Hvalveiðar

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 11:36:55 (3961)


[11:36]
     Guðmundur Hallvarðsson :
    Virðulegi forseti. Hér hafa ræðumenn talað og deilt mjög um þau vinnubrögð sem við eru höfð varðandi þetta mikilvæga mál okkar Íslendinga og þá kannski frekar þvargað meira um form en efni. Það er hverjum Íslendingi mjög ljóst að nauðsynlegt er að við förum að hefja hvalveiðar hið fyrsta og því veit ég það að fólkið í landinu bíður eftir því hvað hið háa Alþingi ætlar að gera, hvað þingmenn ætla að gera í þessu máli og hvenær afstaða til þessara hluta verður tekin, jákvæð eða neikvæð, og ég þykist þess fullviss að meiri hluti þjóðarinnar væntir þess að jákvætt verði á þessum málum tekið þannig að hvalveiðar verði hafnar sem allra fyrst.
    Ég vil, með leyfi forseta, aðeins benda á umsögn Íslenskra sjávarafurða varðandi þetta mál. Það segir hér í niðurlagi þeirrar umsagnar:
    ,,Það er ljóst að miðað við ríkjandi viðhorf í heiminum getur farið svo að ef Íslendingar hefja hvalveiðar að nýju verði reynt koma höggi á þá og skaða efnahagslega. Það hlýtur að verða eitt meginverkefni íslenskra stjórnmála að koma í veg fyrir að svo verði. Höfuðverkefnið hlýtur að verða að sýna öðrum þjóðum fram á hvað muni gerast ef ekki verður fundið og viðhaldið jafnvægi í náttúrunni, hvað muni gerast ef sofið er á verðinum og einhverjir verði látnir komast upp með að raska jafnvægi náttúrunnar í nafni umhverfisverndar. Það hlýtur að verða að fletta ofan af falsspámönnum í umhverfismálum og sýna jafnframt fram á hvað sé raunveruleg umhverfisvernd og gerast boðendur hennar og baráttumenn. Það þolir varla nokkra bið.``
    Þetta er rétt að orði kveðið hér. Því er það hryggilegt að það skuli vera einn Íslendingar sem hefur unnið ötullega gegn þessum öfgamönnum sem Greenpeace kalla sig án nokkurs stuðnings íslenskra stjórnvalda. Hann hefur komið mörgu því á framfæri sem öðrum mönnum og öðrum þjóðum og öðrum hópum hefur verið hulið. Hann hefur sýnt fram á það að þetta er fjárplógsstarfsemi af hinni verstu tegund og allt í nafni umhverfisverndar. Og svo þurfa Íslendingar að standa hálfskjálfandi frammi fyrir þessum öfgahópum og segja: Við þurfum að skoða málið. Við þorum ekki og við þurfum að athuga okkar gang. Ég tel að mál séu svo komin nú að það þurfi að hraða ákvörðunartöku um það hvenær og hvort við ætlum að taka á honum stóra okkar og hefja hvalveiðar. Það er full ástæða til að láta nú verkin tala og ljúka þessu máli hið allra fyrsta, vera ekki að þvarga á hinu háa Alþingi um markmið eða leiðir, vera að þvarga hér meira um form en efni, hvort hér hafi verið lögð fram till. til þál. um hvalveiðar á sama tíma og skipuð hefur verið sérstök nefnd til að skoða hlutina. Það má auðvitað deila um það í sjálfu sér. En mér finnst samt sem áður að við megum ekki flækjast í því máli hvernig formið er heldur eigum við að hefja verkið.
    Maður hefði haldið það að sölusamtökin sem hafa nú verið í nánum tengslum við ýmsa söluaðila erlendis væru mjög neikvæð gagnvart hvalveiðunum. En ég vitnaði hér áðan til umsagnar Íslenskra sjávarfurða hf. og þar mátti heyra að það er annað hljóð í mönnum þar. Þeir skilja mikilvægi þessa máls og þeir eru tilbúnir til að takast á við þessa öfgahópa með sjávarútveginum og með okkur Íslendingum allflestum til þess að við getum farið að hefja hvalveiðar á ný og, með leyfi forseta, langar mig til að vitna hér í niðurlag umsagnar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna:
    ,,Stjórn Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna er sér fyllilega meðvituð um efnahagsleg og vistfræðileg rök fyrir því að hvalveiðar verði hafnar að nýju. En þegar höfð er í huga sú mikla andstaða sem Norðmenn hafa sætt á alþjóðavettvangi vegna fyrirhugaðra hrefnuveiða auk beinna viðskiptaþvingana er ekki óeðlilegt að sporin hræði. Íslendingar eru háðari útflutningi sjávarafurða en flestar aðrar þjóðir og því mjög auðvelt skotmark hvalfriðunarsamtaka. Stjórn SH leggur því mikla áherslu á að vegna mikilla viðskiptahagsmuna sem í húfi eru verði gætt fyllstu varúðar í þessu viðkvæma máli.``
    Og það er rétt. Við höfum verið með mikla varúð nú í nokkur ár og kannski heldur um of. Þess vegna finnst mér, virðulegi forseti, að það sé kannski tímasóun að vera að þvarga hér í sölum Alþingis um þetta mál heldur væri eðlilegt að þessu máli verði vísað til þeirra aðila sem hafa verið skipaðir í sérstaka nefnd til að skoða þennan málaflokk, og að sjálfsögðu einnig til sjútvn. og menn snúi nú bökum saman hvar í flokki sem þeir standa til þess að vinna að framgangi þessara mála.
    Um umsagnir annarra aðila sem kemur hér fram í þessari þáltill. þeirra þingmanna Guðjóns Guðmundssonar og Matthíasar Bjarnasonar þarf ekki að hafa mörg orð vegna þess að þau eru öll á einn veg --- jákvæð. Tel ég að það sé sjálfsagt og eðlilegt að við hefjum hvalveiðar svo fljótt sem verða má.