Græn símanúmer

87. fundur
Fimmtudaginn 10. febrúar 1994, kl. 14:47:17 (3986)


[14:47]
     Flm. (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um græn símanúmer hjá ráðuneytum og stofnunum ríkisins, en flm. ásamt mér eru hv. þm. Egill Jónsson, Vilhjálmur Egilsson, Matthías Bjarnason, Tómas Ingi Olrich, Sturla Böðvarsson og Eggert Haukdal. Tillögugreinin hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að sjá til þess að sett verði upp græn símanúmer í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins og helstu stofnunum ríkisins svo að auðveldara og hagkvæmara verði fyrir þá landsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að ná til æðstu starfsmanna stjórnsýslunnar með sín mál.``
    Um þetta mál mætti hafa allnokkur orð og það hyggst ég gera á grundvelli þeirrar greinargerðar sem þáltill. fylgir.
    Mikil breyting hefur orðið á uppbyggingu gjaldskrár fyrir símtöl innan lands. Taxti fyrir langlínusamtöl hefur lækkað mikið en taxti fyrir staðarsímtöl hækkað lítillega. Af þessum sökum lækkaði símakostnaður innan lands að raungildi um 13% frá meðaltali ársins 1987 til ársins 1992 ef miðað er við framfærsluvísitölu.
    Það er líka rétt að geta þess að allt frá því í nóvember 1981 hefur hlutfall þriggja mínútna staðarsímtala að degi til og lengri langlínusamtala lækkað úr því að vera 1:10,7 í það að vera 1:3,8. Hlutfall 20 mínútna símals hefur á sama tíma lækkað úr því að vera 1:23,1 í 1:6,4 á sama tíma. Þá sýnir alþjóðleg samanburðarnotkun OECD að símanotkun innan lands er ódýrust hér á landi ef borið er saman við þau ríki sem OECD hafði undir í sinni athugun.
    Þetta sýnir okkur það að verulegur árangur hefur að sjálfsögðu náðst í því að jafna símakostnaðinn. Þetta er þó ekki öll sagan vegna þess að jafnframt þessu hefur gjaldflokkssvæðum verið breytt til þess að jafna símakostnað notenda. Í þessu sambandi mætti nefna nokkur dæmi.
    Gjaldflokkssvæði t.d. á Vestfjörðum voru miklu fleiri fyrir allnokkrum árum en þau eru nú í dag. Hér áður og fyrr kostaði það meira fyrir mann sem hringdi frá Ísafirði til Þingeyrar eða frá Ísafirði inn í Ísafjarðardjúp en að hringja innan bæjar. Í dag er það hins vegar þannig að gjaldflokkssvæðið nær yfir miklu stærra landsvæði, dekkar fleiri íbúa og þar með verður símakostnaðurinn bara af þeim ástæðum mun lægri en hann var fyrir fáeinum árum síðan. Þrátt fyrir það er það þannig að símakostnaður er almennt hærri úti á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu og eðli málsins samkvæmt þurfa landsbyggðarbúar meira að nota langlínusamtöl sem eru dýrari en staðarsímtölin. Þetta stafar af því að verulegur hluti allrar almennrar þjónustu, jafnt opinberrar þjónustu sem annarrar þjónustu, er staðsettur á höfuðborgarsvæðinu og þangað þarf landsbyggðarfólk tíðum að leita, margvíslegra erinda. Af þessu hlýst töluverður kostnaður sem um munar í pyngju fólks og fyrirtækja á landsbyggðinni.
    Þetta er kannski ekki síst athugavert að ræða í ljósi þeirrar umræðu sem oft fer fram um það hvar eigi að staðsetja opinberar stofnanir. Ég tel það ekki allsherjarlausn á vanda strjálbýlisins að flytja stofnanir út á land. Um það verða menn að taka afstöðu hverju sinni, um hverja stofnun fyrir sig. En þetta er auðvitað þýðingarmikill þáttur. Þegar verið er að athuga hvernig framfærslukostnaður heimilanna skiptist þurfa menn að skoða einmitt hversu langt fólk þarf að sækja sína þjónustu og í hversu mikinn kostnað fólk þarf að leggja til að fá þá þjónustu sem eðlileg er í nútímaríki. Þess vegna er ekki óeðlilegt að fólk þurfi að hringja mörg símtöl á langlínutaxta áður en niðurstaða fæst þegar fólk er að leita erinda í ráðuneyti og stofnanir í Reykjavík. Við þekkjum það líka að það er mjög algengt að fólk þurfi að bíða eftir samtali með ærnum tilkostnaði. Viðkomandi er oft og tíðum ekki til staðar, viðkomandi er á tali og síðast en ekki síst hafa erfiðleikarnir við að ná í gegn oft verið miklir vegna þess að símakerfið okkar hefur verið svo laklegt þó það hafi sem betur fer batnað á undanförnum árum.
    Fyrir allnokkrum árum tók Póstur og sími upp á því að bjóða upp á svokölluð ,,græn símanúmer``. Þegar fólk hringir í slík númer greiðir það aðeins fyrir samtölin eins og þau færu fram innan bæjar eða á taxta staðarsímtala. Mismuninn greiða eigendur viðkomandi númera. Í upphafi varð vart við nokkurn áhuga á þessu fyrirkomulagi en því miður hefur allt of hægt gengið við útbreiða það. Samkvæmt upplýsingum frá Pósti og síma eru slík græn símanúmer nú 73 hér á landi og þau eru öll staðsett á höfuðborgarsvæðinu, allflest í Reykjavík. Þá eru dæmi um að erlendir aðilar hafi boðið upp á slíka þjónustu hér á landi.
