Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 10:41:53 (3949)


[10:41]
     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um hvalveiðar. Flutningsmaður ásamt mér er hv. 1. þm. Vestf., Matthías Bjarnason. Tillagan sem er á þskj. 119 er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera ráðstafanir til að hvalveiðar geti hafist næsta sumar á grundvelli rannsókna Hafrannsóknastofnunar á stærðum og veiðiþoli hvalastofna.``
    Tillaga þessi var flutt á síðasta þingi og er nú endurflutt. Sjútvn. Alþingis sendi tillöguna til umsagnar 20 aðila og fékk 16 svör sem eru birt hér með þeirri grg. sem fylgir tillögunni.
    Tillagan hlaut ekki afgreiðslu hér á Alþingi vegna anna á síðustu dögum þingsins í vor.
    Frá því að þessi tillaga var til umræðu hér á Alþingi í mars á síðasta ári hefur ýmislegt skeð sem verður að teljast jákvætt innlegg í baráttu okkar fyrir því að Íslendingar hefji hvalveiðar að nýju.
    Í fyrsta lagi hófu Norðmenn hrefnuveiðar að nýju sl. sumar. Andstæðingar hvalveiða hófu mikla áróðursherferð gegn Norðmönnum og skoruðu á almenning víða um heim að kaupa ekki norskrar vörur og Bandaríkjastjórn hótaði að beita Norðmenn viðskiptaþvingunum. Hvorugt gekk eftir. Norðmenn telja að veiðarnar hafi ekki skaðað viðskiptahagsmuni þeirra svo neinu nemi og í nýjasta hefti Evrópufrétta, janúarheftinu, sem gefið er út af samtökum iðnaðarins og Vinnuveitendasambandi Íslands, er forsíðufrétt undir fyrirsögninni ,,Aðgerðir gegn norskum hvalveiðum árangurslausar``. Þar segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Norskir útflytjendur telja sig í engu hafa skaðast vegna áróðurs og aðgerða til að koma í veg fyrir að fólk kaupi norskar vörur, m.a. í Bandaríkjunum, innan Evrópusambandsins og í Ástralíu. Aðgerðirnar sem einkum voru á vegum samtaka Grænfriðunga beindust annars vegar að norskum útflutningi og hins vegar að ferðalögum til Noregs. Að sögn norskra embættismanna var árið 1993 besta ár norsks útflutnings til þessa og 8% aukning verður á ferðamannastraumnum til Noregs frá árinu á undan.
    Eftirspurn eftir norsku ákavíti sem sértaklega var tekið fyrir af andstæðingum hvalveiða var slík erlendis að heimamenn urðu að sætta sig við magntakmarkanir.

    Það var samdóma álit norskra embættismanna sem stóðu að kynningarfundi um norska hvalveiðihagsmuni í Brussel að upplýsingaherferð norskra stjórnvalda á síðasta ári væri að skila umtalsverðum árangri.``
    Í október féll Bandaríkjaforseti frá því að beita Norðmenn viðskiptaþvingunum vegna hrefnuveiðanna og í yfirlýsingu forsetans kemur fram að Bandaríkin styðji dyggilega lausnir á friðunarmálum sem byggðar eru á vísindalegum grunni um allan heim.
    Þarna er um að ræða verulega afstöðubreytingu hjá Bandaríkjastjórn enda mótmæltu Grænfriðungar í Washington þessari ákvörðun harðlega og sögðu afstöðu forsetans mundu rjúfa samstöðu Alþjóðahvalveiðiráðsins um allsherjarbann við hvalveiðum.
    Í öðru lagi skoruðu samtök þingmanna beggja flokka í Bandaríkjaþingi nýlega á Clinton forseta að fallast á hvalveiðar sem samrýmast vísindalegum athugunum á ástandi hvalastofna. Samtökin telja eðlilegt að nýta hvers konar dýrategundir til fæðu. Í þessum samtökum eru tæplega 200 af 535 þingmönnum í báðum deildum Bandaríkjaþings, rúmlega 100 repúblikanar og tæplega 90 demókratar.
    Í sumar mótmæltu þessi samtök því við viðskiptaráðherra Bandaríkjanna að Bandaríkin skyldu falla frá þeirri reglu á fundi Alþjóðahvalveiðiráðsins að nýting dýra til fæðu skuli grundvallast á vísindalegum niðurstöðum. Þetta sé hin almenna stefna Bandaríkjanna í umhverfismálum en ekki innan Alþjóðahvalveiðiráðsins.
