Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 13:34:16 (3974)


[13:34]
     Flm. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Það mál sem hér er til umræðu, till. til þál. um flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum ríkisins í Reykjavík til sýslumannsembættanna, var fyrst á dagskrá fyrir jól og þá urðu um þetta mál mjög miklar umræður. Þá stóð þannig á að tillögur lágu fyrir í fjárlagafrv. um að fækka og sameina sýslumannsembætti á landsbyggðinni. Tilefni þess að þáltill. var flutt var m.a. til að koma til móts við þau sparnaðaráform sem fækkun sýslumannsembætta átti að ná fram samkvæmt fjárlagafrv. En það er skoðun flm. að það gæti horft til hagræðis og mikils sparnaðar í stjórnsýslunni að flytja verkefni frá stjórnsýslustofnunum í Reykjavík til sýslumannsembættanna sem starfa eins og umboðsmenn framkvæmdarvaldsins í héraði fyrir utan það, sem er kannski kjarni málsins og aðalatriðið, að um leið næðist það fram að færa hina opinberu þjónustu nær fólkinu en nú er.
    Niðurstaða allra þeirra umræðna sem átti sér stað fyrir jól, bæði um þessa till. til þál. og einnig um fjárlagafrv. á hinu háa Alþingi varð sú að það var horfið frá því að fækka sýslumannsembættum. Ég vil nota þetta tækifæri og þakka sérstaklega hæstv. dómsmrh. sem að síðustu hafði forgöngu um að svo skyldi verða.
    Það er alveg ljóst að þessi tillaga hefur lagt sitt af mörkum til þess að svo mætti verða vegna þess að einnig í kjölfarið á að þessi till. til þál. var lögð fram á hinu háa Alþingi, þá lýsti hæstv. dómsmrh. því yfir að hann mundi skipa slíka nefnd og hér er gerð tillaga um, og það gerði hann og ég veit ekki betur en að núna sé nefnd að störfum á vegum ráðuneytisins sem hafi það verkefni að athuga með flutning verkefna frá stjórnsýslustofnunum í Reykjavík til sýslumannsembættanna til þess að efla sýslumannsembættin og einnig til þess að ná fram hagræðingu og sparnaði í stjórnsýslunni og síðast en ekki síst að færa hina opinberu þjónustu nær fólkinu í landinu.
    Eigi að síður tel ég mjög brýnt og mikilvægt að hv. þingnefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar skoði það gaumgæfilega hvernig störfum hinnar stjórnskipuðu nefndar hæstv. dómsmrh. miðar og athugi það hvort þörf sé á að þingið eigi að koma þar að með því að leggja áherslu á mikilvægi þessa máls með afgreiðslu tillögu sem þessarar. Ég treysti hv. allshn. til þess að meta það og fjalla um málið af kostgæfni og komast að niðurstöðu sem þjónar þeim málstað sem þessi till. til þál. er að reyna að mæla með.