Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 13:46:59 (3976)



[13:46]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. á þskj. 194 en flm. ásamt mér eru þeir Halldór Ásgrímsson, Svavar Gestsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Finnur Ingólfsson, Guðrún Helgadóttir, Kristín Einarsdóttir, Ingibjörg Pálmadóttir og Steingrímur J. Sigfússon. Tillgr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að taka til endurskoðunar áform um staðsetningu nýs hæstaréttarhúss við Lindargötu 2 í Reykjavík þannig að komið verði í veg fyrir skipulags- og menningarslys í hjarta höfuðborgarinnar. Verði fyrirhuguðu dómhúsi fundinn annar staður.``
    Og í greinargerð segir, með leyfi forseta:
    ,,Dómhús það sem nú stendur við Lindargötu í Reykjavík og hýsir Hæstarétt Íslands er löngu orðið of lítið auk þess sem ástand þess er afar slæmt. Nú er áformað að reisa nýtt hús yfir Hæstarétt og var óskað eftir lóðinni Lindargötu 2 en hún hefur um árabil verið notuð sem bílastæði fyrir Arnarhvál, Landsbókasafnið og Þjóðleikhúsið. Samkeppni um nýtt hús hefur þegar farið fram og miðaðist hún við húsið risi

á bak við Landsbókasafnið við hlið Þjóðleikhússins og gegnt Arnarhváli.
    Það er skoðun flutningsmanna að verði reist nýtt dómhús á þessum ákveðna stað verði mikið skipulags- og þó einkum menningarslys. Eins og skipulagi háttar nú við Lindargötu og Hverfisgötu er mjög þrengt að Þjóðleikhúsinu þannig að sú sérstaka bygging, sem troðið var niður milli Landsbókasafns og íbúðarhúss Jóns Magnússonar, fyrrv. forsrh., fær engan veginn að njóta sín. Enn meira yrði þrengt að leikhúsinu með nýrri byggingu við Lindargötu. Það væri þó enn alvarlegra ef reist yrði bygging sem skyggði á eitt allra fegursta hús Reykjavíkur, Landsbókasafnið, sem byggt var í upphafi þessarar aldar. Nýbygging við Lindargötu 2 mundi óneitanlega skyggja á bakhlið hússins sem er afar fögur og sérstök í byggingarsögu borgarinnar. Enn er tími til að endurskoða fyrirhuguð áform um nýbyggingu yfir Hæstarétt og ekki skortir lóðirnar eða húsnæði sem hugsanlega mætti nýta fyrir Hæstarétt. Það verður að koma í veg fyrir enn eitt menningarslysið í borginni og það ber ríkisstjórninni að gera.``
    Þannig hljóðar greinargerðin, virðulegi forseti, en við hana er vissulega ýmsu að bæta.
    Þegar þessi tillaga var lögð fram fyrir allmörgum mánuðum, ég hygg að það hafi verið um mánaðamótin október/nóvember sem tillagan kom fram, stóð sú sem hér stendur í þeirri meiningu að nokkuð eðlilega hefði verið að öllu staðið varðandi þessa byggingu og svo hlyti að vera þar sem hið æðsta dómsvald ætti í hlut. En við nánari skoðun hefur komið í ljós að það er rétt þessa dagana sem lóðin Lindargata 2 er að verða til. Það er verið að ganga lögformlega frá því máli og eftir því sem ég best veit er lóðin Lindargata 2 hvorki til í lóðaskrá Reykjavíkur né hjá Fasteignamatinu.
