Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:26:36 (3958)


[11:26]
     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Mér var það auðvitað ljóst að þeim hv. þm. sem standa hér að þessum tillöguflutningi og hafa hér uppi ræður í þessu samhengi yrði ekkert kennt í þessum efnum af minni hálfu. Ég gerði mér satt að segja engar vonir um það. Ég hafði hins vegar von um það að hv. flutningsmenn þessarar tillögu létu það nægja að hafa sýnt hana hér í þinginu án þess að vera að gera kröfu til þess að hún færi hér í sérstaka umræðu. Hér eru menn að vitna til umræðu sem fór fram um sömu tillögu á fyrra þingi og þar liggja þá þau sjónarmið fyrir sem varða þetta mál.
    En halda menn að það sé ekki alvörumál þegar verið er að viðra hér grundvallarágreining milli þingmanna í stjórnarliði, þess flokks sem ber ábyrgð á málaflokknum og kasta því út um víðan völl? Því að á þessa umræðu verður ekki eingöngu hlýtt hér í sölum Alþingis. Hún berst að sjálfsögðu til allra þeirra sem áhuga hafa á þessu máli, bæði með og móti sjónarmiðum um hvalveiðar, hvort þær beri að hefja. En hið stóralvarlega í málinu er sá ágreiningur sem uppi er hafður innan ríkisstjórnar Íslands af ráðherrum í ríkisstjórninni, sem eru að kasta fram lögfræðilegum álitsgerðum sem ganga þvert hver á aðra í grundvallaratriðum varðandi málið. Það er þetta sem ég gagnrýni, það er við þessu sem ég vara og ég hlýt að endurtaka það að ég bið menn um að horfa svolítið fram fyrir sig þegar verið er að kasta fram málum af þessu tagi hér á Alþingi, ef menn kjósa að reyna að stilla saman strengi í þeim efnum.