Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:22:46 (3982)


[14:22]
     Ingibjörg Sólrún Gísladóttir :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins leggja orð í belg í þá umræðu sem hér hefur farið fram um staðsetningu nýs Hæstaréttarhúss þó að það megi nú kannski segja að það sé óþarfi vegna þeirrar stefnu sem málið hefur tekið hér við umræðuna. Mál af þessu tagi eins og hér er um að ræða, þ.e. að leggja til breytta staðsetningu Hæstaréttarhúss er í eðli sínu þverpólitískt mál. Það er ekki og á ekki að vera flokkspólitískt mál. Það er þannig eðli málsins samkvæmt að fólk hlýtur að taka afstöðu til húsagerðarlistar og skipulagsmála, sérstaklega skipulagsmála af þessu tagi, meira út frá tilfinningu sinni og smekk en pólitískum sjónarmiðum. Þetta er ekki bara í eðli málsins heldur er það þannig í raun eins og skoðanakönnun DV sýnir því að þar kemur fram að þessi staðsetning Hæstaréttarhúss nýtur afskaplega lítils stuðnings meðal Reykvíkinga og má þá einu gilda hvar í flokki það fólk stendur, þ.e. meiri hluti Reykvíkinga er andsnúinn húsinu og á það jafnt við um þá sem tilheyra stjórnarflokkum og stjórnarandstöðuflokkum.
    Þá hefur málið líka öðlast aukið þverpólitískt vægi með því að hæstv. forsrh. hefur lýst því hér yfir að hann telji eðlilegt að skoða nýja staðsetningu þessa húss. Ég lít svo á að þetta sé mjög mikilvæg yfirlýsing sem forsrh. hafi gefið hérna og gefi þessu máli mun meira vægi en ella og þýði það að flestar líkur séu á því að þetta verði endurskoðað. Ég lít svo á að þegar forsrh. hefur talað með þessum hætti þá bendi allt til þess að málið verði tekið til endurskoðunar þannig að tillagan nái í raun fram að ganga.
    Þá vil ég líka benda á að ég held að það hafi verið í einhverju dagblaðanna, hvort það var í dag eða gær, að þar var viðtal við Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson borgarfulltrúa og formann skipulagsnefndar þar sem hann taldi vel koma til álita að borgin leitaði að nýrri lóð fyrir þetta hús þannig að það hefur mjög víða komið fram stuðningur við að endurskoða þessa ákvörðun. Mér finnst þetta reyndar segja mér það eina ferðina enn að íbúar í tilteknu sveitarfélagi, íbúar í Reykjavík, hafa mjög mikið vit á skipulagsmálum og byggingarmálum. Því er gjarnan haldið fram að íbúarnir séu íhaldssamir og það má kannski til sanns vegar færa enda eðlilegt að íbúar séu nokkuð íhaldssamir á umhverfi sitt því að hús sem á að byggja, hvort sem það er nú ráðhús eða Hæstaréttarhús, eru þess eðlis að þau hljóta að setja mjög mikinn svip á umhverfi sitt og þau standa til frambúðar þannig að það er eðlilegt að menn fari sér hægt í slíkum málum og séu að vissu leyti íhaldssamir. En íbúarnir hafa mikið vit á þessum málum og það finnst mér hafa sýnt sig með ráðhúsið. Þorri íbúa í Reykjavík var á móti byggingu ráðhússins. Það var líka gerð skoðanakönnun þegar stóð til að byggja ráðhúsið þar sem kom fram að meiri hluti Reykvíkinga var á móti því og ég held að það sjái það svona flestir sem það vilja sjá og vilja viðurkenna að það hús, burt séð frá byggingarlistinni sjálfri, fer afskaplega illa á þeim stað þar sem það stendur og ég hef sannfærst í þeirri trú minni fremur en hitt. Oft er það þannig að maður sér kannski þegar hús er risið að þetta var í lagi en það á ekki við í því tilviki.
    Það á heldur ekki við í tilvikinu sem Reykvíkingar beittu sér mjög gegn á sínum tíma og það var bygging Hallgrímskirkju sem mér finnst alltaf að liggi eins og selur ofan á Reykjavíkurborg og hafi verið mistök að reisa þá byggingu með þeim hætti sem gert var og ég held að Reykvíkingar sem mótmæltu því á þeim tíma hafi haft rétt fyrir sér.
    Þá finnst mér líka Reykvíkingar hafa haft rétt fyrir sér varðandi Seðlabankahúsið en mótmælin þá urðu til þess að húsið var flutt mun neðar í hólinn en til stóð og það var búið að taka grunn að húsinu miklu ofar á Arnarhól. Húsið var flutt og ég held að það hafi verið til mikilla bóta fyrir þetta umhverfi að það skyldi gert. Þetta staðfestir þá skoðun mína að íbúar hafi heilmikið vit á því hvað fari vel í þeirra nánasta umhverfi og það sé ástæða til þess að hlusta á þær raddir og ég vona svo sannarlega að það verði núna hlustað og mér fannst forsrh. svona slá taktinn hvað það varðar.
    Hér hefur aðeins komið upp umræða um nýtingu Safnahússins og hvort Hæstiréttur ætti hugsanlega að fara þangað inn ef ekki yrði af þessari byggingu. Ég vil lýsa mig andsnúna þeirri hugmynd. Safnahúsið var byggt sem menningarhús og það á að nýta það hús áfram með þeim hætti og ég sé það mjög vel fyrir mér sem hv. þm. Svavar Gestsson nefndi hérna og hefur reyndar komið áður fram í umræðum um Safnahúsið að það verði notað sem sýningaraðstaða fyrir þær þjóðargersemar sem við eigum og sem eru afskaplega óaðgengilegar úti í Árnastofnun þar á bak við lás og slá og sú bygging og það umhverfi allt saman ekki beinlínis til þess fallið að laða fólk til að skoða þessar gersemar okkar þannig að ég vil lýsa

andstöðu minni við þá hugmynd að Safnahúsið verði tekið undir Hæstaréttarhús. Hins vegar get ég vel séð fyrir mér bæði að það yrði byggt yfir Hæstarétt hús bæði í tenglsum við Hegningarhúsið uppi á Skólavörðustíg og það mundi hæfa hegningarhúsinu í sjálfu sér vel að fá svona nýtt hlutverk tengt réttarkerfinu og eins get ég séð það mjög vel fyrir mér sem hæstv. forsrh. nefndi hér áðan að byggja Hæstaréttarhús við hliðina á sjávarútvegshúsinu niðri við Skúlagötu og það er í mínum huga mjög virðuleg staðsetning og hæfir vel húsinu. Það er gott aðgengi sem þar fengist að Hæstaréttarhúsi, þar er fallegt útsýni til sjávarins og í alla staði væri Hæstiréttur mjög vel staðsettur þar.
    Virðulegur forseti. Ég tel enga ástæðu til að lengja þessa umræðu. Mér finnst hún hafa tekið þá stefnu að við eigum bara að vinda okkur í það að koma tillögunni til allshn. og koma henni þaðan út sem fyrst aftur og ég sé ekki að nefndin þurfi að taka mjög langan tíma í það mál og samþykkja hana síðan á hv. Alþingi.