    Samtökin telja rangt af Bandaríkjunum að standa gegn nýtingu hrefnukjöts til fæðu þegar sannað þykir að hrefnustofnar þoli veiðar.
    Talsmaður samtakanna segir að ályktun um hvalveiðar sem Bandaríkjaþing samþykkti einróma í febrúar á síðasta ári hafi byggst á röngum upplýsingum. Hefði þinginu verið kunnugt um álit vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins þá hefði ályktuninni verið breytt. Hann segir að þegar forustumenn þingmannasamtakanna rituðu viðskrh. bréf hefði það komið alveg flatt upp á menn því þetta sé í fyrsta sinn sem nokkur þinghópur hafi uppi önnur sjónarmið en þeir sem krefjast algjörs hvalveiðibanns.
    Það er skoðun þessara samtaka 200 bandarískra þingmanna að Bandaríkin eigi ekki að leggjast gegn hvalveiðum sem einhverju öðru ríki þykja réttmætar byggt á vísindalegum niðurstöðum.
    Þessi viðhorfsbreyting í Bandaríkjaþingi er tvímælalaust mjög jákvæð. Í Bandaríkjunum hefur andstaðan gegn hvalveiðum verið hvað mest enda lýðskrumarar óvíða háværari.
    Í þriðja lagi samþykkti 44. þing Evrópuráðsins sem haldið var um mánaðamót september/október sl. ályktun þar sem m.a. kemur fram að þingið er þeirrar skoðunar að sjálfbærar aðferðir til stjórnunar á fjölþættri nýtingu auðlinda hafsins, þar á meðal sjávarspendýra, skuli byggjast á nákvæmri þekkingu og skilningi á viðkomandi sjávarvistkerfum.
    Þá hvetur þingið ríkisstjórnir aðildarríkja Evrópuráðsins, aðrar ríkisstjórnir sem málið varðar svo og Evrópubandalagið til þess að þróa og/eða bæta alþjóðleg og svæðisbundin lagakerfi til verndunar og sjálfbærrar stjórnunar á öllum tegundum sjávarspendýra, þar á meðal hvala, og til þess að gera þá kröfu að þjóðir, sem gefa út leyfi til veiða á sjávarspendýrum, tryggi jafnframt að veiðiaðferðir fullnægi kröfum um mannúðlegar drápsaðferðir eða fari eins nálægt því og unnt er og benda á að rannsókna- og þróunarstarfsemi ætti að auðvelda að þetta markmið náist.
    Það sem ég hef hér nefnt bendir til þess að veruleg viðhorfsbreyting sé að verða til hvalveiða, bæði í Bandaríkjunum og í Evrópu, og að þeir glórulausu fordómar sem ríkt hafa til þessara mála séu á undanhaldi. Þessari viðhorfsbreytingu þarf að fylgja eftir með öflugu kynningarstarfi. Þar þurfa þjóðirnar sem standa að Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðinu að hafa samvinnu og eyða þeim misskilningi að verið sé að útrýma hvalastofnum og ekki síst þurfum við Íslendingar að hamra á því að við höfum verið í fararbroddi hvað varðar rannsóknir og skynsamlega nýtingu hvalastofna.
    Það er viðurkennd staðreynd að meðan Íslendingar stunduðu hvalveiðar var ávallt farið að ákvörðunum Alþjóðahvalveiðiráðsins um takmörkun veiða og verndun friðaðra hvalategunda. Auk þess var stuðst við ýmsar reglur um veiðarnar sem Íslendingum var gert að fylgja svo sem um lágmarksstærð veiddra dýra og friðun mjólkandi hvalkúa.
    Síðasta áratuginn sem veiðarnar voru stundaðar í atvinnuskyni var fulltrúi Alþjóðahvalveiðiráðsins til eftirlits meðan á veiðunum stóð til að tryggja að farið væri að settum reglum, en þessu eftirliti var komið á með samkomulagi við norsk, kanadísk og spönsk stjórnvöld.
