Skjaldarmerki lýðveldisins

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 12:08:16 (3967)

[12:08]
     Flm. (Stefán Guðmundsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. 18. þm. Reykv. fyrir innlegg í þessa umræðu og met það mjög að hv. þm. skuli tala í þessu máli. Þetta er því miður eins og ég gat um búin að vera býsna löng barátta fyrir uppsetningu skjaldarmerkis og það sem ég kem lengst aftur í baráttu fyrir því að fá skjaldarmerkið sett upp við Alþingishúsið var gert af Pétri Ottesen. Þetta var mikið áhugamál hans á sínum tíma en það fór því miður fyrir honum eins og öðrum sem berjast fyrir góðum málum að það er erfitt að afla þeim fylgis og koma þeim fram í fyrstu.
    Ég gerði mér hins vegar grein fyrir því eftir að hafa skoðað þetta mál og rætt við marga og ég hlustaði ítarlega í umræðu um þetta mál þegar hv. þm. Árni Gunnarsson flutti það á sínum tíma að hér var

hið besta mál á ferðinni. Árni lagði þá hins vegar til að kórónan eða merki Kristjáns níunda yrði tekið niður af húsinu og skjaldarmerkið yrði sett upp í staðinn að það hafði ekki hljómgrunn og það var barist mjög hart gegn því á Alþingi og þess vegna tapaðist það mál.
    Ég ætla ekki að fara að tjá mig um hver mín skoðun er einmitt á því með merki Kristjáns níunda á húsinu, það er annað mál. Fyrir mér er það mikið mál að fá skjaldarmerkið sett upp á eða við Alþingishúsinu. Eins og ég segi í niðurlagsorðum greinargerðarinnar að hér er gerð tillaga um að hinu formfagra skjaldarmerki, tákni lýðveldisins Íslands, verði komið upp á eða við Alþingishúsið og tengt á þann hátt betur en nú þingi og þjóð.
    Það er fyrst og fremst vilji minn til þessa máls þannig að það megi flestum vera ljóst sem ganga hér um að þeir geri sér grein fyrir því að hér er þjóðþing Íslendinga að störfum. Ég hef ekki trú á því að sá kostnaður sé mikill sem af þessu mundi hljótast. Ég held að menn séu að tala um sáralitlar upphæðir í sjálfu sér.
    Ég trúi því líka að ekkert ætti að koma í veg fyrir það að menn fyndu og gætu sæst á það hvar merkið skyldi vera. Ég segi á eða við Alþingishúsið. Og ég veit að réttur húsafriðunar er mikill og fram hjá því verður ekki gengið að það þarf að leita umsagnar slíkra aðila. En einhvern veginn hefur mér fundist eftir að ég lagði þetta mál hér fram að þetta eigi góðan skilning manna og hér sé farið inn á vissa málamiðlunarleið í þessu máli frá því sem áður hefur verið. Því trúi ég því að menn geti fengið hér farsæla lausn. Ég fer fram á það við hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar að hún hafi samráð og samvinnu við forsætisnefnd þingsins sem ég tel eðlilegt að hafi með þessa framkvæmd að gera.
    Ég held að margir staðir komi til greina til að setja þetta merki upp á eða við húsið. Mér finnst einhvern veginn þurfa, þó ég sé ekki að kveða upp neinn úrskurð í því, þá finnst mér sjálfum persónulega að merkið þyrfti að vera við þá hlið hússins sem vísar að Austurvelli og að styttu Jóns Sigurðssonar. Ég á við forhlið hússins.
    En ég þakka hv. þm. fyrir að koma hér upp og taka undir þetta mál og vona svo sannarlega að þetta mál fái skjóta afgreiðslu vegna þess að það þarf ákveðin vinna að fara fram og mér fyndist vera mikill sómi að því fyrir forsætisnefnd að geta komið þessu merki upp þannig að við mættum afhjúpa það, ef svo mætti segja, 17. júní 1994.