Flutningur verkefna Vitastofnunar Íslands

86. fundur
Miðvikudaginn 09. febrúar 1994, kl. 14:56:47 (3946)


[14:56]
     Guðjón Guðmundsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson nefndi í ræðu sinni störf nefndar sem hæstv. samgrh. skipaði til að kanna möguleika á samstarfi eða sameiningu Vita- og hafnamálastofnunar og Siglingamálastofnunar. Þar sem ég var formaður þessarar nefndar sem var skipuð 30. sept. og skilaði áliti til ráðherra um miðjan janúar, þá finnst mér rétt að greina lítillega frá störfum nefndarinnar. Í skipunarbréfi nefndarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta, að nefndin skuli kanna möguleika Vitastofnunar og Hafnamálastofnunar, hér nefnd Vita- og hafnamálastofnun, annars vegar og Siglingamálastofnunar ríkisins hins vegar á samnýtingu mannafla og aðstöðu eða sameiningu þessara stofnana í eina stofnun. Enn fremur hvort ná mætti fjárhagslegum sparnaði og/eða öðrum ávinningi með þessum aðgerðum eða á annan hátt með samvinnu þessara stofnana. Þá skyldi nefndin enn fremur kanna möguleika þess að flytja starfsemi annarra stofnana til þeirra stofnana sem hér hafa verið nefndar að einhverju eða öllu leyti. Loks skyldi nefndin leggja mat á það hagræði sem ná mætti með þeim breytingum sem lagðar yrðu til. Með mér í þessari nefnd sátu Benedikt Guðmundsson siglingamálastjóri, Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur, Hermann Guðjónsson vita- og hafnamálastjóri og Jón Birgir Jónsson verkfræðingur.
    Nefndin ákvað það á fyrstu fundum sínum að einbeita sér að könnun á ákveðnum þáttum en fara ekki út í nákvæmar útfærslur sem væru tímafrekar og ótímabærar þar til ákvörðun væri tekin um framhald málsins. Á vegum nefndarinnar var fyrst kannað starfssvið hvorrar stofnunar um sig og reyndar eru Vitastofnun og Hafnamálastofnun formlega tvær stofnanir en eru reyndar reknar sem ein.
    Nefndarmenn voru sammála um að það væri löngu tímabært að setja lög þar sem rekstur vita og hafna væri formlega felldur undir eina skrifstofu og einnig var aflað gagna um hvernig þessum málum væri háttað annars staðar á Norðurlöndum eins og fyrr er að vikið. Nefndin fékk í hendur þau lög sem gilda um stofnanir og nokkrar reglugerðir.
    Starfsmannamál stofnananna og fjármál voru skoðuð af sérstökum hópum sem nefndarmenn sátu í ásamt starfsmönnum stofnananna og m.a. var rekstur og fjármál stofnananna skoðuð af fimm manna hópi sem m.a. voru í fjármálastjórar eða gjaldkerar beggja stofnananna. Sá hópur fór í gegnum rekstur stofnananna beggja fyrir árin 1990--1992 og setti fram hugmyndir um hvar mætti spara. Samkvæmt niðurstöðum þessa starfshóps var talið líklegt að sparnaður á hverju ári yrði um 45 millj. á fyrsta ári eftir sameiningu ef miðað er við árið 1992. Um helmingi þessa sparnaðar mætti ná fram án þess að sameina stofnanirnar, en líklegt er að þegar ein stofnun hefur tekið við af tveimur, þá verði hægt að draga enn saman í kostnaði, m.a. með fækkun í mannahaldi og minni húsnæðiskostnaði. Sá viðbótarsparnaður gæti numið um 3 millj. kr. á ári næstu árin og fimm árum eftir þessa sameiningu gæti heildarsparnaður verið orðinn allt að 60 millj. á ári. Kostnaður við flutning á stofnunum ef Siglingamálastofnun flytti í húsnæði Vita- og hafnamálastofnunar var áætlaður um 40 millj. kr.
    Þetta var í stórum dráttum niðurstaða þessarar nefndar hvað varðaði fjárhagslegt hagræði af þessari hugsanlegu sameiningu og/eða samvinnu. En ég vil ítreka það sem ég sagði hér í upphafi að þessi nefnd hafði mjög afmarkað verksvið og var ekki ætlað að gera tillögur um aðrar sameiningar eða tilfærslur á ríkisstofnunum.