    Þá hefur Hafrannsóknastofnun um langt árabil stundað umfangsmiklar hvalarannsóknir sem beindust einkum að því, meðan hvalveiðar voru stundaðar, að auka þekkingu á ástandi og veiðiþoli þeirra hvalastofna sem nýttir voru hér við land og áhrifum veiðanna á þá. Þessar rannsóknir voru m.a. unnar í samstarfi við erlenda rannsóknaraðila. Gerðar voru ítarlegar, líffræðilegar athuganir á öllum lönduðum stórhvölum, framkvæmdar nákvæmar úttektir á sambandi afla og sóknar í hvalveiðunum og framkvæmdar umfangsmiklar hvalmerkingar og talningar.
    Árið 1980 skuldbundu íslensk stjórnvöld sig til að taka á móti og útvega viðurkenndum erlendum vísindamönnum aðstöðu til rannsókna á ýmsum þáttum líffræði stórhvala sem þeir höfðu sérþekkingu á. Með þessari samþykkt og framkvæmd hennar næstu árin skapaðist vísir að rannsóknamiðstöð hér á landi sem gaf vísindamönnum víða að úr heiminum tækifæri til að stunda athuganir sem óvíða hefði verið unnt að framkvæma og komu yfir 20 erlendir aðilar hingað í þessum tilgangi á árunum 1980 til 1984 og stunduðu rannsóknir sem ýmist höfðu beinan hagnýtan tilgang eða snerust um almenna þekkingu á líffræði hvala.
    Samfara ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins um tímabundna stöðvun hvalveiða í atvinnuskyni var ákveðið að efna til heildarúttektar á ástandi hvalastofna heims sem ljúka átti árið 1990. Í samræmi við þetta ákváðu íslensk stjórnvöld að efna til hvalveiða í vísindaskyni á árinu 1986--1989, samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar um víðtækar hvalarannsóknir. Rannsóknir þessar miðuðust við að efla þekkingu á ástandi og veiðiþoli hvalastofna við Ísland og kanna þátt stórra og smárra hvala í lífkerfi hafsvæðisins hér við land. Þær fólust m.a. í skipulegri talningu hvala árin 1986, 1987 og 1989. Samstarf var við aðrar þjóðir við Norður-Atlantshaf í tveimur stórum leiðöngrum sem tóku til hafsvæðisins frá Vestur-Grænlandi að ströndum Noregs og frá Svalbarða að ströndum Spánar þar sem mest voru fimmtán skip og tvær flugvélar samtímis við talningu. Af hálfu Íslands tóku þrjú skip og ein flugvél þátt í verkinu sumarið 1987 og fjögur skip sumarið 1989.
    Við talninguna fengust miklar upplýsingar um útbreiðslu hvala og stærð hvalastofna á rannsóknasvæðinu, ekki síst hvað viðkemur hvalastofnum sem nýttir hafa verið hér við land á undanförnum áratugum. Þessar rannsóknir leiddu m.a. í ljós eftirfarandi niðurstöður:
    Um 28.000 hrefnur voru á Mið-Atlantshafssvæðinu, þar af tæpur helmingur á íslenska strandsvæðinu.
    15.600 langreyðar voru á hafsvæðinu Austur-Grænland --- Ísland --- Jan Mayen, þar af um 8.900 langreyðar á svæðinu milli Austur-Grænlands og Íslands, norðar 50°N.
    10.800 sandreyðar voru á leitarsvæði íslensku skipanna.
    Tæplega 2.000 hnúfubakar voru á íslenska hafsvæðinu.
    Vegna sérstakrar köfunarhegðunar búrhvals liggja ekki fyrir áreiðanlegir útreikningar á fjölda dýra. Eftir talningar 1987 og 1989 telja sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar vafalítið að búrhvalir skipti nokkrum þúsundum á íslenska talningarsvæðinu.
    Af þessari upptalningu má sjá að mikil hvalamergð er í hafinu við Ísland og hefur þeim vafalaust fjölgað talsvert á þeim 4--7 árum sem liðin eru síðan talningin var gerð, en talið er að þeim fjölgi um 5--10% á ári, misjafnt eftir tegundum.
