Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:30:57 (3960)

[11:30]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil fagna þessari tillögu sem nú er flutt og flytja flm. bestu þakkir fyrir að flytja hana og þá ekki síður seinni flm., Matthíasi Bjarnasyni, því að svo háttar nú til að hv. þm. Matthías Bjarnason er sá af okkur sem einna mesta þekkingu hefur á hafréttarmálunum í heild sinni vegna veikinda Hans G. Andersens sem við vitum að við höfum ekki til ráðslags með okkur nú.
    Það er ekkert óeðlilegt að mönnum hitni í hamsi yfir þessu máli og ég skal ekkert að vera að gagnrýna hv. þm. Hjörleif Guttormsson þess vegna. Við getum alveg gagnrýnt hver annan en við hljótum að lokum að vera sameinaðir í þessu máli eins og við höfum borið gæfu til lengst af að vera í sambandi við hafréttarmál þó að stundum hafi verið tekin víxlspor.
    Sannleikurinn er sá að Íslendingar eru forustuþjóð í landhelgismálum. Við höfum haft forustuna

í veröldinni og margir vísað til starfa á hafréttarráðstefnunni alls staðar að úr heiminum og við sem vorum svo gæfusamir að fá að vera á þessari merku ráðstefnu vorum í stöðugum viðræðum við menn víða að úr heiminum þar sem þeir voru að leita upplýsinga frá okkur fyrst og fremst og samræma sjónarmiðin. Þetta er einn glæsilegasti þáttur í okkar sögu að við skyldum bera gæfu til að vinna að þessum mikla árangri.
    Því miður er það nú ekki svo að Íslendingar hafi á seinni árum verið sérstaklega borubrattir eða bardagafúsir því að það er langt í land að við séum búnir að heimta þau réttindi sem við eigum, t.d. á Reykjaneshrygg samkvæmt ákvæði sem við og Rússar sömdum um á sínum tíma um 350 mílur á Reykjaneshrygg, samkvæmt þeim reglum eigum við Reykjaneshrygginn 350 mílur út. Engu að síður hafa stórir flotar, ekki síst frá Austur-Evrópuríkjunum, jafnvel upp í hundruð skipa, verið að veiðum á þessu svæði okkar og ekkert er eiginlega aðhafst af hálfu Íslendinga í því efni. Þar er verk að vinna. Við eigum líka fiskveiðiréttindi á Hatton-Rockall svæðinu og langt norður í höf, allt saman að réttum reglum.
    Svo ógæfusamlega hefur viljað til að Íslendingar hafa í utanríkismálum á allmörgum síðustu árum verið eilíflega að tala um þetta blessaða Evrópubandalag rétt eins og það muni bjarga okkur, það hafi vilja til þess að bjarga okkur og það muni gera okkur eitthvert gagn, ríki sem hefur verið með stórfellt atvinnuleysi og vandamál sem þeir ættu að hugsa um og lofa okkur að hugsa um okkar vandamál. Við þurfum þar fyrir utan auðvitað að styrkja betur alla innviði og samvinnu við þá sem okkur eru sammála.
    Um þetta sérstaka mál sýnist mér við að hlusta á það sem hér var lesið upp, að þar sé sú greinargerð á ferðinni sem markverðust er. Það er hnitmiðað hvert orð þar. Hver samdi þetta plagg veit ég ekki og kemur það ekkert við. Það gerir sitt gagn. Það á að verða til þess að sameina okkur og reyna að fá okkur líka til að sameinast um það að gæta annarra réttinda. Ég endurtek að ég mun ekki erfa það við nokkurn mann þó að hann gagnrýni eitthvað sem ég segi í hafréttarmálunum þó að ég reyni auðvitað að fara sem skemmst í því að vekja athygli annarra á því sem hættulegt kann að reynast. Við skulum á þessum fundi sameinast um það að vera ekki að rífast um eitt eða neitt en gera okkur grein fyrir því að við eigum stórkostleg réttindi óheimt, allan Reykjaneshrygginn, Hatton-Rockall svæðið, norðurslóðir, allt saman er margsinnis ályktað um, m.a. í tillögum sem ég og margir aðrir, þar á meðal hv. þm. Matthías Bjarnason, hafa flutt á liðnum árum, en allt hefur drukknað í þessu Evrópu . . .  --- nú var ég nærri búinn að segja ljótt --- tali, skulum við segja, öllu þessu Evróputali sem ekkert gott hefur leitt af né mun leiða af.