Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:28:41 (3959)


[11:28]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Brýningar hv. 4. þm. Austurl. í þessu máli eru fullkomlega óþarfar vegna þess að ef hann fer yfir þá umræðu sem hér átti sér stað áðan, fer yfir ræðu mína og hv. 3. þm. Reykv., þá kemur það auðvitað í ljós að okkar afstaða í þessum efnum fer í öllum meginatriðum saman. Hv. 3. þm. Reykv. sagði að það kæmi til álita, ef ég man það orðrétt, að við skoðuðum það að fara inn í Alþjóðahvalveiðiráðið. Hvað sagði ég? ( HG: Hvað sagði hann um NAMMCO?) Ég þarf ekkert að rekja það sem hv. 3. þm. Reykv. sagði um NAMMCO vegna þess að hér erum við í andsvörum vegna minnar ræðu en ekki vegna ræðu hv. 3. þm. Reykv. og ég kom ekkert inn á málefni NAMMCO. Ég vil hins vegar árétta að það sem ég sagði varðandi Alþjóðahvalveiðiráðið var að meðan þar væri uppi sá málatilbúnaður sem þar hefur ríkt og ríkir enn, þá væri ekki ástæða fyrir okkur til að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið. Ef þau viðhorf breyttust þá taldi ég líkt og hv. 3. þm. Reykv. að það gæti komið til álita að ganga inn í Alþjóðahvalveiðiráðið að nýju. Ég var í ræðu minni aðeins að rifja upp ákvarðanir sem ríkisstjórn Íslands tók í framhaldi af nefndaráliti sem ég stóð að á sínum tíma. Og það hefði varla átt að koma mikið á óvart, hvorki hv. 4. þm. Austurl. né öðrum sem á mitt mál hefðu hlýtt, að ég væri sammála því sem ég í raun lagði til fyrir um tveimur árum síðan. Þau mál hafa ekki breyst með þeim hætti að það hafi verið ástæða til að mínu mati að endurskoða þetta. En ég útiloka ekki að mál geti þróast með þeim hætti innan Alþjóðahvalveiðiráðsins og sem betur fer eru vísbendingar sem benda raunar aðeins í þá átt, að það geti verið ástæða fyrir okkur að endurskoða afstöðu okkar frá því fyrir tveimur árum, en í dag sé ég ekki að það sé tímabært að sinni.