Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:01:10 (3977)


[14:01]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég tel mjög nauðsynlegt að byggja hús yfir starfsemi Hæstaréttar. Það er ekki vafi á því að sú vinnuaðstaða sem Hæstiréttur býr nú við er fyrir neðan allar hellur og það er afskaplega brýnt að bæta þá starfsaðstöðu og reyndar önnur vinnuskilyrði réttarins. En ég segi líka að mér finnst koma fyllilega til greina að skoða aðra staðsetningu miðað við þann hljómgrunn sem þessi staðsetning hefur fengið. Þar mætti hugsa sér til að mynda lóð við Skúlagötu við hliðina á sjútvrn. þar sem menn veltu fyrir sér á sínum tíma að reisa nýtt utanrrn. Nú gera menn ráð fyrir að utanrrn. fari væntanlega í hús Byggðastofnunar og landbrn. í hús við Sölvhólsgötu. Ég tel að það komi fyllilega til álita að þetta hús Hæstaréttar verði fært niður á Skúlagötu.