Skjaldarmerki lýðveldisins

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:03:58 (3966)


[12:03]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það er athyglisverð tillaga sem hér er á ferð og ekki seinna vænna að við ræðum tillögur um það hvernig Alþingi skuli bregðast við vegna 50 ára lýðveldisafmælisins og hér er auðvitað eitt af því sem kemur til greina.
    Ég vil sérstaklega fagna því að flm. tillögunnar tók fram að það væri ekki meining hans að láta taka niður skjaldarmerki Kristjáns níunda. Ef svo hefði verið þá hefði ég farið upp til mikilla andmæla. Ég hef verið þeirrar skoðunar og það er ekki fyrst og fremst húsfriðunarsjónarmið sem liggja að baki þeirri skoðun minni að það eigi ekki að hrófla við kórónunni og skjaldarmerkinu, heldur fyrst og fremst vegna þess að hér í höfuðstað hins íslenska lýðveldis er ákaflega fátt sem minnir okkur á okkar sögu og það að við vorum hluti af danska konungsríkinu. Merkið á þinghúsinu og kórónan, er eitt af fáu sem minnir okkur á það. Við eigum að þekkja okkar sögu, við eigum að vita hver við erum og hvaðan við komum, fyrir hverju forfeður okkar voru að berjast í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga en því miður hefur Reykjavíkurborg orðið fyrir miklum skaða á undanförnum áratugum, það hafa verið rifin hús í stórum stíl sem tengja okkur við fortíðina og því má ekki ganga lengra í því að hrófla við því sem við eigum.
    Ég hafði það sem reglu sem sögukennari að senda nemendur mína út í bæ og biðja þá að finna eitt og annað sem minnti okkur á söguna og það hver við erum og hvaðan við kæmum, eins og ég nefndi áðan. Þeim gekk það misjafnlega, en Alþingishúsið var þó einn af þeim stöðum sem þeir rákust á og gátu séð að var eitthvað gamalt og eitthvað sem tengdist öðrum tíma.
    Ef ég vík að tillögunni sjálfri sem er auðvitað meginmálið hérna þá eru auðvitað ýmsir möguleikar fyrir hendi en þó verður að segjast að það er náttúrlega búið að þrengja það mikið að Alþingishúsinu í skipulagi að ég sé ekki alveg fyrir mér hvar væri hægt að koma skjaldarmerkinu fyrir þannig að það njóti sín. Ég geri mér reyndar ekki grein fyrir hvað það er stórt og vildi gjarnan varpa þeirri spurningu til flm. hvað verið er að tala um stóran hlut. Er það þannig að það væri eðlilegt að setja það á einhvers konar ramma? Er hugsanlegt að nýta garðinn við húsið eða hvernig sér flm. fyrir sér að þessu verði við komið? Ég ímynda mér að þarna séum við að ræða um hlut sem gæti vakið athygli og dragi til sín ferðamenn, fólk komi að skoða skjaldarmerkið. En fyrst og fremst tek ég undir þann tilgang þessarar tillögu að minnast þess að við höfum verið lýðveldi í 50 ár og að við eigum af því tilefni að gera eitt og annað sem tengir okkur við þann atburð og eins og ég nefndi fyrr þá er þessi tillaga auðvitað eitt af því. En ég vildi gjarnan beina þessum spurningum til flm., ég hef ekki kynnt mér þetta mál, hann er kannski með myndir af skjaldarmerkinu, hann var að vitna í bækur en ég hreinlega geri mér ekki grein fyrir því hvað við erum að tala um mikla framkvæmd og hvað þarf að veita skjaldarmerkinu mikið rými.