    En það er nú kannski ekki mergurinn málsins þó það beri að vekja athygli á því hvernig staðið hefur verið að málinu heldur er megininntak þessarar tillögu sjálf staðsetning á lóð Safnahússins því bílastæðið sem fyrirhugað er að byggja nýtt hús Hæstaréttar á er og var hluti af lóð Safnahússins. Þar var fyrirhugað að útbúa garð. En á árinu 1956 var gerður sérstakur samningur til 20 ára milli ríkisins og Reykjavíkurborgar um að taka lóðina undir bílastæði en síðan var kveðið á um það að hygðist ríkið breyta afnotum af þessum hluta lóðarinnar þá yrði það að ganga hina lögformlegu leið.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að hér í landi gilda lög um opinberar framkvæmdir og hvernig að þeim skuli staðið en eftir því sem ég fæ næst komist er nú búið að auglýsa útboð vegna jarðvinnu við Hæstaréttarhúsið nýja án þess að hönnun hússins sé lokið og endanlegar teikningar liggi fyrir. Það er í rauninni alveg furðulegt að þannig skuli að verki staðið og maður spyr sig: Af hverju liggur svona á? Af hverju er ekki hægt að ljúka hönnun hússins þannig að hugsanlega verði hægt að halda kostnaði í böndum?
    En þessi aðferð, sem við þekkjum vel frá Ráðhúsinu í Reykjavík, að vera að teikna húsið nokkurn veginn jafnóðum og verið er að byggja það býður upp á mjög aukinn kostnað. Ég hlýt að vara við þessum vinnubrögðum. Þeir sérfræðingar sem ég hef haft samband við varðandi þetta hús telja að sú áætlun upp á 500 millj. sem gert er ráð fyrir að húsið kosti muni engan veginn standast.
    Eins og ég hef hér nefnt þá er mergurinn málsins hvers vegna í ósköpunum þessi staður var valinn. Þarna blasir við okkur Arnarhváll sem er bygging í klassískum fúnkisstíl teiknuð af Guðjóni Samúelssyni á sínum tíma, síðan er Þjóðleikhúsið líka teiknað af Guðjóni Samúelssyni í mjög sérstökum byggingarstíl og loks er svo Landsbókasafnið sem er eitt af eldri og fegurri húsum í Reykjavík. Og eins og ég nefndi í greinargerðinni þá er bakhlið hússins afar sérstök. Hún er afar fögur. Ég skora á þá þingmenn sem ekki hafa skoðað húsið sérstaklega að fara og horfa á Safnahúsið frá Lindargötunni vegna þess að sú hlið er afar fögur. Verði byggt Hæstaréttarhús á þessari lóð þá mun það skyggja á Landsbókasafnið og það sem meira er þarna verður klesst niður húsi í fjórða stílnum. Þarna mun ægja saman fjórum stílbrigðum á þessum litla bletti. Það þarf enginn að segja okkur að það sé ekki hægt að finna húsinu annan stað.
    Þegar samkeppni um Hæstaréttarhús var auglýst á sínum tíma stóð Arkitektafélagið að henni. Þeir kröfðust þess að samkeppni yrði haldin um teikningu þessa húss og náðu því fram. Þegar sú samkeppni var auglýst þá vildi svo sérkennilega til að það var ekki fylgt samþykktum skipulagsnefndar, borgarráðs og borgarstjórnar um byggingarreitinn heldur mátti svo skilja að öll lóðin væri til afnota og arkitektarnir mættu miða við alla lóðina. Því var það að sjálf verðlaunatillagan var í rauninni fyrir utan þann byggingarreit sem borgarráð og borgarstjórn hafði samþykkt en því var svo kippt í liðinn eftir á. Það var ekki fylgt þeirri línu sem samþykkt hafði verið en borgarstjórn samþykkti síðan breytingu á því skipulagi.
    Það er vert að vekja athygli á því að við erum að tala um framtíðarbyggingu yfir Hæstarétt, æðsta dómstig landsins, og því er valinn þessi þrönga lóð, þessi þrönga staðsetning, sem hlýtur að þýða að framtíðarstækkunarmöguleikar eru engir. Þeir eru engir. Í skipulagi hússins er gert ráð fyrir tveimur aukaherbergjum. Það liggur þegar fyrir Alþingi tillaga um fjölgun hæstaréttardómara og það liggur fyrir að Hæstiréttur, þar sem nú vinna fjórtán manns, er mjög undirmannaður. Þetta er undirmönnuð stofnun eins og reyndar fleiri stofnanir ríkisins. En í þessu húsi er gert ráð fyrir tveimur aukaherbergjum. Það gefur auga leið að þetta er ekki skynsamleg leið þegar horft er til framtíðar. Menn hafa oft brennt sig á því hér að ætla opinberum byggingum of lítið rými og síðan hefjast viðbyggingar. Mér dettur í hug Landspítalinn t.d. þar sem hefur verið byggt við Landspítalann í ýmsum stíltegundum. En þarna er verið að ætla húsi Hæstaréttar mjög þrönga lóð sem kann að hamla vaxtarmöguleikum Hæstaréttar til framtíðar. Ekki getum við sagt til um það nákvæmlega hér og nú hver þörf Hæstaréttar verður á komandi árum fyrir starfsfólk, dómara og þá aðstöðu sem þar þarf til að starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar geti verið með eðlilegum hætti.