    Ég tel ástæðu til að vekja athygli á því að það er nokkuð misjafnt eftir opinberum stofnunum hvernig þær standa sig í þessu tilliti. Stofnanir eins og t.d. Póstur og sími, Lánasjóður íslenskra námsmanna og Byggðastofnun hafa staðið sig býsna vel að mínu mati. Þessar stofnanir allar hafa tekið vel við sér og sett upp slík græn símanúmer þó að töluvert skorti á það líka hjá þeim að slíkum grænum símanúmerum sé komið fyrir í útibúum og skrifstofum þessara stofnana eins og annarra stofnana út um allt land til að jafna símakostnaðinn að þessu leyti.
    Því miður er það svo að almenningur nýtur þessa möguleika ótrúlega lítið. Á því eru augljósar skýringar. Þessi kostur hefur almennt ekki verið nægjanlega kynntur og fyrirtæki og stofnanir vekja sjaldnast mikla athygli á því að upp á hann sé boðið. Öðru máli gegnir í þeim takmörkuðu tilvikum þar sem rækileg athygli hefur verið vakin á hinum ,,grænu símanúmerum``. Þar er notkunin mun meiri. Þetta finnst mér afar athyglisvert vegna þess að ég hef orðið var við það sérstaklega eftir að þessi þáltill. var lögð fram að mjög margir hafa komið að máli við mig og sagt sem svo: Við hreinlega gerðum okkur ekki grein fyrir því að þessi möguleiki væri til staðar, þessi tæknilegi möguleiki til að jafna okkar símakostnað væri til staðar og við höfðum ekki hugmynd um að stofnanir og fyrirtæki byðu upp á þennan kost. Ég vek athygli á því að í þeim tilvikum sem þetta hefur verið rækilega auglýst, t.d. á vegum Pósts og síma, þá er þessi kostur notaður talsvert mikið.
    Með því að fara yfir meðfylgjandi lista um úthlutun grænna númera --- þ.e. lista sem birtist sem fylgiskjal með þáltill. --- þá kemur í ljós að sárafáar ríkisstofnanir bjóða upp á þessa símaþjónustu. Á honum má sjá að aðeins sex stofnanir ríkisins gefa viðskiptavinum sínum kost á að nota græn símanúmer. Nokkrar stofnanir skera sig þó úr og bjóða fram þessa þjónustu. Hvað varðar Stjórnarráðið sérstaklega þá hafa eingöngu ráðuneyti samgöngumála og landbúnaðar yfir grænum símanúmerum að ráða. Alþingi, sjálf löggjafarsamkoman, hefur ekki grænt símanúmer upp á að bjóða. Þá vekur það athygli að hvorugur ríkisbankanna og enginn sparisjóður býður viðskiptavinum sínum þessa þjónustu en þess er skylt að geta að menn eiga þess kost að hringja í grænt símanúmer vilji þeir nota sér þjónustusíma banka og sparisjóða er veitir upplýsingar um stöðu innlánsreikninga.
    Það ætti að vera metnaðarmál þeirra einkafyrirtækja sem eiga viðskipti út um landsbyggðina að gefa viðskiptavinum sínum kost á að hringja í græn símanúmer. Er það vel að ýmis þeirra hafa sýnt þessu skilning og það jafnvel meiri skilning en ríkisstofnanir almennt. Því er tvímælalaust ástæða til að hvatt sé til þess að ríkisstofnanir og ráðuneyti komi sér undantekningarlaust upp grænum símanúmerum svo auðveldara verði og hagkvæmara fyrir landsmenn sem búa utan höfuðborgarsvæðisins að ná til æðstu starfsmanna stjórnsýslunnar með sín mál.
    Ástæða er líka til að undirstrika að slíkt fyrirkomulag á vitaskuld að ríkja á útibúum og skrifstofum þessara stofnana sem hafa aðsetur utan höfuðstöðva þeirra, svo sem hjá Ríkisútvarpinu og Vegagerð ríkisins svo dæmi séu nefnd.
    Ég fagna því að ég hef orðið var við það að frá því að þessi þáltill. var lögð fram hefur hún notið talsverðrar athygli, nokkur blaðaskrif hafa af henni sprottið og ég hef orðið var við að innan ýmissa stofnana sem ekki hafa haft upp á slíka þjónustu að bjóða hefur vaknað áhugi á því að koma upp þessari þjónustu. Það hefur að vísu verið nefnt í þessari umræðu að með þessu sé ekki stigið fullt skref til jöfnunar símakostnaðar og það er vissulega alveg rétt. En hér er hins vegar að mínu mati stigið veigamikið skref og auðvelt skref sem hægt er að hrinda í framkvæmd mjög hratt. Hér koma engir tæknilegri annmarkar eða neinir slíkir annmarkar í veg fyrir að hægt sé að koma þessu máli í höfn. Hér er hægt nánast með einni ákvörðun á einum tíma að koma upp grænum símanúmerum víða og draga þannig úr mismunandi símakostnaði íbúa landsins eins og málum er háttað í dag.
    Ég vil í þessu sambandi enn fremur segja að athygli mín hefur verið vakin á því að ein ríkisstofnun, Veðurstofa Íslands, hefur nokkrar tekjur af að selja út þjónustu sem fram fer í gegnum svokölluð græn símanúmer. Með þessari þáltill. yrði engin breyting á þeim möguleika Veðurstofunnar að afla sér sértekna. Hér er eingöngu verið að tala um að jafna símakostnað og það hefur að sjálfsögðu engin áhrif á það þó tilteknar stofnanir afli sér sértekna með þeim hætti sem Veðurstofa Íslands gerir.
    Að svo mæltu, virðulegur forseti, lýk ég máli mínu og legg til að að lokinni þessari umræðu fari þáltill. til hv. samgn. og 2. umr.