    Af samtölum við sjómenn virðist augljóst að hvölum hefur fjölgað mjög við landið á undanförnum árum. Hafa þeir m.a. truflað loðnuveiðiskipin með ágengni sinni. Árni Bjarnason útgerðartæknir, sem starfar sem 1. stýrimaður og afleysningaskipstjóri á togaranum Akureyrinni, ritaði grein um sjávarútvegsmál í Morgunblaðið 4. ágúst sl. Þar segir undir millifyrirsögninni, Mál málanna, með leyfi forseta:
    ,,Aldrei á mínum sjómannsferli hef ég séð önnur eins býsn af hval og í ár. Djúpslóðin út af Vestfjörðum er undirlögð og einnig eru smáhvalavöður um allan sjó. Sé það rétt, sem mér er tjáð, að búrhvalur eti 3 tonn af grálúðu og karfa á dag þá tekur hann til sinna þarfa meira magn en flotanum er úthlutað af grálúðu. Málið er einfalt. Ef við Íslendingar drepum ekki hval þá drepur hvalurinn okkur.`` Svo mörg voru þau orð. Svipuð sjónarmið og þarna birtast hef ég heyrt hjá mörgum sjómönnum á undanförnum mánuðum.
    Ótakmörkuð fjölgun hvala raskar lífkerfi hafsins. Vísindamenn telja að hvalirnir við Íslandsstrendur eti árlega a.m.k. svipað magn af fiski og við Íslendingar veiðum. Áætlað hefur verið að afrán hvala sé um fjórar millj. tonna á ári. Helmingur af því er áta, 1 / 4 smokkfiskur og 1 / 4 eða milljón tonn aðrar fisktegundir. Þetta magn eykst svo ár frá ári eftir því sem hvölunum fjölgar. Það er því óhjákvæmilegt fyrir okkur að hefja hvalveiðar að nýju ef ekki á illa að fara.
    Ég ætla ekki að tíunda í þessari ræðu mikilvægi hvalveiða fyrir okkur Íslendinga hvað varðar verðmæti og atvinnu, en vísa þar til þess sem fram kom í ræðu minni er ég mælti fyrir þessari tillögu á síðasta þingi. Þar gat ég einnig um samþykktir Alþjóðahvalveiðiráðsins, hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna og ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun en í öllum þessum samþykktum er gert ráð fyrir nýtingu hvalastofna.
    Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég tel þetta mál, hvalveiðarnar, nokkurn prófstein á sjálfstæði okkar Íslendinga. Ætlum við eða ætlum við ekki að láta undan hótunum háværra öfgahópa og lýðskrumara? Ég minni á að þegar við færðum út fiskveiðilögsöguna vorum við beittir viðskiptaþvingunum og ýmiss konar hótunum. Hefðu þeir sem þá stjórnuðu hopað er óvíst að fiskveiðilögsaga okkar hefði verið færð út í 200 sjómílur. Íslendingar brutu þessar þvinganir á bak aftur með einurð og festu og öðluðust með því viðurkenningu annarra þjóða á óskoruðum rétti okkar yfir fiskveiðilögsögunni.
    Eins og ég gat um í upphafi máls míns var þessi tillaga flutt á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu í því tímahraki sem var í þinglokin síðasta vor. Ég lýsti því þá yfir og við flm. að tillagan yrði flutt aftur þegar þing kæmi saman í haust. Það dróst hins vegar í tvær, þrjár vikur vegna öflunar viðbótargagna í greinargerð en á þeim tíma skipaði hæstv. sjútvrh. nefnd, skipaða fulltrúum allra þingflokka, til að gera tillögur um stefnu Íslendinga í hvalamálum og hvort hvalveiðar skuli hafnar að nýju og þá með hvaða hætti.
    Í þeirri nefnd eigum við flutningsmenn þessarar tillögu báðir sæti. Vonandi nær sú nefnd samstöðu um meðferð málsins það fljótt að það takist að afgreiða það á þessu þingi og þá fellur þessi tillaga okkar einfaldlega inn í þá vinnu. Okkur fannst samt rétt að endurflytja tillöguna til að tryggt sé að Alþingi taki afstöðu til hvalveiða á þessu þingi. Það hefur Alþingi ekki gert síðan í febrúar 1983 þegar samþykkt var með eins atkvæðis mun hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins eða að mótmæla því ekki réttara sagt. Okkur finnst því tímabært að fá fram vilja Alþingis í þessu máli og gildir þá einu hvort greidd verða atkvæði um þessa tillögu okkar eða væntanlega niðurstöðu nefndar hæstv. sjútvrh.
    Hæstv. forseti. Ég legg til að þessari tillögu verði að lokinni fyrri umræðu vísað til síðari umræðu og sjútvn.