Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:10:08 (3980)


[14:10]
     Páll Pétursson :

    Frú forseti. Ég vil lýsa stuðningi mínum við þessa tillögu sem hér er til umræðu. Nú er ekki um það deilt að Hæstiréttur sé í húsnæðisvandræðum og ég tel að það verði að bæta úr þeim og það verði að gera vel við Hæstarétt. Hæstiréttur þarf að hafa hentugt og virðulegt starfsumhverfi þannig að hann geti skilað sínu verki með sóma. Hæstiréttur verður að njóta trausts þjóðarinnar og það hefur verið ömurlegt að hlusta á það undanfarna daga þegar sjálfstæðismenn hafa verið í umræðum um EFTA-dómstólinn að halda því fram að hentugra sé að senda mál til meðferðar í EFTA-dómstólnum til þess að grynnka á málafjöldanum í Hæstarétti. Þessir menn hafa haldið því blákalt fram að eðlilegra væri og hentugra að láta EFTA-dómstólinn dæma í fleiri málum en færri til þess að létta á Hæstarétti. Þetta er ekki einasta vanvirðing við Hæstarétt heldur er líka í þessu mikill aumingjaskapur og ósjálfstæði hjá sjálfstæðismönnum. Hæstiréttur þarf ekki bara að hafa gott húsnæði. Ég tel líka að Kjaradómur eigi að ákvarða hæstaréttardómurum góð laun þannig að dómarastörf í Hæstarétti freisti okkar bestu lögfræðinga. Það verður að launa Hæstarétt og það á Kjaradómur að gera eða ákvarða þeim laun þannig að þau laun sem þar standa til boða séu a.m.k. jafngóð þeim sem okkar færustu lögfræðingar hafa í öðrum störfum. Annars laðast ekki bestu lögfræðingar þjóðarinnar á hverjum tíma til starfa í Hæstrétti.
    Mér finnst hins vegar fráleitt að ætla að byggja Hæstarétti hús á lóðinni við Lindargötu 2. Það er að vísu búið að hanna það hús sem fór út fyrir upphaflegan byggingarreit, liggur of nærri Lindargötu. Arkitektarnir fóru kannski tilneyddir eða þeir höfðu nokkur rök fyrir sínu máli að teygja sig þarna út af reitnum vegna þess að þeir voru að reyna að hlífast við að klessa þessu húsi alveg upp í Landsbókasafnið. Ég hef aflað mér upplýsinga um gang þessa máls í borgarstjórn Reykjavíkur og borgarkerfinu. Meiri hluti sjálfstæðismanna knúði þetta mál fram bæði í skipulagsnefnd, í borgarráði og borgarstjórn gegn andmælum minni hlutans þannig að það eru sjálfstæðismenn sem einir bera ábyrgð á þessari vitlausu hugmynd að setja húsið þarna niður. Því fagna ég sérstaklega andsvari forsrh. sem hann gaf hérna áðan um það að hann telji koma til greina að velja húsinu annan stað. Og það er miklu skynsamlegra en hrokafullt svar hæstv. dómsmrh. í Morgunblaðinu í dag þar sem hann svarar því til að Alþingi hafi þegar samþykkt bygginguna og ekki verði aftur snúið. Þetta svar gerði síðasti hv. ræðumaður að umtalsefni og sýndi náttúrlega fram á það að Alþingi hefur ekki tekið ákvörðun um að byggja á þessari lóð og það er vel hægt að snúa til baka frá þeim óskynsamlegu plönum sem uppi hafa verið um að byggja á lóðinni. Þessi staður er umkringdur mjög fögrum og sögufrægum byggingum, Arnarhváli, Þjóðleikhúsinu og Landsbókasafninu og það er ekkert pláss fyrir þessa byggingu, ekki nægilegt rými fyrir byggingu Hæstaréttar á þessari lóð. Það er reyndar sérmál hvernig farið var með Þjóðleikhúsið með því að setja bílahótelið skrímslislega hinum megin við Hverfisgötu sem ber Þjóðleikhúsið að vissu leyti ofurliði, þetta bílahótel. Þjóðleikhúsið á það alls ekki skilið að enn meir sé þrengt að því. Ég er á því að Hæstiréttur þurfi nýtt eða annað húsnæði. Ég er ekki á sama máli og síðasti ræðumaður, mér finnst að það geti vel komið til greina að koma Hæstarétti fyrir í Landsbókasafnshúsinu. Ég minni á ágæta grein eftir fyrrv. forseta Hæstaréttar, Magnús Thoroddsen, sem hann skrifaði einhvern tíma í haust um það efni og ef ég man rétt, þá taldi hann að það væri hægt að koma Hæstarétti með mjög hentugu móti og ódýru fyrir í Landsbókasafnshúsinu og ég tel að það væri staður sem Hæstiréttur væri ágætlega sæmdur af og ég held að menn ættu að skoða þann möguleika nánar.
    Ég hef stundum haldið því fram og það er reyndar mín skoðun að Alþingi ætti að leysa sinn húsnæðisvanda með því að færa stofnunina héðan úr miðbænum og fá einhvers staðar rúmgóða lóð, t.d. að Korpúlfsstöðum eða einhvern fagran stað í borgarlandinu þar sem Alþingi gæti reist sínar byggingar og haft nægilegt svigrúm og þá væri út af fyrir sig hægt að leysa húsnæðismál Hæstaréttar með því að láta hann fá Alþingishúsið. Nú á ég ekki von á því að þessi hugmynd mín, sem ég hef reyndar hreyft hvað eftir annað á undanförnum árum þegar menn hafa verið að hugsa um að byggja alls konar skrímslishús í nágrenni Alþingishússins til þess að bæta úr húsnæðisskorti Alþingis, verði samþykkt en ég tel að ef menn á annað borð ætla að byggja þá komi vel til greina eins og hæstv. forsrh. benti á að byggja við hlið sjútvrn. eða jafnvel á Sláturfélagslóðinni innar með Skúlagötu. En það er með þetta mál og þessa ákvörðun eins og annan klaufaskap sjálfstæðismanna og ég tel að Alþingi eigi að samþykkja þessa tillögu og það fyrr en seinna.