að skoða þau, en kannski þarf líka að skoða þau í samhengi við önnur mál eins og hv. 6. þm. Vestf. kom að hér áðan, þ.e. hvernig er hagkvæmast að skipa þessum stofnunum niður og hvort flytja megi verkefni milli þeirra. Það hlýtur þá að vekja upp spurninguna um hvort það sé þá hægt að leggja niður stofnunina, þ.e. Vita- og hafnamálastofnun. Ég held að út af fyrir sig geti Vitamálastofnun verið í höndunum á fleiri aðilum heldur en hér hafa verið nefndir. Það er kannski ekki neitt vandamál tæknilega. Vitamálastofnunin á ekkert frekar heima hjá Vita- og hafnamálastofnun eins og hún er núna í sinni mynd heldur en hún gæti átt heima þess vegna hjá Vegagerðinni. Það er ekki mikill munur á aðstöðunni til þess að veita þá þjónustu þó að Vita- og hafnamálastofnun yrði lögð niður í heilu lagi og flutt undir Vegagerðina sem er hugmynd sem á að skoða alvarlega. Ég ætla ekki að fara mjög náið út í það hér en það hafa ýmsir bent á það og það hefur oft komið upp í umræðum að starfsemi Vita- og hafnamálastofnunar, þ.e. Hafnamálastofnunarinnar sem slíkrar, sé mjög skyld þeirri starfsemi sem Vegagerðin rekur og það væri þess vegna ástæða til að skoða hvort það eigi ekki að leggja Vita- og hafnamálastofnunina niður. Ef það yrði gert þá yrði hins vegar að ákveða hvort Vitamálastofnunin fylgdi, en ég held að það geti verið ágætislausn á því máli sem er lagt til í þessu frv. hér.
    En það sem ég er að reyna að koma hér á framfæri er að ég sé ekki annað en að menn verði að skoða þetta í samhengi. Það hefur orðið mjög mikill samdráttur á starfsemi Hafnamálastofnunar á undanförnum árum og þó að hún sé nýlega búin að byggja yfir sig húsnæði og koma sér mjög vel fyrir, þá má það ekki verða að ástæðu fyrir því að hún sé rekin áfram, heldur verði það skoðað nákvæmlega hvort ekki

muni vera hagkvæmara að sameina hana annarri stofnun.
    Siglingamálastofnun hefur verið skoðuð sérstaklega í þessu sambandi og í það var sett nefnd sem ég veit ekki til að sé búin að skila af sér enn þá, en ég veit að sú nefnd hefur verið starfandi hér í vetur og út úr því hlýtur að koma fljótlega niðurstaða fyrir augu manna. Ég hef heyrt að það sé ekki algjör samstaða í þeirri nefnd um það hvað eigi eiginlega að gera í málinu. Mér þótti það miður þegar ég frétti að þessi nefnd ætti einungis að skoða þennan möguleika að sameina Siglingamálastofnun og Vita- og hafnamálastofnun, en hún ætti ekki að skoða þann möguleika sem ég nefndi áðan að sameina Vita- og hafnamálastofnun eða alla vega Hafnamálastofnun og Vegagerðina þannig að ég tel að það sé ekki búið að skoða þetta nægilega mikið enn þá. Ég tel að menn þurfi að velta þessum málum fyrir sér í samhengi, líka því sem hér er lagt til og gæti eins og ég sagði áðan ósköp vel orðið góð niðurstaða að lokum að flytja þá vita- og hafnamálin yfir til Landhelgisgæslunnar.
    Ég get ekki séð fyrir mér að það geti með neinum hætti þurft að vera dýrara heldur en það sem þetta kostar núna í höndunum á Vita- og hafnamálastofnun. Það hefur orðið miklu ódýrara núna með árunum að reka þessa vita. Ljósvitar eru komnir mjög víða. Það er verið að leggja niður störf vitavarða sem slíkra, þ.e. þeirra manna sem hafa þetta að aðalstarfi. Þetta er hlutastarf, eftirlit sem menn hafa með þessum vitum, og það þarf orðið bæði sjaldnar og minna að sinna þessum vitum heldur en áður þó að öryggið sé alveg jafngott.
    Ég sé engar vísbendingar um það að þetta þurfi að kosta meira þó að Landhelgisgæslan yfirtaki þennan rekstur og þess vegna finnst mér sjálfsagt að skoða það mál.