Staðsetning hæstaréttarhúss

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:37:23 (3984)


[14:37]
     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Þessi dagur verður mér minnisstæður umfram aðra daga ef það á eftir að sannast að tvisvar sinnum í dag hefur forustumaður Sjálfstfl. tekið undir mitt mál. Hér sat ég á forsetastóli í morgun og hlýddi á mál hv. 3. þm. Reykv., Björns Bjarnasonar, í hvalamálinu. Þar hélt hann nærri orðréttar fyrri ræður mínar sem umturnuðu þjóðarsálinni vikum saman en nú deplar enginn auga en auðvitað var ég hjartanlega sammála hverju orði sem hv. þm. sagði. Og aðeins nokkrum klukkustundum seinna gerast svo þau undur og stórmerki að hæstv. forsrh. tekur undir þáltill. sem ég er aðili að, og ég verð að segja, frú forseti, að þetta er mikil nýlunda í mínu lífi og þess vegna geri ég það að umræðuefni.
    Ég er ein af flm. þessarar tillögu og skal ekki lengja mikið umræður um hana. Ég held að það sé alveg hárrétt sem hv. 10. þm. Reykv. sagði hér áðan að það er fátt afdrifaríkara fyrir borgara eða íbúa þessarar borgar en þegar ákvörðun er tekin um að reisa stórhýsi vegna þess að þegar búið er að byggja það þá er það þar og verður. Við höfum auðvitað orðið vitni að skelfilegum slysum hér í skipulagi í höfuðborginni, slysum sem aldrei verða bætt, gömul menningarmannvirki sem rifin voru og misjafnlega vel heppnaðar byggingar reistar í staðinn. Þess vegna ber hverjum einasta íbúa borgarinnar að standa vörð um að annað eins og þetta gerist ekki. Dæmin eru alls staðar og þess vegna er nú höfuðborgin okkar ekki alls staðar jafnfalleg því að eftirstríðsárabyggingarlistin og áratuganna þar á eftir er ekki til sóma fyrir þá sem að henni stóðu.
    Ég held að það væri mikið óráð að fara að troða dómhúsi þarna á þessu torfu milli Arnarhvols, Þjóðleikhúss og Landsbókasafns og hef fyrir því sömu rök og hv. 1. málflytjandi færði fyrir sínu máli hér áðan. Það er nóg landrými í Reykjavík til þess að reisa á hús yfir Hæstarétt sem eins og hér hefur líka verið sagt býr við óþolandi vinnuskilyrði og þarfnast svo sannarlega betra húsnæðis. Menn geta svo spurt sig hvort alltaf sé nauðsynlegt að byggja. Hér eru stórhýsi auð og ónotuð, glæsileg í meira lagi, og nægir að nefna Sambandshúsið svo að eitthvað sé nefnt en mér er auðvitað ljóst að nokkuð þarf að sérhanna dómsal og önnur þau híbýli sem Hæstiréttur þarfnast.
    Hins vegar vil ég aðeins leiðrétta hv. 1. þm. Norðurl. v., og gerist þess nú sjaldnast þörf en í þessu tilfelli er það brýn nauðsyn. Ég held nefnilega að Landsbókasafnið breyti ekki mikið um hlutverk þó að Þjóðarbókhlaða taki til starfa. Það er löngu ljóst að hún er þegar of lítil og ég er ekki í nokkrum vafa um að Þjóðarbókhlöðufólk telur sig þurfa að hafa áfram afnot af húsi Landsbókasafns og þess vegna held ég að við eigum ekki að líta til þess með annað hlutverk fyrir augum. Ég held að það verði full þörf fyrir það á vegum Þjóðarbókhlöðu.
    Alþingishúsið held ég að yrði allt of lítið hvort sem er fyrir Hæstarétt. Ég held að hv. 1. þm. Norðurl. v. hafi ekki áttað sig á því hversu lítið hús þetta er sem við hér búum í og væri áreiðanlega með öllu ófullnægjandi fyrir Hæstarétt svo ég held að við ættum að gleyma því. Og ekki vil ég heldur taka undir hans mál um að fara að flytja Alþingi upp að Korpúlfsstöðum og veit ég nú ekki hvaðan þingmanninum kom sú hugmynd.
    Sannleikurinn er sá að ég er ekki eins viss um það og allir þeir sem hér hafa talað að Hæstiréttur eigi endilega að vera í miðbænum. Ég held að það geti að sumu leyti verið ágæt tillitssemi við þá sem þurfa stundum að standa fyrir rétti að þeir þurfi ekki að vera fyrir allra augum hér í þröngum götum miðbæjarins heldur sé meira rými kringum dómhúsin til þess að menn geti farið þar án þess að allir séu á eftir þeim. Ég held þess vegna að það sé ekki neitt höfuðmál. Þess vegna gæti ég ósköp vel hugsað mér að hægt væri að gera nauðsynlegar breytingar á t.d. Sambandshúsinu, það gæti nýst Hæstarétti mjög vel svo ein hugmynd sé tekin og sett fram hér.
    En hvað sem um þetta allt er, um þetta má auðvitað ræða lengi, er aðalatriðið þetta: Það væri mikið slys ef farið væri að troða húsi Hæstaréttar niður þar sem hugmyndin er nú og ég fagna því sérstaklega ef hæstv. forsrh. hefur séð þetta líka og er tilbúinn til þess að koma til móts við skoðanir þúsunda

Reykvíkinga sem lýst hafa óánægju sinni með þetta. Þess vegna vil ég, hæstv. forseti, mælast til þess við hv. þm. að þessi tillaga verði samþykkt og þar með komið í veg fyrir að þetta slys eigi sér stað.