    Það er til nóg af lóðum í Reykjavík sem hægt er að velja um fyrir Hæstaréttarhús og það er einnig til mikið af húsnæði sem er vannýtt eða stendur autt núna og ég tel að menn hafi alls ekki kannað þann möguleika til hlítar að finna annan stað eða annað húsnæði. Einhverra hluta vegna hafa menn orðið fastir í þeirri hugmynd að teikna og byggja húsið á þessum stað. En eins og fram hefur komið undanfarna daga er almenningur nú loks að vakna til vitundar um að það er að koma að framkvæmdastigi og það er þegar farin af stað hreyfing til að reyna að fá byggingunni frestað og að reyna að fá hæstv. dómsmrh. til að breyta þessari ákvörðun.
    Hæstv. dómsmrh. Þorsteinn Pálsson segir í Morgunblaðinu í dag að Alþingi sé búið að samþykkja þessa byggingu. Ég lít svo á að svo sé alls ekki. Það er að vísu búið að samþykkja fjárveitingar til Hæstaréttarhúss en það er ekkert sem segir að ekki sé hægt að breyta þessari staðsetningu. Þó að nokkur kostnaður hafi verið lagður í undirbúninginn þá er það ekki verjandi að byggja húsið á þessum stað. Það er einfaldlega ekki verjandi og það verður að koma í veg fyrir þetta menningarslys.
    Sl. þriðjudag birtist heilsíðuauglýsing í Morgunblaðinu þar sem fjöldi karla og kvenna mótmælir staðsetningu hússins og eins kom skoðanakönnun í Dagblaðinu í gær sem sýnir að meiri hluti þeirra sem spurðir voru eru á móti þessari staðsetningu. Það er því ljóst að það á að reisa þetta hús í andstöðu við vilja fólksins í landinu. --- Hér í salinn er nú mættur hæstv. forsrh. og ég skora á hann að beita sér í þessu máli. Það er ekki of seint að breyta þessari staðsetningu. Við getum einfaldlega ekki borið ábyrgð á því að þessu húsi Hæstaréttar verði komið þarna fyrir þannig að það skyggi á hið fagra safnahús. Það væri miklu nær að fylgja upphaflegum áformum sem staðfest voru í aðalskipulagi Reykjavíkur á sínum tíma og koma þarna fyrir torgi og garði. Þetta er algjör óþarfi. Það má færa rök fyrir því og spyrja sig þeirrar spurningar hvort það sé yfir höfuð réttlætanlegt að fara út í þessar framkvæmdir við Hæstaréttarhúsið. Það eru ýmsir þeirrar skoðunar að það hefði verið rétt að fresta því. Þegar menn eru hér með endalausar niðurskurðartillögur á félagslegri þjónustu þá spyrja menn auðvitað: Hvað réttlætir það að fara út í byggingu á þessu húsi?
    Ég hef litið svo á og er alveg sannfærð um að það er illa búið að Hæstarétti og þarf að finna lausn á hans málum. En enn og aftur. Þessi staðsetning er ekki ásættanleg og ég skora á ríkisstjórnina og Alþingi að taka þetta mál til endurskoðunar og ég skora á hv. allshn., sem mun fá þessa tillögu til meðferðar, að veita henni snögga meðferð þannig að Alþingi geti gert upp hug sinn í þessu máli og orðið við þeim vilja meiri hluta þjóðarinnar að finna þessu húsi annan stað.
    Virðulegi forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málinu verði vísað til hv. allshn. og síðari umræðu.